146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeim aðilum sem hér eru undir er auðvitað kunnugt um að það gátu verið bæði betri lífeyrisréttindi og hugsanlega verri ef á versta veg færi. Það er ekki spurning um túlkun á samkomulagi, menn vita það fyrir.

Ég hef aldrei fengið almennilega skýringu á því hvernig þetta geti verið eitthvert brot á samkomulaginu, eða hvaða brot var yfir höfuð um ræða, menn túlka allt út og suður. En ef það á að ná því markmiði að jafna lífeyriskjörin verður það ekki gert með öðrum hætti. Síðan fer fram umræða um það í kjölfarið, vegna þess að það er hluti af samkomulaginu, að jafna kjörin þar sem þau eru ójöfn. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru uppi misjöfn sjónarmið um hvernig eigi að jafna þau, hvað teljist jöfnuður í því. Það er ekki einfalt. Er það jöfnuður að miða við alla með sambærilega langt nám til að mynda? Eða geturðu miðað við þína eigin stétt? Það eru mismunandi sjónarmið um það. Það verður ekki auðvelt að leysa úr því.

En ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það að VG ætli ekki að styðja málið og vera með á meiri hlutanum í þessu vegna þess að hér er gengið mjög langt í því að nálgast mjög sjónarmið opinberra starfsmanna með því að miða við 60 árin, sem var ekki í frumvarpinu í haust. En nú virðist krafan vera sú og menn ætla að túlka samkomulagið þannig að það eigi helst að færa þetta í 40 ár, þ.e. allan líftíma frá því að sjóðurinn var stofnaður. Þá er auðvitað ekki um neina jöfnun að ræða. Þá getum við alveg sleppt þessu. Ég vil vita hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um það.