146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir málflutning hans og ýmislegt í honum sem ég er sammála og margt sem hann talar um sem ég tel til bóta. Mig langar engu að síður að spyrja hv. þingmann út í orð hans varðandi 60 ára regluna. Ég skildi hann ekki öðruvísi en að hann tæki undir það sem sumir aðrir hv. þingmenn hafa sagt í þessum sal, að ef hún væri ekki myndi það þýða að jöfnun lífeyrisréttinda á hinum almenna opinbera markaði tæki lengri tíma, þetta væri málefni inn í framtíðina og tæki ekki á þeim vanda sem við ættum við akkúrat núna í dag. Hv. þm. Loga Einarssyni er hins vegar fullljós afstaða stórra stéttarfélaga á hinum opinbera markaði, BHM, Kennarasambands Íslands, BSRB. Öll þessi félög og jafnvel fleiri til telja að þessi regla sé einfaldlega ekki í samræmi við það samkomulag sem skrifað var undir á sínum tíma. Nú segir í nefndaráliti hv. þingmanns, með leyfi forseta:

„Frumvarpið byggist á þessu samkomulagi og við það verður að standa.“

Mig langar að spyrja hv. þm. Loga Einarsson hvort hann telji að það álit BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands að þessi regla stangist á við samkomulagið sé rangt hjá viðkomandi samtökum og hvort hann telji að reglan sé í fullu samræmi við það samkomulag sem skrifað var undir.