146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég hef á tilfinningunni að hv. þingmenn í þessum sal sem og annars staðar geti komið sér saman um farsæla lausn á þessu máli. Ég tel okkur öll vilja vinna af heilum hug að því að hér gildi góð lög um það ráð sem ákvarðar m.a. kjör okkar. Í ljósi þeirrar nýju og góðu vonar minnar langar mig að impra á hugtaki sem ég er mjög hrifin af og það er „réttarríkið“. Mér finnst það skipta töluvert miklu máli í þessu samhengi. Réttarríkið er hægt að skilgreina á marga vegu. Það væri hægt að halda langar og lærðar ræður um hvað felst nákvæmlega í því og hvernig það hefur þróast í tímans rás og ég veit ekki hvað og hvað.

Það sem skiptir einna helst máli í réttarríkinu er að allir skuli vera jafnir fyrir lögum, að lög skuli vera aðgengileg, skiljanleg og læsileg þeim sem þeim skulu hlíta og að ákvarðanir stjórnvalda skuli ekki vera teknar nema með heimild í lögum. Í réttarríkinu má líka finna margvíslegar kröfur um gagnsæi og margvíslegar kröfur um mannréttindi þeirra sem búa í réttarríki. Mér finnst mikilvægt við áframhaldandi vinnu við þetta frumvarp að við höfum réttarríkið í huga út af því að ef ætlunin er að kjararáð verði hvorki stjórnsýslunefnd né dómstóll á ég erfitt með að sjá hvert almenningur á að snúa sér ef hann vill fá aðgang að upplýsingum frá því ráði, eða hvert við sem erum undir ráðið sett hvað varðar launa- og kjaraákvarðanir okkar eigum að snúa okkur ef okkur finnst á okkur brotið eða okkur finnst ráðið hafa gert tóma vitleysu.

Ef kjararáð er stjórnsýslunefnd gilda um það stjórnsýslulög og þá er hægt að kæra úrskurði þess til dómstóla. Ef kjararáð er dómstóll gilda um það einhvers konar réttarfarsreglur, hvort sem það eru einkamálareglur eða refsiréttarreglur, varla þó refsiréttarreglurnar, og þær þurfa þá að vera öllu ítarlegri en þær sem er að finna í því frumvarpi sem liggur fyrir okkur.

Réttarríkið gengur líka að miklu leyti út á að almenningur geti glöggvað sig á því hvernig lögin virka og hvernig hann eigi að haga sér í samræmi við það. Ef það kemur ekki skýrt fram hvert hlutverk kjararáðs er, hvers konar fyrirbrigði kjararáð eiginlega er, þá hefur almenningur takmarkaðar leiðir til þess að komast að því hvernig hann getur nýtt sér rétt sinn í því sem við köllum réttarríki.

Eins finnst mér mikilvægt þegar við erum með ráð sem ákveður laun og kjör dómara, ráðherra, alþingismanna, forseta Íslands, að það sé alveg skýrt hverjir það eru sem ákveða það og hvort þeir hafi einhverra hagsmuna að gæta. Við skoðun mína á málinu hef ég rekið augun í það að í ráðinu sitja þrír starfandi lögmenn og þeir ákveða laun dómara. Ég dreg ekki hæfi þessara sérstöku ráðsmanna í efa, en eins og oft hefur verið sagt um réttlætið er ekki nóg að því sé fullnægt, það verður líka að líta þannig út utan frá að því sé fullnægt. Við eigum að reyna að starfa á þann hátt að ekki sé hægt að draga hlutleysi kjararáðs í efa og ekki sé hægt að draga hlutleysi dómstóla í efa.

Því finnst mér æskilegt að breytingartillaga okkar Pírata um að gera ákveðnar kröfur um hæfnisskilyrði kjararáðsmanna, þess efnis að kjararáð verði ekki áfram skipað að meiri hluta starfandi lögmönnum, vera æskileg þróun. Það er náttúrlega bara mín skoðun en ég vona að hv. þingheimur taki undir hana.

Annars langar mig að ítreka að réttarríki er æðislegt og við ættum öll að vinna sem best að því að því verði fullnægt. Hagsmunaskráning kjararáðsmanna, hæfniskröfur kjararáðsmanna og það að algerlega skýrt sé í lögum hvers konar fyrirbrigði kjararáð eiginlega er eru allt mikilvægar kröfur sem réttarríkið gerir til okkar í þessum þingsal. Ég vil biðja ykkur að vinna að því með mér.