146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að víkja kannski fyrst að síðustu spurningunni. Já, ég tel að í rauninni sé frumvarpið í megindráttum í takti við samkomulagið vegna þess að þar kemur fram að með eingreiðslu séu þessi réttindi keypt, ekki ríkisábyrgð, heldur sá háttur sem er á að iðgjöld hækki frá ríkinu til þess að mæta þessari jöfnu réttindaávinnslu.

Þegar ég nefndi 60 árin fannst mér það vera málefnaleg mörk vegna þess að eftir þann aldur hefur maður rétt á lífeyristöku og ósköp eðlilegt að þeir sem þegar þiggja örorku- og ellilífeyri séu undanþegnir og hafi ríkisábyrgð, vegna þess að mér skilst að í hæstaréttardómi sé kveðið á um að þar geti mörkin legið á því hvar megi skerða. Ég held að það sé málefnalegt.

Það sem ég átti við er að eftir því sem við færum mörkin neðar, hvort það eru 50 ár, 40 ár, 35 ár, 20 ár, þá tökum við okkur einfaldlega lengri tíma í að breyta úr þessu kerfi og jafna lífeyrisréttindi milli almenna markaðarins og opinbera markaðarins. Það held ég að myndi ekki leggjast vel í talsmenn almenna markaðarins þannig að samkomulagið yrði þá væntanlega í uppnámi.