146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort maður á að temja sér að alhæfa um að menn fari með rangt mál eða ekki. Það getur oft orðið ágreiningur milli manna um túlkun þegar gert er samkomulag. Til þess höfum við ýmis verkfæri. Við höfum lögmenn og dómara og dómstóla til þess að jafna þann ágreining. Ef þú spyrð mig þá tel ég í rauninni að frumvarpið sé að stærstum hluta eða stórum hluta algjörlega í samræmi við samkomulagið. Það stendur í samkomulaginu, sem hér er skannað, staflið c í 1. lið, með leyfi forseta:

„Réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar verði jafn verðmæt fyrir og eftir þær breytingar á skipan lífeyrismála sem kveðið er á um í samkomulagi þessu.“

Hér er verið að setja stóra eingreiðslu inn til þess að kaupa í rauninni gamla fyrirkomulagið. (Forseti hringir.) Ef við hefðum tryggt mönnum öll sín réttindi eins og þau hefðu verið næstu 45 árin og jafnframt greitt inn, þá hefði það stappað nærri gjöf.