146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að valda hv. þingmanni vonbrigðum en ég veit að ég geri það mjög reglulega þannig að ég tek það ekki of nærri mér.

Grundvallarspurningin sem ég varpa fram í nefndaráliti mínu snýst um að hér er verið að gera grundvallarkerfisbreytingu á lífeyriskjörum opinberra starfsmanna. Hún er fyrst lögð fram í miklum flýti rétt fyrir þinglok á síðasta þingi og ekki kláruð þá, m.a. vegna andmæla okkar um ónógan tíma. Það sem næst gerist er að hún er lögð fram í miklum flýti og undir þeim formerkjum að þrátt fyrir að tími hafi liðið á milli þess sem hún var lögð fram og þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar til bóta, því að breytingarnar eru til bóta, þ.e. að lækka þennan aldur í sextugt, þá hefur samt ekki enn tekist að ná sameiginlegum skilningi á samkomulaginu. Hv. þingmaður veit mætavel að sá sameiginlegi skilningur hefur ekki náðst.

Ég skil ekki annað en að hv. þingmaður hljóti að deila undrun minni á því að aðilar sem hafa setið við þetta borð árum saman, frá 2011 með hléum, séu ekki komnir á þann stað að ná sameiginlegum skilningi. Mér finnst það slæmt í ljósi þess að þetta er grundvallarkerfisbreyting sem við ættum að leitast við að ná sem mestri sátt um. Það hefur verið sátt um markmiðið, þ.e. jöfnun lífeyrisréttinda, og það er mikilvægt að ná slíkri jöfnun fram. Eins og ég kom ítrekað að eru efnahagslega ákveðin rök fyrir því að ráðast í þessa breytingu núna. Þá undrast ég það að þau ár sem eru liðin frá 2011 hafi ekki verið nýtt betur til að ná fram sameiginlegum skilningi. Hv. þingmaður veit það eins vel og ég, við höfum fengið marga tölvupósta þess efnis á undanförnum vikum og mánuðum, að það er mikið ósætti með breytinguna á meðal félagsmanna í heildarsamtökunum. Það er ekki gott að gera slíkar kerfisbreytingar í bullandi ósætti.