146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá flutningsmanni frumvarpsins að markmið þess er að tryggja að í landinu verði eitt sambærilegt lífeyriskerfi fyrir alla. Með breytingunni verði mikilvægum áfanga náð þar sem stefnt hefur lengi verið að því að jafna lífeyrisréttindi og samræma lífeyrisaldur milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Það er mikilvægt vegna ýmissa þátta. Það tryggir að í framtíðinni njóti allir starfsmenn, hvort sem þeir kjósa að vinna á almenna vinnumarkaðnum eða hinum opinbera, þessara sömu réttinda. Það auðveldar hreyfanleika á vinnumarkaði en það verður sífellt mikilvægara og dýrmætara í nútímasamfélagi. Þetta mætir einnig þeim halla sem er á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna í dag og tryggir sjálfbærni þess til framtíðar. Loks er mikilvægt að launakjör séu gagnsæ og samanburður milli stétta og vinnuveitenda sé auðveldur. Í litlu samfélagi sem vill ekki una ójafnrétti er þetta skref afar mikilvægt, að ég tel.

Ójöfn réttindaávinnsla launþega í almennu lífeyrissjóðakerfi annars vegar og opinberu kerfi hins vegar hefur lengi verið bitbein aðila á vinnumarkaðnum. Það er því til mikils unnið að leiðrétta þessi réttindi. Þá er aldurstengd réttindaávinnsla í opinberum sjóðum sem frumvarpið kveður á um sanngirnismál fyrir yngri kynslóðir þar sem núverandi fyrirkomulag felur í sér tilfærslu réttinda frá yngri sjóðfélögum til hinna eldri. Auðvitað er líka rétt að ítreka að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna eru ekki sjálfbærir eins og ég nefndi áðan með óbreyttu fyrirkomulagi og nauðsynlegt að bregðast við því. Svigrúmið sem ríkissjóður hefur nú árið 2016 er einstakt og alls óvíst hvenær ríkið gæti mætt skuldbindingum sínum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Brúar væri tekin ákvörðun um að nota svigrúmið í önnur verkefni.

Það eru heldur litlar líkur á að það verði áframhaldandi vinna við nýtt samningsmódel á vinnumarkaði ef lífeyrisréttindi verða ekki jöfnuð. Þetta er því alger grundvallarforsenda fyrir því að fá fólk aftur að því borði. Lífeyrissjóðamálin eru órjúfanlegur þáttur í þessum samningum.

Ef frumvarpið verður samþykkt er ljóst að hækkun launa opinberra starfsmanna, sem njóta ekki samkeppnishæfra kjara samanborið við almenna vinnumarkaðinn, verður að vera forgangsmál í opinberum rekstri. Það verður að vera algert forgangsmál að taka á því. Það er í raun ekkert skrýtið að áhyggjur opinberra starfsmanna lúti að þessu atriði. Jöfnun launa er hluti af samkomulaginu um breytingar á skipun lífeyrismálanna sem frumvarpið byggir á og við það verður að standa. Það þarf að jafna launamun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar, ekki síst kvennastétta í heilbrigðisgeiranum og kennara.

Herra forseti. Ég vil gagnrýna hvernig sitjandi ríkisstjórn hefur haldið á málinu. Rétt áður en frumvarp sama efnis var lagt fram í haust kom í ljós að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafði ekki sama skilning og viðsemjendur á málinu. Það var ekki reynt að leysa úr þeim ágreiningi með fullnægjandi hætti á árinu sem er að líða. Og eins og áður segir höfum við einstakt tækifæri nú til að koma á skilvirkari vinnumarkaði. Jöfnun lífeyrisréttinda hefur verið ein meginforsenda sameiginlegrar vinnu að nýju líkani og því verður að gagnrýna þessi vinnubrögð. Ég tel afar ólíklegt eins og málið er statt núna að þetta sé líklegra til að skapa frið á vinnumarkaði en ella hefði verið, ef menn hefðu vandað sig betur.

Ég get tekið undir ýmislegt og reyndar mjög margt í áliti meiri hlutans en ég tel þó nauðsynlegt að gera tvær breytingar til viðbótar þannig að frumvarpið sé að mínu mati ásættanlegt. Sú fyrri lýtur að geymdum réttindum, í b-lið 7. gr. (nýtt ákvæði til bráðabirgða IX). Ástæða er til að tryggja öðrum sjóðfélögum lífeyrisauka en þeim einum sem hafa greitt til sjóðsins síðustu 12 mánuði. Þá er ég ekki síst að horfa til þeirra einstaklinga sem hafa greitt til sjóðsins, jafnvel í mjög langan tíma, en ákveðið að færa sig yfir á almenna vinnumarkaðinn, jafnvel tímabundið. Þeir fá ekki lífeyrisaukann þótt þeir færi sig aftur yfir í opinbera kerfið. Þetta er að mínu mati réttlætismál, þ.e. að þeir séu jafnsettir þeim sem starfa innan opinbera kerfisins í dag. Þegar kemur að áunnum lífeyrisréttindum í framtíðinni eiga þeir auðvitað sinn rétt þarna. Breytingin þarf því að miða að því að þessi hópur geti aftur fært sig yfir á opinbera markaðinn og njóti þess þá að hafa lagt töluvert af mörkum þar áður. Í greinargerð með frumvarpinu er hreyfanleika á milli hins opinbera og almenna vinnumarkaðar lýst sem einu af markmiðum frumvarpsins. Þessi rýmkun myndi að sjálfsögðu ýta enn frekar undir þann hreyfanleika. Ég tel ólíklegt að hún hefði veruleg áhrif á frumvarpið því að það má gera ráð fyrir að álíka margir flytji sig af opinbera markaðnum á almenna markaðinn og ljúki þar starfsævinni á móti þeim sem koma þar inn.

Síðari breytingartillagan sem ég legg til snýst um a-lið 3. mgr. c-liðar 7. gr. (nýtt ákvæði til bráðabirgða X). Hann verði eins og hann var í frumvarpinu sem var lagt fram í haust, enda er það í samræmi við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Þar var kveðið á um að verði tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs neikvæð sem nemi 10% eða meira samkvæmt árlegu mati verði greitt úr lífeyrisaukasjóði til að mæta neikvæðu stöðunni. Það er rétt að hafa í huga að í viðauka við samkomulag BHM, BSRB og KÍ annars vegar og ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar kom fram að þessi háttur yrði á. Í frumvarpinu sem nú er lagt fram er gerð breyting á greininni án þess að hafa samráð við þessa aðila og er gert ráð fyrir að horft sé til fimm ára tímabils í stað eins árs. Ég tel mikilvægt að það samkomulag sem birtist í viðaukanum sé virt, ekki síst til að rýra ekki traust milli aðila sem virðist kannski ekki vera mikið í augnablikinu.

Loks má halda því fram að komi upp sú staða sem lýst er í breytingartillögu minni, að tryggingafræðileg staða sé neikvæð um 10% samkvæmt árlegu mati, sé einfaldlega full ástæða til að grípa til aðgerða enda hefðu þá stórkostlegar breytingar orðið á sjóðnum.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að frumvarpið tryggi öllum ríkisábyrgð sem þegar eru komnir á elli- og örorkulífeyri ásamt þeim sem eru 60 ára og eldri og gætu hafið töku lífeyris. Það hefði hins vegar kallað á ákveðið vandamál að teygja sig neðar í aldursstigann. Lengri tíma hefði tekið að ná fram jöfnuði í öllu lífeyriskerfinu. Eins hefðu rök opinberra starfsmanna fyrir launajöfnun verið veikari. Ég tel því að það séu, eins og kom fram í máli hv. flutningsmanns, málefnaleg rök fyrir því að draga mörkin við 60 ára aldurinn.

Ég skil auðvitað mætavel áhyggjur þeirra sem viðruðu þær í umsögnum um frumvarpið. En ég er sannfærður um að í eðlilegu árferði og jafnvel með talsverðum sveiflum og áföllum mun þetta nýja kerfi með lífeyrisauka, með varúðarsjóði og með samningum launþega við ríki til þrautavara, ráða við að tryggja sjóðfélögum jafn verðmæt réttindi og áður. Yrðu hér hins vegar stórkostleg áföll sem settu allt á hliðina, það gætu verið hamfarir og styrjaldir eða eitthvað þaðan af verra, væri í rauninni kannski bara tvennt í stöðunni miðað við núverandi kerfi. Annars vegar að ríkissjóður gæti einfaldlega ekki staðið við skuldbindingar sínar og þá vaknar spurningin: Hvers virði er ríkisábyrgð sem ekki er hægt að standa við? Eða hinn kosturinn, sem er nú ekki betri, og hann er sá að ríkið stæði við skuldbindingar sínar og kostnað en kostnaðurinn við slíkar hryllilegar aðstæður legðist á almenning sem hefði auðvitað líka á slíkum tímum orðið fyrir miklum búsifjum. Þá myndi birtast í okkar litla samfélagi óréttlæti sem ég er ekki viss um að við gætum horfst í augu við.

Herra forseti. Að lokum: Ég er sannfærður um að með jöfnun lífeyrisréttinda allra landsmanna getum við stigið gott og mikilvægt skref í átt að almennri sátt á vinnumarkaði. Við getum unnið okkur í átt að meiri stöðugleika og jöfnuði í samfélaginu ef við höldum rétt á spilunum í framhaldinu. En til þess tel ég þó að enn þurfi að gera töluverðar breytingar á frumvarpinu.