146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann svaraði nánast eigin andsvari sjálfur þegar hann spurði mig hvort frumvarpið væri ekki í samræmi við samkomulagið og sagði svo: Menn eru ekki einu sinni á eitt sáttir um það hvort það sé yfir höfuð launamunur. Samkomulagið snerist einmitt að hluta til um að jafna út launamun milli hins opinbera og almenna markaðar. En það er alveg ljóst að aðilar túlka það með ólíkum hætti, eins og hv. þingmaður gerði áðan. Ég sagði ekki að það ætti að bíða með þetta mál þangað til laun hefðu verið jöfnuð. Ég sagði að það hefði betur farið á því, í ljósi þess að þessar forsendur lágu fyrir 2012, en síðan þá eru liðin fjögur ár, að menn hefðu a.m.k. komið sér saman um aðferðafræði við að meta þann launamun sem hv. þingmaður nefnir, og ég nefndi líka, að væri ekki einfalt mál að meta. Ég held að ef aðilar væru a.m.k. komnir á þann stað núna að þeir væru sammála um það hver launamunurinn væri og hvernig ætti að meta hann þá værum við nær einhverri sátt um samkomulagið.

Hv. þm. Brynjar Níelsson segir líka að ég hafi haldið því fram að frumvarpið væri ekki í takt við samkomulagið. Það sem kom ítrekað fram í máli mínu, ef hv. þingmaður hefði nú lagt vel við eyrun, var að aðilar eru ekki sammála um túlkun samkomulagsins. Hv. þingmaður getur ekki neitað því, hann hefur setið sömu fundi og ég með öllum þeim aðilum sem skrifuðu undir samkomulagið, að það er greinilega uppi mismunandi túlkun og þá sérstaklega sem lýtur að því hvort lífeyrisréttindi geti talist jafn verðmæt fyrir og eftir breytingu. Eðlilega spyrja félagar í þessum heildarsamtökum, í ljósi þess að það er verið að afnema ríkisábyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, hvort réttindin geti þá yfir höfuð talist jafn verðmæt, hvort það markmið samkomulagsins sé uppfyllt með þessu frumvarpi.