146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að víkja að b-lið breytingartillögu hv. þingmanns. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skoðað það gaumgæfilega hvort þessi breytingartillaga, sem hefur vissulega að geyma orðalag sem er tekið upp úr samkomulaginu frá 19. september milli aðila vinnumarkaðarins, en þó ekki nema að hluta, eins og hún er hérna þjóni hagsmunum sjóðfélaga betur en sú framkvæmd sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Minn skilningur á frumvarpinu er að með a-lið 3. mgr. c-liðar 7. gr. hafi einmitt verið ætlunin að koma til móts við sjóðfélaga ef upp kæmi sú staða að varúðarsjóðurinn væri tæmdur og ekki væri komin niðurstaða í viðræður um viðbrögð, þær viðræður sem kveðið er á um í c-lið 7. gr.

Ég vek athygli á því að í breytingartillögunni er ekki tekið upp orðalag úr samkomulaginu sem kveður á um að varúðarsjóðurinn skuli haldast óskertur í fimm ár, heldur að ef þetta næði fram að ganga þá gæti varúðarsjóðurinn tæmst og menn væru bundnir við það að líta til 39. gr. lífeyrissjóðslaganna sem kveður á um skyldu eða a.m.k. möguleika á að skerða réttindi ef svo ber undir.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skoðað hvort hagsmunum sjóðfélaga sé virkilega betur fyrir komið með þessari tillögu.