146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:47]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú heyrir maður alla þá sem styðja minnihlutanefndarálitin segja að þeir styðji voða mikið jöfnun lífeyrisréttinda, en svo er þetta allt einhvern veginn ómögulegt. Ég ætla ekki að fjalla um það því að það er erfitt að svara því í andsvari. Eitt í ræðunni hjá hv. þingmanni kemur fram hjá mörgum sem um þetta ræða, það er eins og menn gefi sér alltaf að opinberir starfsmenn séu með lægri laun eða lakari kjör. Hv. þingmaður tiltók sérstaklega slökkviliðsmenn og lögreglumenn, hvernig eigi að jafna þeirra laun við almenna markaðinn. Þessir hópar eru ekki á almennum markaði. Þá er spurningin: Hver er samanburðarhópur? Ef við tökum bara menntun og slík hlutlæg atriði, er þá hv. þingmaður viss um að þessir menn séu á lakari kjörum? Þetta á við um margar aðrar stéttir, t.d. kennara. Nú eru til að mynda einhverjir hjúkrunarfræðingar á einkamarkaði — eru kjörin svona miklu lakari? Og telur þingmaðurinn líka eðlilegt þegar menn ræða jöfnun kjara að tekið sé að einhverju leyti tillit til annarra réttinda sem opinberir starfsmenn hafa umfram einkamarkaðinn, þ.e. lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Atvinnuöryggið og þess háttar hefur verið metið til kjara þannig að það er margt í þessu.

Ég vil gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns um þessi atriði.