146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er akkúrat það sem ég sagði með lögreglumennina og slökkviliðsmennina, þetta með samanburðarhópana. Við hverja eigum við að miða? Við höfum ágæta yfirsýn yfir kjör lögreglumanna. Ég er búin að fá ítarlegt svar frá innanríkisráðuneytinu sem vann gríðarlega vinnu til að finna út úr því. Þar kemur glögglega fram að þeir hafa dregist aftur úr. Sérstaklega nefndi ég þetta í tengslum við það að þeir afsöluðu sér m.a. verkfallsrétti og við skiljum ástæðuna fyrir því, en þá töldu þeir m.a. að ætti að bæta kjör þeirra í staðinn. Sú hefur ekki orðið reyndin, það sýna þessar tölur glögglega, því miður. Þess vegna skil ég að þessar stéttir hafi efasemdir.

Ég hef líka efasemdir um það við hvað við eigum að miða, akkúrat það sem hv. þingmaður nefndi. Eigum við að miða við menntun, erum við viss um að allir séu með lægri kjör sem við erum að tala um, þessar stéttir eða kennarar eða hverjir það eru sem þarna eru undir? Það er verkefnið sem átti að liggja hérna undir, sviðsmyndirnar sem áttu að liggja undir. Um það ættum við einmitt að vera ræða, að segja að við værum búin að átta okkur á því að þetta þyrfti til. Hér erum við með einhvers konar ramma um allar þessar stéttir, þarna getum við reynt að mæta og það tekur u.þ.b. þetta langan tíma í einhverju tilteknu árferði o.s.frv., hvort sem það eru tvö ár, fimm eða tíu. En það er ekki hér.

Þess vegna veit ég ekkert frekar en hv. þingmaður hvort þessi eða hinn opinberi starfsmaðurinn er á samanburðarhæfum launum nema bara, eins og ég segi, ef við viljum bera lögregluna saman við eitthvað verðum við að finna út hvað það „eitthvað“ er sem við viljum bera hana saman við af því við höfum yfirlit yfir launakjör lögreglunnar til langs tíma. Ég verð að segja að það er akkúrat þetta sem ég hefði (Forseti hringir.) viljað sjá hér undir til að við gætum tekið þessa umræðu af einhverju viti.