146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[16:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að í meginatriðum séu þær breytingar til bóta sem hér eru gerðar á starfi kjararáðs. Eins og fram kom í máli hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur hefur þeim hópum fækkað sem heyra undir ráðið. Enn fremur eru gerðar ríkari kröfur til þess að kjararáð skuli í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennar þróunar á vinnumarkaði og eru jafnframt lagðar ríkari kröfur á kjararáð um það hvernig ákvarðanir og úrskurðir eru birtir, hvernig rökstuðningur fyrir úrskurði er birtur og hvaða upplýsingar skuli fylgja þeim rökstuðningi. Ég held því að hér séu breytingar til bóta á störfum kjararáðs sem hefur verið umdeilt á köflum. En ég tel líka gott að náðst hafi tiltölulega mikil sátt um þessar breytingar á þingi. Í ljósi þess að málið verður tekið aftur til hv. efnahags- og viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. vona ég að við náum enn frekari sátt um málið.