146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að segja ykkur sögu. Það voru kosningar fyrir nokkrum mánuðum. Á kjördag — sömu aðilar og voru í kjörnefndum og mátu kosningarnar og áttu að fylgjast með þeim — er uppáskrifað að sama dag hækka laun þingmanna um 47% ef tekið er þetta ár. Ef farið er allt aftur til ársins 2006, þar sem lækkun á launum þingmanna er inni í því, í kringum 2008–2009, er það samt sem áður 21% hækkun umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði.

Þetta er ólöglegt samkvæmt lögunum eins og þau standa núna. Þess vegna talaði ég við lögfræðing og athugaði hvort ég gæti ekki kært þetta mál ef því væri ekki snúið við svo það myndi ekki valda þeim vandræðum sem það má ekki valda. Það má ekki skapa hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks. Það má ekki. Greinargerðin með lögunum eins og þau standa í dag segir það. Það er lögbrot. En það er nákvæmlega það sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ segja að úrskurður um þessa miklu launahækkun hafi valdið. Hvað gerðist í kjölfarið? Í kjölfarið sögðu kennarar upp, fullt af kennurum sagði upp út af þessari ákvörðun. Svo var möguleiki á verkfalli og samið var um rúm 11% miðað við meðallaun o.s.frv. Þetta þýðir að í febrúar, ef aðilar á vinnumarkaði ákveða að segja að farið sé umfram samninga núna, segja menn: Nú slítum við samningum, þeir eru lausir, við þurfum að semja upp á nýtt, annars verða verkfallshrinur í maí. Það er upplausn á vinnumarkaði. Kjararáð tók ákvörðun samkvæmt lögum, eins og þau eru núna, en skapaði hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks. Upplausn verður á vinnumarkaði. Tekið er sérstaklega fram í greinargerð með lögunum, eins og þau standa núna, að þetta geti valdið efnahagsóstöðugleika. Þess vegna má þetta ekki.

En þetta á allt að fjarlægja. Í frumvarpinu sem við ræðum núna frá hæstv. flutningsmanni, Bjarna Benediktssyni, og öðrum þingmönnum á bara að fjarlægja þetta. Ég talaði aftur við lögfræðinginn minn í morgun og ég ætla að fara að ganga í þau skref sem þarf að taka til að kæra kjararáð fyrir þessa ákvörðun. En ef þessi lög verða að veruleika getur sú kæra staðið en ef þeir taka aftur svona óábyrga ákvörðun í framtíðinni, ef þessi lög verða að veruleika, ef við samþykkjum hér í þingsal þessi lög, óbreytt, sem aftur rammar það inn að þau megi ekki gera þetta, þá getur kjararáð bara tekið svoleiðis ákvörðun og ég eða þið eða hver sem er gæti ekkert kært það. Það væri ekki lengur ólöglegt. Það væri ekki lengur ólöglegt fyrir þá að valda upplausn á vinnumarkaði með ákvörðunum sínum.

Það er meðal þess sem við þingmenn stöndum frammi fyrir að taka ákvörðun um.

Ég sé að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson er kominn í sal. Ég þakka kærlega fyrir það. Tökum bara tímalínuna á þetta, tökum söguna. Hæstv. ráðherra segir nefnilega rétt eftir kjördag þegar í ljós kemur að þingmenn hafa fengið þessa gríðarlegu hækkun á launum — ASÍ og SA sögðu: Þetta mun valda upplausn á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins sögðu: Ef Alþingi bregst ekki við þessu — það er ekki alveg orðrétt en það er það sem þeir sögðu í rauninni. Og ASÍ sagði: Og snúa þróuninni við. Það verður upplausn á vinnumarkaði í boði Alþingis. En þá segir hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson: Ég var löngu búinn að leggja fram frumvarp um kjararáð. Það þarf að laga þetta, endurskoða kjararáð. Það er það frumvarp sem við ræðum núna. Sama frumvarp, endurskoðað eitthvað lítillega. En það sama frumvarp fjarlægir ákvæði um að það sé ólöglegt fyrir kjararáð, tekur það úr lögunum eins og þau eru núna. Ákvörðun kjararáðs eins og það tók á kjördag núna um að hækka laun okkar þingmanna og fleiri væri ekki lengur ólögleg. Þetta frumvarp er viðbrögðin við þeirri ákvörðun kjararáðs: Ef þið takið svona ákvarðanir í framtíðinni eruð þið ekki lengur að brjóta lög. Gerið svo vel.

Ég myndi vilja fá viðbrögð ef hæstv. fjármálaráðherra gæti komið í andsvör við þessu. Hvort þetta sé þá ekki bara yfirsjón eða ég að misskilja eitthvað sem ég held ekki því að ég er búinn að tala við aðila á vinnumarkaði. Það er ekki. Og hvort við lögum þetta þá ekki. Núna er tækifærið. Setja það þar inn þannig að það sé alveg ljóst að kjararáð megi ekki taka ákvarðanir sem fara út fyrir þann ramma sem er að gerast á almennum vinnumarkaði. Eins og það er í lögunum núna, talað er um að taka verði tillit til kjaraþróunar á vinnumarkaði, þá er það bara ekki nógu sterkt. Það er ekki lengur ólöglegt samkvæmt greinargerðinni. Sem er búið að fjarlægja ef við samþykkjum þessi lög.

Svo gerist hvað? Annað gerist líka. Eftir þessa ofboðslegu launahækkun skulum við horfa á hið pólitíska landslag, hvernig það þróaðist. Eftir að landsmenn sjá og þeim ofbýður þessi mikla launahækkun frá kjararáði, rétt eftir kosningar, fer ég á Rás 2 á mánudegi strax eftir kosningar og er í útvarpinu með hv. þm. Sigríði Andersen. Fólk getur bara fundið það á netinu. Þar kemur fram í máli hennar að þingmenn hafi vitað þetta fyrir löngu síðan. Þingmenn vissu af þessari hækkun. Hún gleymdi að segja, ég athugaði það í fundargerð því að ég vildi fá að vita það, ég var ekki á þingi á þeim tíma, en ég vildi fá að vita: Vissu þingmenn þetta virkilega fyrir fram? Ég fór í fundargerð forsætisnefndar sem fékk sent erindi frá kjararáði. Þá vissu þingmenn að það kæmi hækkun, vissu það ári áður, þóttust ekki vita að þessi hækkun væri að koma, en sjáið hvað pólitíska útspilið hjá hv. þm. Sigríði Andersen hljómar vel. Landsmenn heyra bara: Búmm! Þingmenn vissu af þessari gríðarlegu hækkun. Þetta var ekki lygi en var hálfsannleikur sem gaf mjög villandi hugmynd. Hvað þýddi það í pólitísku landslagi? Það þýddi að allir þingmenn voru orðnir samsekir þessari hækkun. Nema náttúrlega hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson því að hann sagði: Ég er löngu búinn að leggja fram frumvarp um kjararáð, sjáið, það var bara minni hlutinn sem stoppaði það. Álitið eða ímyndin eða andrúmsloftið eða hvernig þetta leit allt saman út var: Allir þingmenn meðsekir í ákvörðun um að hækka launin sín glæpsamlega mikið. Þetta er brot á lögum. Það er kannski ekki glæpur, biðst afsökunar á því, en alla vega brot á lögum. Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson hefur sagt: Ég er löngu búinn að leggja fram frumvarp um að laga þetta. En frumvarpið lagaði ekki þetta, gerir þetta reyndar verra. Það lagar gegnsæið mjög lítillega enda virðist vera einhver mótstaða í þinginu að auka það og gera það almennilegt. Aðallega varðandi hæfi aðila sem taka ákvörðun eða að tryggja að ekki séu hagsmunaárekstrar þegar þeir taka þessar ákvarðanir sínar: Ekki inni. Píratar hafa lagt fram breytingartillögu um að það sé sett inn: Mjög tregt. Menn eru eitthvað voðalega feimnir við það af einhverjum ástæðum.

Þannig leit þetta út. Allir þingmenn meðsekir, hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson ætlar að redda málunum með frumvarpi. Það sem aftur á móti kom fram líka í máli hv. þm. Sigríðar Andersen í þætti Rásar 2 mánudaginn eftir kosningar var að formenn flokkanna hefðu fengið upplýsingar um þetta. Þá spyr ég: Er það virkilega? Um þessa hækkun? Formenn flokkanna? Hún sagði formenn flokkanna. Nú held ég að hún hafi mismælt sig. En hún sagði það. Ef það var hefði hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, fengið upplýsingar um þetta fyrir kosningar. Var hann þá að meina fyrir ári síðan eða rétt fyrir kjördag? Ég myndi halda að það hefði verið fyrir ári síðan en ég veit það ekki. Það væri áhugavert að fá upplýsingar um það. Ég og hv. þm. Sigríður Andersen gætum tekið það einhvern tíma í störfum þingsins ef hún er ekki í húsinu og getur ekki komið og svarað því. En ef hún er í húsinu myndi ég biðja forseta að kalla eftir að hún komi svo að við getum skorið úr um hvað hún var að meina í þessu.

Staðan er þessi: Það hefur verið vandamál með kjararáð ítrekað í gegnum árin. Menn hafa alltaf verið að reyna að laga hitt og þetta og gera betra. Það var Kjaradómur og kjaranefnd og menn voru að færa það starfssvið saman yfir í kjararáð, sem er núna. Það var gert 2006. Þá færðu þeir ákvæði sem tryggja að ekki sé hægt að fara út fyrir þennan ramma varðandi launaþróun í landinu, að ekki sé verið að hækka laun umfram það þannig að kjararáð, eins og það er orðað þar, sé ekki mótandi í launum á markaði. En í þessu frumvarpi er það strípað allt saman burt, út af borðinu. Það er vandamál sem akkúrat var núna að koma upp og almenningur er réttilega mjög óánægður með og fullt af kennurum sagði upp í kjölfarið. Það vandamál á að fjarlægja.

Ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vill koma í andsvör við mig, ef hann hefur eitthvað um það að segja sem ég hef nefnt hérna, hvers vegna er verið að veikja þessi atriði svona og heimila kjararáði að taka svona glæps… nei, svona glannalegar ákvarðanir um launahækkanir — er hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson kominn í andsvar, ef ég má spyrja forseta?

(Forseti (SJS?): Það er ekki venja, hv. þingmaður, að upplýsa það sérstaklega. Það hefur einn þingmaður þegar óskað eftir því að veita andsvar.)

Ókei. Það er ekki. Þá verð ég bara að fara í aðra ræðu síðar til þess að sjá hvort við getum haldið umræðunni gangandi þangað til einhver svör fást frá flutningsmanni frumvarpsins. Maður sem málaði sig mjög vel í fjölmiðlum í kjölfar þessarar ákvörðunar um launahækkun, að segjast ætla … vélaði um frammi fyrir öllu kjararáði, eins og það hefði verið frumvarp sem ætti að laga þetta vandamál, sem var ekki. Það kemur alveg skýrt fram í frumvarpinu hver megintilgangurinn er. Megintilgangurinn er sá að fækka þeim sem heyra undir ákvörðunarvald kjararáðs. Hvað gerist þá? Ah, já, fella út annað ákvæðið, fella út ákvæði um að aðrir aðilar megi hækka meira en forsætisráðherra. Það er ákvæði sem segir að það megi ekki.

Það býður í raun upp á að fullt af aðilum verður ekki fast undir ramma kjararáðs og getur farið að hækka enn meira í launum. Sá möguleiki gæti gerst í þessu. Ég sé að hv. þm. Þorsteinn Víglundsson brosir yfir því. Ég veit ekki hvort hann var að brosa til mín. En ef hann hefur eitthvað við það að athuga væri áhugavert að fá hann í andsvör til að heyra það eða kannski ræðu þar sem hann getur tekið það saman. Kannski ég beini því þá sérstaklega til hv. þingmanns varðandi þau ákvæði sem eiga að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði, að ekki sé hætta á að úrskurðir kjararáðs raski kjarasamningum þorra launafólks, eins og það er orðað. Það ákvæði er farið út. — Þingmaðurinn er að koma í þingsal núna. Ég endurtek þetta. Það er ákvæði sem er farið út og ég hef talað við aðila á vinnumarkaðnum og þeir segja að þetta sé veikara ákvæði, það sé ekki nógu sterkt. Kjararáð gæti tekið ákvarðanir sem fara umfram þetta án þess að brjóta ákvæði þessa frumvarps ef það verður að lögum. Það veikir því þetta ákvæði, einmitt ákvæðið sem fólk var ánægt með, sem þýddi að þeir fóru umfram almenna launavísitölu í ákvörðun sinni núna á kosningadag. Ég sé að þingmaðurinn hefur ekki áhuga á að taka þá umræðu. Hann undirbýr sig kannski og fer sjálfur í ræðu um málið. Hv. þingmaður hefur þá upplýsingar um að þetta er hættan. Þingmenn Pírata hafa lagt fram breytingartillögu um þetta, að ramma það betur inn. Það virðist vera samhljómur. Hv. þm. Björt Ólafsdóttir, framsögumaður meiri hluta nefndarinnar, talaði áðan um að það væri nú eitthvað sem menn væru að reyna að gera, það væri hugmyndin, hún skildi það alla vega þannig. En ef við förum í lagatextann sést að svolitlar glufur eru þar. Í greinargerð segir um þetta ákvæði, sem var miklu sterkara og rammað inn, að ekki megi fara út fyrir almenna launaþróun. Í þessum lögum er það aftur á móti veikt. Það hljómar svona, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu kemur fram að við ákvörðun starfskjara þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir skal það gæta þess að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu“ — við laun í þjóðfélaginu, jú, en það er þetta ytra samræmi sem það hvort eð er á að gera, það getur bara ákveðið að laun þingmanna eða ráðherra eða dómara séu í samræmi við laun í samfélaginu, önnur sambærileg laun. Þeir eiga hvort eð er að gera það. Þetta passar ekki upp á að þeir fari ekki út fyrir launaþróun í samfélaginu varðandi almenna launaþróun og séu ekki mótandi. Í ofanálag kemur, ef ég held áfram með tilvitnun, með leyfi forseta — „og í því skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun“. — Skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á. Í dag er þetta miklu sterkara. Samt sem áður gera þeir bara það sem þeim sýnist. Við vitum ekki á hvaða forsendum þeir taka þessa ákvörðun. Þeir taka hana ekki á grundvelli þess sem þeir eiga að gera, að fara ekki út fyrir almenna launaþróun í samfélaginu, sama hvort er á þessu ári eða farið er jafnvel aftur til 2006 þar sem lækkun launa þingmanna er tekin inn í. Og áfram, með leyfi forseta: — „Jafnframt kemur fram að kjararáð skuli í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði en því er þó heimilt að ákveða að laun taki árlega breytingum til samræmis við sameiginlega launastefnu á vinnumarkaði eða önnur viðmið sem lýsa almennri launaþróun á vinnumarkaði.“ — Að kjararáð skuli í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði. Það er það sem stendur í lagatextanum núna og er síðan útskýrt í greinargerð að þýddi að þeir mættu aldrei fara umfram þetta. Núna er í greinargerðinni sagt að þeir geti bara tekið tillit til þess og sagt: Ja, við tókum tillit til þess en, svona já. Það er miklu veikara en það var. Þetta hafa aðilar á vinnumarkaði staðfest.

Fyrst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ætlar ekki að koma í andsvör ætla ég að ljúka ræðu minni og sjá hver kemur í andsvör. En þetta hefur komist til skila. Ráðherrann kom í hús. Ef við tökum ákvörðun um þetta óbreytt — það værum við sem fjarlægðum það úr þessum lögum um kjararáð sem eru í gildi, þá fjarlægðum við það, veikjum það að það geti tekið svona glannalegar ákvarðanir um að hækka launin okkar, og þá erum við ábyrg fyrir því.