146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ræðumanni fyrir rosalega fína yfirferð. Ég er í raun nánast alfarið sammála því sem hann segir í nefndarálitinu og ræðu sinni. En mig langar til að spyrja, þar sem hann bendir á að svigrúmið sem ríkissjóður hefur sé einstakt, sem er vissulega rétt, og óvíst hvenær ríkið gæti mætt skuldbindingum sínum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og við Brú ef ákveðið væri að nota svigrúmið í önnur verkefni: Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að nota þessa peninga frekar í að greiða niður skuldir ríkisins og nota vaxtasparnaðinn sem hlytist af þeirri niðurgreiðslu til þess að reyna að borga inn á þetta smám saman yfir lengra tímabil? Lauslegt mat mitt er að það gæti tekið tíu til þrettán ár, eftir því hvernig málin þróast.