146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú erum við að fjalla um þetta mál, lífeyrissjóðamál, eins og það hefur gjarnan verið kallað, í a.m.k. annað sinn hér á þingi. Málið kom til fjárlaganefndar í haust þegar það var rætt, þ.e. rétt fyrir þinglok. Ég sat í þeirri nefnd þá eins og nú og tók þátt í þeirri umfjöllun og tók á móti þeim gestum sem þangað komu og lýstu skoðun sinni á frumvarpinu. Ég verð að segja, eins og fleiri, að ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa efasemdir um frumvarpið. Það veldur mér vonbrigðum að ekki skuli hafa gengið lengra en sjá má á þeim tíma sem liðið hefur því að ég hef trú á að ætlunin hafi verið allan tímann að leggja málið fram aftur af hálfu þeirra sem það gera og því ótrúlega sérstakt að sjá ekki fleiri breytingar. Kannski má segja að trúnaðarbrestur ríki um frumvarpið gagnvart þeim sem verið er að reyna að semja við. Eiginlega er ekki hægt að segja annað miðað við þær umsagnir sem maður les. Það eru allt of margir innan samtaka opinbera geirans sem lýsa sig ósammála þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir og út af fleiri en einu atriði í sjálfu sér.

Ég hef verulegar efasemdir um frumvarpið, eins og ég hafði þá. Mér finnst, og það er svolítið gegnumgangandi eins og kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta t.d., að tala um að launakjör séu gagnsæ og samanburður milli stétta og vinnuveitenda auðveldur. Til þess þurfum við að setja einhver lög, t.d. um að launaleynd verði afnumin, það er eitt af því sem ég hef svo sem áður rætt hér í pontu, til þess að einhvern tímann og einhvern veginn verði hægt að jafna launakjör. Jöfnun launakjara er eitt af stóru málunum, ekki bara í því sem snýr að því að ekki eigi að hrófla við áunnum réttindum opinberra starfsmanna og bæta fyrir breytingar sem að óbreyttu, eins og kemur fram í áliti 1. minni hluta, skerða réttindi sjóðfélaga heldur það verklag, sem hefur komið hér til tals, að setja eigi á fót einhvern hóp til að finna út úr því hvernig eigi að jafna kjörin.

Ég lýsti því yfir þá á fundi fjárlaganefndar þegar málið kom fyrir hana og ég hef sömu efasemdir núna — en ég ætla að segja það í upphafi að ég styð í sjálfu sér hugmyndafræðina að jafna lífeyrisréttindin — en það skiptir auðvitað alltaf máli hvernig það er gert eins og allt annað sem við tökum okkur fyrir hendur. Mér finnst mjög sérstakt, þetta er margra ára vinna, að engar tilraunir skuli hafa verið gerðar til þess að koma fram með einhvers konar sviðsmyndir hvernig við ætlum að fara að því að jafna laun. Maður skilur það svo vel þegar maður hugsar um þá hópa sem hér eru undir og hafa gagnrýnt þetta, t.d. hjúkrunarfólk, löggæslumenn, slökkviliðsfólk eða hverjir það eru. Þetta eru fáeinir af þeim hópum sem hafa goldið varhuga við þessu. Lögreglumenn afsöluðu sér verkfallsrétti. Ég hef spurt töluvert um kjör þeirra og hvernig þau hafa þróast. Þau hafa í raun ekki þróast í takt við þá ætlun sem lá undir í því samhengi. Eins og kom fram hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni áðan: Við hvað á að jafna? Eini aðilinn er hið opinbera sem er launagreiðandi viðkomandi stétta. Mér finnst þetta stór spurning. Mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því. Því að lífeyrisréttindin, og við þekkjum öll þessa umræðu, eru auðvitað partur af því að opinberum starfsmönnum hefur oft og tíðum, ég ætla ekki að alhæfa og segja alltaf, verið haldið niðri í launum vegna þess að réttindin eru sterk.

Nú á að afnema þau í þeirri mynd sem þau eru en hitt er skilið eftir inn í framtíðina. Ég skil vel að fólk hafi áhyggjur af því að afsala sér réttindum til framtíðar núna um áramótin og svo eigi það að vera undir stjórnvöldum komið hverju sinni hvernig það verður framkvæmt og hvort. Ég er ekki búin að gleyma umræðunni um það þegar launakjör lækna voru hækkuð verulega til að reyna að halda læknum inni á spítölunum, Landspítalanum sérstaklega, til að vera samkeppnishæf um afburðagott fólk. Það þurfti til. Og það voru gríðarleg átök. Við höfum ekki gleymt því. Við erum að tala um risavaxið verkefni til framtíðar, um er að ræða gríðarlegan fjölda fólks en engin tilraun er gerð til að kostnaðarmeta það fyrir hönd ríkisins hvað það getur þýtt til framtíðar litið að bæta og jafna kjörin.

Ég skil vel að fólk sem hér á sitt undir sé óöruggt um að kjör þess verði bætt. Ljósmæður, ég get tekið þær sem dæmi líka, hirt var af þeim meira að segja. Þær fengu ekki einu sinni greitt þegar þær voru í verkfallsaðgerðum og þurftu að sinna tilteknum neyðarvöktum að sjálfsögðu og öðru slíku. Maður skilur vel þessar láglaunastéttir, þær eru a.m.k. alveg örugglega ekki vel borgaðar miðað við marga aðra miðað við ábyrgð og álag o.s.frv., en á því getum við svo sem líka haft ólíkar skoðanir.

Það er ábyrgðarhluti af okkur, og við megum ekki gleyma því að þótt einhver okkar hafi tekið þátt í umfjöllun um þetta mál í haust eru töluvert margir nýir þingmenn sem tóku ekki þátt í því samtali, að ætla sér á nokkrum dögum að samþykkja hugsanlegt réttindaafsal komandi kynslóða opinberra samtaka og þeirra fjölskyldna án þess að við höfum eitthvað í hendi, bæði hvað varðar ríkissjóð og eins varðandi launamuninn. Ég man að í haust þegar við ræddum þetta þá hafði komið fram könnun vegna kvennastétta, því að þær eru nú hér undir. Það voru ansi sláandi tölur, mig minnir að það hafi verið 15% eða 16% milli VR og SFR, sem núverandi launamunur er. Þann launamun á þá eftir að jafna áður en við förum svo í það að jafna kjörin milli hins almenna og opinbera markaðar.

Ég er mjög skeptísk. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að til séu peningar núna sem gott er að setja inn í kerfið. Sumir myndu telja ábyrgt að gera það. En þá er það þessi stóri hluti, sem mér finnst ekki vera ábyrgur, þ.e. hvernig við ætlum að jafna kjörin.

Ég ætla í áframhaldi af þessu að vitna beint í frumvarpið því að ég hef efasemdir um að ríkisstjórn hvers tíma eigi að hafa þetta í höndunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá verður að gera ráð fyrir því að launajöfnun í þessu tilliti verði innan þess svigrúms sem kjarasamningar og ríkisfjármálaáætlanir setja og að ýmsir aðrir þættir muni geta vegið þar til mótvægis, svo sem aukin framleiðni í opinberri starfsemi, endurskipulagning og hagræðing þjónustuveitingar, tækniþróun, ráðstafanir til að draga úr öðrum útgjöldum o.fl.“

Þetta er notað sem rök fyrir að ekki sé hægt að setja á þetta einhverja krónutölu. En auðvitað er það ekkert annað en að menn hafa ekki gert tilraun til þess og sjá engan veginn fyrir sér hvernig þeir ætla að jafna þessi laun.

Mér finnst hins vegar líka annað mjög mikilvægt í þessu sem kemur fram í áliti 1. minni hluta hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, það eru athugasemdir um að einhverjir umsagnaraðilar telji að frumvarpið geti brotið í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. þar sem ákveðin hætta sé á að áunnin réttindi glatist ef ávöxtun til framtíðar eða einhverjar aðrar tryggingafræðilegar forsendur bregðist. Þetta er a.m.k. eitt af álitamálunum sem hér eru undir, sem eru risavaxin og óhætt að segja að hægt væri að hægja á málum fyrir minna, skulum við segja. Ég fæ ekki séð, ef fólk vill nýta þessa fjármuni, að þeir hverfi um áramótin. Það er væntanlega hægt að koma þeim fyrir, hvort sem fólk vill stofna reikning í Seðlabankanum ef það heldur að það eyði honum, hafi ekki stjórn á sér hvað það varðar. Það er ýmislegt hægt að gera til að taka ekki mál með þessum flýti. Gert hefur verið ráð fyrir því hjá lífeyrissjóðunum að hækka iðgjöldin nú þegar, eðlilega, við nálgumst jól. Það eru allir búnir að gera sínar áætlanir. Mér finnst þetta ekki góður bragur. Mér finnst líka áhyggjuefni varðandi lífeyrisaukann, þ.e. að færa sig á milli hins opinbera og hins almenna markaðar, að ekki megi líða lengri tími en 12 mánuðir. Opinber starfsmaður, eins og segir í áliti 3. minni hluta þar sem talað er um vistarband í formi framtíðarógnunar, sem hefur þurft að sætta sig við jafna ávinnslu réttinda fyrri hluta starfsævinnar getur ekki gert meira en árs hlé frá störfum hjá hinu opinbera vilji hann ekki glata réttinum. Því má segja að hann sé í reynd í vistarbandi út starfsævina. Það getur eiginlega ekki verið það sem er verið að meina með frumvarpinu. Það getur ekki verið tilgangur þess.

Þegar við horfum á þetta núna og förum yfir það og veltum fyrir okkur, og þá erum við ekki að hugsa um okkur sem þingmenn heldur þær stéttir sem hafa barist lengi fyrir bættum kjörum, nýbúnar að samþykkja samninga, t.d. kennarar og aðrir starfsmenn sem gera hér athugasemdir, þá hljótum við að þurfa að vega hvort tveggja og meta, ekki bara hag ríkissjóðs og peningana sem til eru núna heldur líka að viðurkenna að við klikkuðum á þessu með að búa til einhverjar sviðsmyndir inn í framtíðina. Ef við segjum að það sé ekki fært, það sé bara ekki hægt, hvaða skilaboð erum við þá að senda fólki sem á að vera undir þetta sett?

Ég veit það ekki, virðulegi forseti. Og ég veit heldur ekkert við hvaða stéttir á að miða eins og ég sagði, t.d. lögreglumenn eða slökkviliðsmenn eða hverjir það eru. En það er ekki einu sinni gerð tilraun til að segja: Eftir tvö, fjögur, sex, tíu ár ætlum við að vera komin með eitthvað. Það vantar eitthvert aðgerðaplan varðandi þennan þátt málsins, sem er auðvitað hinn stóri hlutinn í þessu sem ég hef verið að rekja. Fólk er að eldast. Sú launaskekkja sem ég talaði um áðan, 16%, er eitt af því sem við vitum. En af því að við vitum ekki við hvaða stéttir við eigum að miða vitum við ekkert hver hann er í dag endilega, hvað á eftir að jafna í dag, hvað þá til framtíðar. Þegar maður horfir á stöðuna eins og ég lýsti áðan varðandi þá aðila sem hafa komið inn á borð til okkar og lög hafa verið sett á vegna kjarabaráttu, sérstaklega hjá þeim opinberu, eða viðkomandi aðilar hafa farið í verkfall og náð þannig fram, með miklu tjóni fyrir samfélagið, eftir streð einhverri baráttu um að ná fram bættum kjörum, þá er ég ekki mjög bjartsýn fyrir þeirra hönd hvernig þetta getur orðið.

Þetta eru efasemdir mínar hvað varðar fráfarandi ríkisstjórn og starfsráðherra sem leggur þetta til. Ég held að við náum ekki samkomulagi á vinnumarkaði með þessu frumvarpi. Mér finnst það ekki. Það er gjarnan talað um að allt verði vitlaust í febrúar, að ef þetta nái ekki fram að ganga fari allt á flot. Það eru því miður of margir og stórir hópar ósáttir. Það er alvarleiki þessa máls.

Við á þingi erum gjarnan að reyna að búa til eitthvert þverpólitískt traust. Það erum við að reyna að gera núna í fjárlagavinnunni. Það er auðvitað mjög oft erfitt. En við hefðum átt að setja málið í þann farveg núna að reyna að ná einhverjum sáttum, ég tala nú ekki um þessar vikur þó sem liðnar eru frá því að frumvarpið var lagt fram síðast, það er eins og ekki hafi verið gerð tilraun til að ná sátt, hvorki þinglegri né meðal þeirra aðila sem hvað mest hafa gagnrýnt þetta. Þegar annar aðilinn segir: Þetta er bara ekki samkvæmt samkomulaginu sem gert var, þá er þetta ekki samkomulag. Hvernig getur eitthvað verið samkomulag ef ekki er sátt um stóra þætti í túlkun málsins? Ég veit það ekki. Ég átta mig ekki á því.

Mig langar að lokum að fara aðeins yfir það sem kom fram í Kjarnanum fyrir allnokkru síðan þar sem var verið að ræða þennan launasamanburð. Þar var haft eftir fjármála- og efnahagsráðuneytinu, með leyfi forseta:

„… að launasamanburður milli opinbera og almenna markaðarins væri illmögulegur þar sem þessir markaðir væru ólíkir með tilliti til starfsstétta/stéttarfélaga, menntunar og fleiri þátta. Þá eru ýmsar starfsstéttir sem vinna nær eingöngu á öðrum hvorum markaðinum. Einnig er mikill munur innan opinbera markaðarins, þ.e. milli ríkis og sveitarfélaga, sem skýrist meðal annars af ólíku menntunarstigi. Af þessum sökum töldu aðilar sig ekki geta byggt frekari vinnu um launasamanburð á þessum grunni og því varð niðurstaðan sú að þetta þyrfti bæði að byggja á betri forsendum og ræðast frekar milli aðila.“

Það er kannski þetta sem kristallast í afstöðu minni. Mér finnst hér verið að viðurkenna vanmátt, viðurkenna af hálfu hins opinbera: Við getum ekki gert þetta, áður en menn leggjast yfir höfuð í einhverja vinnu finnst mér. Ég upplifi það þannig.

Svo er einn góður félagi minn sem þekkir þetta kannski manna best, betur en margur annar hér inni a.m.k., fyrrverandi þingmaður, Ögmundur Jónasson. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Vandinn er svo sá að stórir hópar hjá hinu opinbera eru vissulega lakar settir en gerist á almennum markaði en hið gagnstæða er líka til í dæminu. Ef alhæft er, þá er hærri hluti launakerfisins hjá hinu opinbera sennilega lakar settur en hið gagnstæða á við um þá lægri. Þetta er ekki algild regla en vegna þessa hafa samtök langskólafólks yfirleitt verið hlynntari samræmingu en samtök þeirra, sem standa vörð um lágtekjufólkið.“

Er það ekki bara þetta sem við þurfum að hafa í huga þegar við ákveðum að samþykkja málið á þingi? Eða synja? Nú veit ég ekki hvernig það fer. Við getum alveg haft deildar meiningar um það en ég er enn sömu skoðunar og ég var í haust, ég hef efasemdir um þetta vegna þeirra stóru aðila sem hér hafa lýst áhyggjum sínum og þess sem ég hef rakið varðandi launakjör. Mér finnst það algerlega óásættanlegt. Ég myndi, ef ég væri starfandi núna sem kennari eða náms- og starfsráðgjafi eins og ég var, taka undir þessa bókun og skammir til þingmanna um að þetta sé ekki ásættanlegt eins og þetta er borið fram.