146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri á hv. þingmanni að hann ýjar að því eða segir kannski fullum fetum að frumvarpið sé ekki í samræmi við samkomulagið á vinnumarkaði. Þetta heyrði ég líka svo sem frá einstökum aðildarfélögum. Þegar maður spyr hvað það sé í frumvarpinu sem ekki sé í samræmi við samkomulagið er hægt að skilja það svo að krafan hafi alltaf verið sú að jöfnun lífeyrisréttinda ætti ekki að taka gildi næstu 20 árin, að allir sem eru í kerfinu, í A-deildinni núna, ættu að fá að klára það alveg til enda. Samkomulagið var auðvitað ekki um það. Þetta var um jöfnun lífeyrisréttinda núna. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað er það nákvæmlega í samkomulaginu sem menn eru alltaf að nefna sem frumvarpið er ekki í samræmi við?

Annað atriði sem hv. þingmaður kom inn á er að jafna þurfi launin áður en þetta er samþykkt. Tækifærið til að jafna lífeyrisréttindin er núna. Það er ekki eftir sex eða tíu ár. Hvað eiga menn við með að jafna launin? Að sumu leyti er ríkið einfaldlega eini vinnuveitandi margra stétta, nánast eini hjá öðrum. Það er mikill ágreiningur um hvort það sé yfir höfuð ójafnræði þegar allt er tekið til. Ég tel alveg fullkomlega fráleitt að vera að fara í þá vinnu núna og standa í henni og bíða með þetta mikilvæga mál, sem ég held að geti ekki beðið lengur. Ef þetta verður ekki gert núna verður það ekki gert í nánustu framtíð.