146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gef mér ekkert endilega, eins og ég sagði í fyrra svari mínu við vangaveltum hv. þingmanns, að opinberir starfsmenn séu að öllu leyti alltaf lægri í kjörum. Það kemur hins vegar fram í frumvarpinu sem við erum hér að samþykkja að jafna þurfi kjör. Það er eitt af grundvallaratriðunum í frumvarpinu þannig að við getum ekki horft fram hjá því að það er hér undir. Þingmaðurinn spurði á hvaða hópa hallaði og taldi það ekkert flókið. Það er ánægjulegt að heyra að það er ekki flókið en hvers vegna liggur það þá ekki fyrir? Af hverju í ósköpunum er það þá ekki hér til umræðu ef þetta er ekki mjög flókið? Það er það sem ég er ekki sammála þingmanninum um vegna þess að ég held að þetta sé mjög flókið verkefni. Þetta eru margar stórar stéttir. Það er ekki að ósekju sem fólk hefur áhyggjur af því að þetta geti tekið lengri tíma. Eins og ég sagði áðan, ef við hefðum einhverja aðgerðaáætlun eða ætluðum okkur einhvern tilskilinn tíma til að vinna þetta væri ég rórri en af hálfu ráðuneytisins er beinlínis sagt, eins og ég vitnaði til áðan, að menn séu búnir að gefast upp á verkefninu áður en það er hafið. Þeir telja þetta bara ekki hægt. Hvaða skilaboð eru það til fólksins sem býr við þetta? Þau eru ekki góð, finnst mér.

Hv. þingmaður talaði líka áðan um að við værum öll svo ægilega sátt við að jafna kjörin en svo værum við samt svo ósátt við þetta allt saman. Það er gott markmið að jafna. Ég stend fyrir það að við jöfnum sem allra mest og sem víðast í samfélaginu, en ekki að jafna bara einhvern veginn til að peningar ríkissjóðs komist á einhvern tiltekinn stað (Forseti hringir.) en skilja svo fólkið eftir í óvissu um hvað verður til framtíðar.