146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur frumvarp um verulegar breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Meginmarkmið þess er að samræma lífeyriskjör á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þetta er markmið sem ég held að flestir í þingsal geti tekið undir. Í því skyni höfum við velflest lagt talsvert á okkur til þess að greiða fyrir málinu hér í þingstörfunum, en þó er það mín skoðun, af því að fyrir málinu var mælt á fyrri stigum á síðasta þingi, að það hefði verið góð ráðstöfun, eins og ég lagði þá til, að setja á laggirnar einhvers konar milliþinganefnd sem hefði getað unnið áfram að málinu, því að staðan nú er sú að enn ríkir ekki sátt um túlkun á því samkomulagi sem er grundvöllur þessa frumvarps.

Í frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp aldurstengd ávinnsla lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna í stað jafnrar ávinnslu og að lífeyristökualdur verði hækkaður. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur aðdragandi málsins verið mjög langur, en allt frá undirritun stöðugleikasáttmálans svokallaða 2009 hefur verið unnið með hléum að þessu markmiði. Samkomulagið sem ég vitnaði hér til áðan, á milli BHM eða Bandalags háskólamanna, BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og Kennarasambands Íslands annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar um breytingar á skipan lífeyrismála, var undirritað í september 2016. Þegar frumvarpið var lagt fram hið fyrra sinni var ljóst að aðilar voru ekki sammála um túlkun samkomulagsins, og svo er heldur ekki nú undir lok þessa árs enda kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að samtöl hafi farið fram á milli aðila um mögulega lausn og þar með sameiginlegan skilning á samkomulaginu en ekki hafi fengist nein niðurstaða.

Ástæða þess að þrýst hefur verið á að fara þessa leið nú er fyrst og fremst efnahagsleg og lýtur að góðri stöðu ríkissjóðs í kjölfar stöðugleikaframlaga sem fóru inn í ríkissjóð og sú staða sem hefur myndast til þess að setja inn fjármuni til þess að hægt sé að gera þessar breytingar. Sú sem hér stendur viðurkennir að þau rök vega vissulega þungt í málinu. Hins vegar er töluvert athugavert við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Mun ég nú fara yfir það og kemur það fram í því nefndaráliti sem ég legg fram sem 1. minni hluti.

Samkvæmt erindisbréfi starfshóps um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem skipaður var í mars 2011, var hlutverk hans m.a. að fara yfir stöðu A- og B-deildar sjóðsins og koma með tillögur að framtíðarlausnum á vanda þeirra, en þá þegar vantaði töluvert upp á, og hefur lengi gert, að sjóðurinn ætti fyrir framtíðarskuldbindingum. Í bréfi frá heildarsamtökum opinberra starfsmanna, dagsettu 19. júní 2012, sögðust þau taka þátt í viðræðum aðila vinnumarkaðarins um framtíðarskipan lífeyrismála af heilum hug en minntu í því bréfi jafnframt á að fyrir því væru ákveðnar forsendur. Þau settu sem skilyrði að ekki yrði hróflað við þegar áunnum réttindum opinberra starfsmanna og að bætt yrði fyrir breytingar sem að óbreyttu myndu skerða réttindi sjóðfélaga. Þá var jafnframt farið fram á að hafin yrði vinna við að setja mælikvarða eða finna verklag við að jafna laun opinberra starfsmanna við laun á hinum almenna vinnumarkaði. Lakari laun á opinberum vinnumarkaði hefðu verið réttlætt með betri lífeyrisréttindum og því væri ljóst að jafna þyrfti launamun á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins um leið og lífeyrisréttindin væru jöfnuð. Í raun má segja að við þinglega meðferð málsins hafi þær athugasemdir sem lúta að þessum forsendum vegið þyngst, þ.e. annars vegar ólíkur skilningur manna á verðmæti lífeyrisréttinda og hvort þau teljist skert eða ekki út frá þeim breytingum sem hér eru lagðar til á kerfinu og hins vegar sem varða jöfnun kjara á milli opinbera og almenna markaðarins.

Þannig kemur fram í umsögn BSRB frá því í október að skilningur bandalagsins væri sá að svokallaður lífeyrisaukasjóður myndi tryggja að áunnin réttindi yrðu ekki skert og framtíðarréttindi yrðu óbreytt. Skilningur stjórnvalda er hins vegar sá að lífeyrisaukasjóðnum sé aðeins ætlað að vega á móti áhrifum af færslu í aldurstengda réttindaávinnslu og hækkun lífeyristökualdurs. Ekki sé hægt að tryggja áunnin réttindi ef til þess kemur að til að mynda ávöxtun til framtíðar verði dræm, enda ekki lengur ríkisábyrgð á lífeyri opinberra starfsmanna, utan við sjóðfélaga yfir 60 ára aldri, sem er sú breyting sem gerð er á þessu frumvarpi frá fyrra frumvarpi og örorku- og makalífeyrisþega.

Kennarasamband Íslands hefur gert sambærilegar athugasemdir og leggur til aðra leið, að A-deildum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs verði lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Þeir fjármunir sem felast í samkomulaginu verði greiddir inn í sjóðinn og þannig verði komið í veg fyrir frekari iðgjöld launagreiðenda í sjóðina. Ný deild verði svo opnuð með breyttu fyrirkomulagi. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að sú leið hafi ekki þótt fýsileg frá sjónarhóli ríkis og sveitarfélaga, enda hefði það þýtt að opinberir starfsmenn byggju við þrjú ólík réttindakerfi.

Enn fremur kom fram við 1. umr. málsins hjá hæstv. ráðherra að hann taldi með þessu ekki stigið nægilega skýrt skref í átt að jöfnun lífeyrisréttinda því að það myndi þýða að sú jöfnun myndi taka nokkra áratugi í ljósi þess að A-deildin myndi áfram lifa þótt henn yrði lokað fyrir nýjum félögum.

Það verður þá að segjast í ljósi þess hve mikill munur er á skilningi stjórnvalda annars vegar og hins vegar heildarsamtaka á opinberum vinnumarkaði að í ljósi þess hve aðdragandi málsins hefur verið langur og forsendur samtalsins lágu nokkuð skýrar fyrir í upphafi hlýtur það að teljast mjög óheppilegt að ekki hafi náðst sameiginlegur skilningur á hlutverki lífeyrisaukasjóðsins og að aðilar séu ósammála um það hvort nýtt kerfi tryggi áunnin réttindi með sambærilegum hætti og núverandi kerfi sem og um hvort lífeyrisréttindin teljist jafn verðmæt fyrir og eftir.

Í umsögnum fjölmargra aðila um frumvarpið kemur fram að ein lykilforsenda samkomulagsins sé að unnið sé að því að jafna launamun milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins, en betri lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna en annarra hafi verið nýtt til að réttlæta lakari laun hjá hinu opinbera. Þessir aðilar telja að þessi forsenda sé ekki fyrir hendi þar sem jöfnun launamunar sé skotið á frest inn í framtíðina. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir því að unnið verði að því að jafna mismun á launakjörum á milli opinbera og almenna markaðarins að því marki sem hann er kerfislægur eða ómálefnalegur. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að aðferðafræði verði þróuð til að greina launamun og ákvarða hlutlæg viðmið um hvenær beri að leiðrétta launamun einstakra hópa og áætlun verði gerð um launajöfnun á grundvelli kjarasamninga á allt að áratug.

Það vekur áhyggjur að í umræðum um málið hefur komið fram að aðilar eru ekki á eitt sáttir um hve mikill launamunurinn er og hvernig eigi að meta hann. Þar spili inn í hvað teljist sambærileg störf, hvernig eigi að taka aðrar breytur á borð við menntun eða kyn inn í dæmið, sem og að töluverður munur sé á milli ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar sem hvort tveggja telst hið opinbera. Í ljósi þess að forsendur lágu fyrir þegar árið 2012, þ.e. að markmið samkomulagsins yrði m.a. að jafna launamun, hefði verið æskilegt að mat á launamun hefði þegar verið framkvæmt þannig að aðilar væru í öllu falli sammála um hver launamunurinn væri sem gæfi þá dýrmætt veganesti inn í þá vegferð að jafna launamuninn á milli almenna og opinbera markaðarins.

Enn hefur í raun og veru ekki verið ákveðið hvernig eigi nákvæmlega að framkvæma það mat, þ.e. meta launamuninn á milli ólíkra markaða, hvernig eigi að taka ólíkar breytur inn í það. Ég skil því vel áhyggjur þeirra umsagnaraðila sem telja að þarna sé í raun algjör óvissa um framtíðina, hvort takist að jafna launin á sex til tíu árum eins og sagt er í samkomulaginu, í ljósi þess að við höfum ekki einu sinni tækin til að framkvæma það mat og ekki skilning á því að einhver launamunur sé fyrir hendi yfir höfuð.

Ýmis önnur atriði komu fram í umsögnum um frumvarpið. Sumir umsagnaraðilar telja að frumvarpið brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem ákveðin hætta sé fyrir hendi á að áunnin réttindi glatist ef til þess kemur að ávöxtun framtíðar eða einhverjar aðrar tryggingafræðilegar forsendur bregðist.

Um þetta var fjallað í nefndinni og vissulega má segja að við höfum ákveðin fordæmi fyrir því að lífeyrisréttindum eða umgjörð lífeyrisréttinda hafi verið breytt. Mál hafa farið fyrir dómstóla og sýna að löggjafinn hefur auðvitað heimild til þess að breyta slíkum réttindum. En það tengist þó kannski annarri umræðu sem snýst um það að hve miklu leyti við teljum ramma lífeyrismálanna málefni löggjafans og að hve miklu leyti við teljum það vera mál kjarasamninga. Að mörgu leyti hefði verið æskilegt að fá meiri tíma í nefndinni til þess að fjalla um þá lið málsins því að ljóst má vera bara af þeim gögnum sem nefndarmenn fengu og lutu m.a. að þeim ólíku dómum sem fallið hafa um þessi mál að æskilegt hefði verið að geta sett sig betur inn í þau sjónarmið.

Bent var á að ekki væri komið til móts við kröfur ákveðinna félaga innan BSRB um lægri lífeyristökualdur, en þar er um að ræða stéttir sem stunda líkamlega erfiða vinnu og benda á að hækkun lífeyristökualdurs sé öfugþróun fyrir sig. Ég tel mikilvægt sem 1. minni hluti að greina þá þörf nánar og er hér með breytingartillögu um bráðabirgðaákvæði þar sem lagt er til að ráðherra skuli við gildistöku laga þessara skipa starfshóp með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði. Sú spurning á að mínu viti ekki síður við hinn almenna markað en hinn opinbera, því að það eru að sjálfsögðu ýmsar stéttir sem vinna líkamlega erfiðisvinnu og sá starfshópur greinir með heildstæðum hætti þörf á því að lækka lífeyristökualdur fyrir tilteknar stéttir.

Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að um það sé eðlilegt að semja í kjarasamningum. Það kann vel að vera að verði niðurstaðan. En hins vegar er nauðsynlegt að þá verði eitthvert mat á því hvort sú krafa eigi rétt á sér og það mat verði framkvæmt með heildstæðum hætti.

Ég vonast því til þess að breytingartillagan verði samþykkt. Í ljósi þess að ég tel að þetta mál verði ofarlega á baugi í umræðu um vinnumarkaðsmál á næstu árum, mun hvort eð er þurfa að meta þá þörf þannig að ég held að ekki sé verra að byrja á því fyrr en síðar.

Þá tæpi ég á því hér í nefndarálitinu að í 6. mgr. b-liðar 7. gr. frumvarpsins kemur fram að réttur sjóðfélaga til frekari lífeyrisauka falli almennt niður falli iðgjaldagreiðslur þeirra niður til lengri tíma en tólf mánaða. Bent var á að ákvæðið gerði sjóðfélögum erfitt fyrir að láta tímabundið af störfum hjá hinu opinbera enda myndu þeir þá glata rétti til lífeyrisauka þegar þeir sneru aftur til starfa. Þannig stríddi ákvæðið gegn markmiði frumvarpsins um að auðvelda fólki að færa sig á milli opinbers og almenns vinnumarkaðar. Undir þær áhyggjur tek ég í ljósi þess að það er yfirlýst markmið þessa frumvarps að gera þá tilfærslu auðveldari.

Að lokum er rétt að nefna að af hálfu Alþýðusambands Íslands kom fram að innan aðildarfélaga þess væru um 12.000 félagsmenn sem störfuðu hjá ríki og sveitarfélögum eða stofnunum sem væru fjármagnaðar af þessum aðilum. Ráðstafanir samkvæmt frumvarpinu tækju ekki til þess hóps. Ég tek undir með ASÍ að þarft er að tryggja sambærileg réttindi fyrir þennan hóp þó að við verðum líka að sjálfsögðu að átta okkur á því að frumvarpið er um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, ekki starfsmanna í öðrum stéttarfélögum. En þó er mikilvægt að sá hópur gleymist ekki.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns tek ég undir það meginmarkmið að jafna lífeyrisréttindi á Íslandi og að efnahagslega sé heppilegur tími til að ráðast í slíka aðgerð. Að því sögðu er óheppilegt að frumvarpið byggist á samkomulagi sem aðilar túlka með jafn ólíkum hætti og raun ber vitni. Í því ljósi er það líka slæmt að Alþingi sé gefinn svo skammur tími til að taka afstöðu til grundvallarbreytinga á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Ljóst má vera að aðilar eru ósammála um túlkun á grundvallaratriðum í breytingunum sem lúta að því hvernig tryggja eigi lífeyriskjör til frambúðar og hvort þau geti talist jafn verðmæt fyrir og eftir breytingar. Enn fremur eru greinilega ríkar efasemdir um að staðið verði við markmið samkomulagsins um launajöfnun milli ólíkra markaða. Þar sem þetta eru meginatriði, þó að við tökum undir markmiðið og teljum það réttlætismál að sömu lífeyriskjör gildi fyrir fólk óháð vinnuveitendum og eins að kjör fólks séu með sambærilegum hætti, mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki standa að samþykkt frumvarpsins, en við leggjum þó til þá breytingartillögu sem ég gerði hér grein fyrir áðan í máli mínu.