146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[15:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að þingmaðurinn er ekki að kalla eftir því að farið verði í afturvirkar hækkanir til þingmanna. Eftir stendur samt sem áður að, nei, þetta er ekki bara huglægt, það kemur fram í lögunum að ekki eigi að fara umfram almenna launaþróun á markaði. Er það ekki einmitt það sem á að reyna að tryggja í þessu lagafrumvarpi núna? Ég hélt það, það er tölulegt, en ekki gert. Með þessu frumvarpi er það veikt en það stendur skýrum stöfum og rammað kirfilega inn. Í lögunum eins og þau standa núna og ákvörðun kjararáðs um að hækka laun þingmanna svona mikið þýðir hækkun á þessu ári upp á 47%. En ókei, verum málefnaleg, förum aftur og tökum inn í lækkun þingmanna á sínum tíma, förum aftur til 2006. Lækkunin var milli 2008 og 2009, en förum aftur til 2006, þá er hækkunin samt sem áður samkvæmt tölum frá fjármálaráðuneytinu um 13% og tölum frá Samtökum atvinnulífsins um 21%. Það er tölulegt og það er umfram þann ramma sem lög kveða á um um ákvarðanir kjararáðs. Það er lögbrot.