146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í byrjun minna hv. þm. Jón Þór Ólafsson á að þeir sem flytja þetta frumvarp eru formenn allra flokka. (JÞÓ: Ekki Pírata.) Nei, þeir voru upphaflega á því en hættu einhverra hluta vegna við sem engin almennileg skýring hefur fengist á. (Gripið fram í: Gef þér hana.) Já, þakka þér, það væri mjög gott að fá að vita það. Í efnisatriðum er hér verið að tryggja meira gegnsæi og meiri upplýsingar í úrskurðum, að forsendur séu skýrari. Það er ekkert nema gott um það að segja en þegar komið er upp í ræðustól og sagt að verið sé að brjóta lög, hér sé glæpsamlegt athæfi — (JÞÓ: Tók það til baka.) Jæja, ég heyrði það ekki en —

(Forseti (ValG): Hv. þingmaður hefur tök á að svara andsvari.)

Við verðum að skoða forsögu málsins. Fyrir nefndina komu fulltrúar atvinnulífsins og verkalýðshreyfingar og sögðu: Þetta er meiri hækkun en er á markaði, heldur en launamarkaðurinn er að segja. Þeir eru að vísu að miða við 2013. Þegar verið er að ákveða þetta og horft til laganna og hverjar viðmiðunarstéttirnar eru og hvað hefur gerst frá árinu 2006 þegar Alþingi tók hækkun og felldi hana niður, þegar Alþingi tók ákvörðun 2009 um að lækka laun þessara hópa um 10% stóð aldrei til að það ætti að vera varanlegt og ekki ganga til baka. Það var sérstaklega gert ráð fyrir því að það gengi til baka þegar betur áraði. Núna, þegar aðstæður eru aðrar og ekki forsendur fyrir þeirri lækkun, er auðvitað verið að leiðrétta kúrsinn. Ef tekinn er allur þessi tími og horft er til laganna, hvað á að miða við, (Forseti hringir.) er þessi niðurstaða bara lögum samkvæmt. Við höfum engar aðrar forsendur til þess að ætla, en rökstuðningurinn var kannski ekki nógu skýr en verið er að laga það núna.