146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar í máli nr. 6, sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Umsagnarfrestur var stuttur í ljósi aðstæðna. Ég vil þó nefna og árétta eins og hv. þingmenn þekkja að frumvarpið var áður lagt fram í haust þannig að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er lagt fram öðru sinni með einhverjum breytingum. Þótt umsagnarfrestur hafi verið stuttur kom það ekki í veg fyrir að fjöldi umsagna bærist nefndinni, ítarlegar umsagnir og vel unnar, og nefndin náði að taka á móti þó nokkrum gestum.

Markmiðum og tilgangi frumvarpsins er skilmerkilega lýst í greinargerð, en eitt aðalmarkmiðið er að samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum markaði. Það var nokkur sátt með gestum um þetta markmið í sjálfu sér og einnig þann þátt frumvarpsins sem miðar að því að taka upp aldurstengda ávinnslu lífeyrisréttinda í stað svokallaðra jafnra ávinnsluréttinda sem starfsmenn á opinberum markaði hafa notið upp að tilteknu hámarki til loka starfsævinnar. Það er líka rétt að fram komi að margir gestir lögðu á það áherslu að frumvarpið yrði samþykkt fyrir áramót.

Eins og ég nefndi í upphafi er frumvarpið lagt fram öðru sinni, eins og hv. þingmenn þekkja, í tengslum við samkomulag stjórnvalda og Bandalag háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands frá 19. september. Það var nokkuð vikið að þessu samkomulagi á fundum nefndarinnar með gestum. Áhyggjur lutu öðru fremur að brottfalli óbeinnar ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga á lífeyrisréttindum sjóðfélaga, en án þeirrar ábyrgðar gæti komið til skerðingar á réttindum ef fjárhagur A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs þróaðist til verri vegar. Það kom fram í máli nokkurra umsagnaraðila að ekki væri öruggt að lífeyrisauka- og varasjóðir sem frumvarpið kveður á um dygðu til þess að bæta núverandi sjóðfélögum hækkun lífeyristökualdurs og upptöku aldurstengdrar réttindaávinnslu. Sumir umsagnaraðilar töldu frumvarpið ekki í samræmi við fyrrgreint samkomulag hvað þetta varðaði. Þessu er meiri hluti nefndarinnar ekki sammála og vísar um það í samkomulagið, en í 5. hluta þess er tiltekið að ábyrgð launagreiðenda á breytilegu iðgjaldi A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkis og Brúar skuli afnumin enda séu framtíðarskuldbindingar launagreiðenda að fullu tryggðar. Lífeyrisaukasjóðunum er einmitt ætlað að standa undir framtíðarskuldbindingum launagreiðenda vegna áformaðra breytinga, en dugi þeir ekki til er í frumvarpinu gert ráð fyrir að úr verði bætt með greiðslum úr varasjóðum eða öðrum ráðstöfunum.

Þá kom líka fram fyrir nefndinni að þótt samkomulagið hefði lotið að því að afnema hina óbeinu ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, og menn voru í sjálfu sér ekki andvígir því til framtíðar, höfðu umsagnaraðilar mismunandi sjónarmið um það hverjir ættu að sæta með beinum hætti þeirri breytingu. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að þeir sem hafa náð 60 ára aldri þegar nýjar samþykktir sjóðanna sem um ræðir eru samþykktar verði ekki fyrir skerðingu réttinda ef til þeirra kemur. Þeir hinir sömu munu þá heldur ekki njóta aukinna réttinda ef til þess kemur, svo því sé haldið til haga. Í umsögnunum komu fram óskir um að þessi viðmiðunaraldur yrði færður miklu neðar.

Nefndin fjallaði um þetta og meiri hluti nefndarinnar taldi ekki rétt að verða við athugasemdum af þessum toga í ljósi markmiðs frumvarpsins sem er einmitt um breytt fyrirkomulag til framtíðar. Aldursviðmið frumvarpsins er málefnalegt í því sambandi og var sett í það frumvarp sem við fjöllum um hér til þess að koma til móts við sjónarmið bandalags opinberra starfsmanna við frumvarpið sem lagt var fram í haust. Afnám ábyrgðarinnar er því að mati nefndarinnar óhjákvæmilegt ef jafna á lífeyrisréttindi starfsmanna á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Þá er rétt að víkja að athugasemd sem nefndinni barst frá svokölluðum B- og C-hluta stofnunum, sem eru þær stofnanir ríkisins sem hafa meiri hluta tekna sinna á almennum markaði eða eru lánastofnanir. Nokkrir slíkir aðilar komu fyrir nefndina og lýstu því hvernig endurgreiðsla þeirra til ríkissjóðs á árlegum lífeyrisauka starfsmanna sinna sem ríkissjóður leggur út fyrir muni koma illa við fjárhag þessara aðila. Meiri hluti nefndarinnar taldi ekki rétt að koma til móts við þau sjónarmið sem í raun eru sjónarmið um að ríkið niðurgreiði launakostnað þessara aðila. Rétt er að árétta að að öllu óbreyttu mun hækkun iðgjalda teljast til launakostnaðar sem þessar stofnanir bera hvort eð er.

Gerðar voru athugasemdir við breytingar sem gerðar hafa verið á a-lið 3. mgr. c-liðar 7. gr. frumvarpsins frá því að það var lagt fram í haust. Í fyrra frumvarpinu sagði að væri tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs samkvæmt árlegu mati neikvæð um 10% eða meira í lok næstliðins árs eða hefði haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í meira en fimm ár skyldi leggja höfuðstól varúðarsjóðs í heild eða að hluta, í báðum tilvikum þar til að 5% viðmiði væri náð, við eignir lífeyrisaukasjóðs og fjármunirnir nýttir til að mæta skuldbindingum hans. Þessi viðmið tóku mið af 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í fyrirliggjandi frumvarpi er aftur á móti miðað við að tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs hafi verið neikvæð um 10% eða meira í fimm ár eða hafi haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í tíu ár. Fram kom fyrir nefndinni að tilgangur breytingarinnar væri að draga úr líkum á því að fjármunir færu úr varasjóði í lífeyrisaukasjóð vegna tímabundinna sveiflna á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrisaukasjóðs, enda væru þessi framlög óafturkræf og gengju ekki til baka þótt sveiflurnar gerðu það. Meiri hluti nefndarinnar fellst á þessi rök og leggur því ekki til breytingu á þessu ákvæði.

Þá er rétt að nefna í lokin að Brú lífeyrissjóður og Samband íslenskra sveitarfélaga bentu á að tryggari lagastoð þyrfti mögulega fyrir fyrirhugaðar breytingar á samsetningu eigna hjá Brú lífeyrissjóði, iðgjaldi launagreiðenda og breytingum á samþykktum sjóðsins. Meiri hlutinn fellst á þær athugasemdir og leggur þar af leiðandi til breytingar á 8. gr. frumvarpsins með hliðsjón af þessu. Breytingartillagan kemur fram á sama skjali og nefndarálitið, á þskj. 15.

Virðulegur forseti. Ég ætla að öðru leyti að vísa í nefndarálit meiri hluta nefndarinnar á þskj. 15, sem ég hef ekki verið að lesa sérstaklega upp hér.

Undir nefndarálit meiri hluta nefndarinnar skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Benedikt Jóhannesson, formaður nefndarinnar, Björt Ólafsdóttir, Brynjar Níelsson, Elsa Lára Arnardóttir og Vilhjálmur Bjarnason.

Ég legg til að málið gangi til 3. umr. að lokinni þessari umræðu.