146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:56]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka svo djúpt í árinni að segja að nú sé runninn upp svartur dagur í réttindabaráttu íslenskra launþega vegna þess að nú á að afnema réttindi sem bundin hafa verið í kjarasamninga undanfarna áratugi. Þetta er reyndar ekki bara svartur dagur í réttindabaráttu íslenskra launþega heldur einnig í sögu Alþingis. Alþingi hefur sýnt og sannað enn einu sinni, því miður, að vinnubrögðum þess er verulega ábótavant. Nú á afgreiða umrætt frumvarp í flýti fyrir áramót. Við þingmenn, sérstaklega nýliðarnir í þessum hópi, höfum ekki haft nægan tíma til að setja okkur inn í málið. Hagsmunaaðilar höfðu einn sólarhring eða tvo til að koma athugasemdum sínum á framfæri, sem er forkastanlegt í ljósi þess að þau verða varla miklu stærri, málin sem koma til kasta þingsins.

Á þeim nauma tíma sem þó var til stefnu bárust efnahags- og viðskiptanefnd á sjötta tug athugasemda á rúmlega 200 blaðsíðum. Við skulum skoða hvernig umsagnaraðilar skiptast í fylkingar. Meðal þeirra sem segja já við þessu frumvarpi og fagna því eru: Akraneskaupstaður, Akureyrarkaupstaður, Dalabyggð, Eyjafjarðarsveit, bæjarráð Fljótsdalshéraðs, Húnaþing vestra, bæjarráð Hveragerðis, Ísafjarðarbær, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Seltjarnarnesbær, Stykkishólmsbær, bæjarráð Árborgar, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Vogar, Sveitarfélagið Ölfus og svo mætti lengi telja. Í þessum hópi er líka Viðskiptaráð Íslands, svo dæmi sé tekið.

Í þeirri fylkingu sem hafnar frumvarpinu má finna BHM, Bandalag íslenskra listamanna, RÚV, BSRB, Félag geislafræðinga, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag íslenskra leikara, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félag prófessora við ríkisháskóla, Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Félag starfsmanna Alþingis, Félag starfsmanna Stjórnarráðsins, Læknafélag Íslands, Póstmannafélag Íslands, Prestafélag Íslands og svo mætti lengi telja. Kennarasamband Íslands vildi ég líka hafa talið hér upp ef ég skyldi hafa gleymt því.

Það vekur athygli að launagreiðendur tala einum rómi, enda varðar þetta mál, svo ég vitni í umsögn eins sveitarfélagsins, með leyfi forseta, „þýðingarmikla hagsmuni bæjarsjóðs“. Þetta er nefnilega kjarabarátta, kjarabarátta sem fer að jafnaði fram við aðrar aðstæður og kjarabarátta sem er að jafnaði ekki færð inn á Alþingi nema í undantekningartilvikum þegar lög eru sett á vinnudeilur og verkföll.

Hagsmunasamtök launþega benda á að frumvarpið sé ekki í samræmi við samkomulagið frá því í september og vil ég hvetja þingmenn til að skoða athugasemdir þeirra. Þarna er ekki bara að finna athugasemdir hagsmunafélaga, sveitarfélaga eða samtaka, heldur líka erindi frá fræðimönnum. Hv. þm. Smári McCarthy, félagi minn, vitnaði til fræðimanna á borð við Gunnar Tómasson og Ólaf Margeirsson í ræðu sinni áðan. Gylfi Magnússon er líka í hópi þeirra fræðimanna sem gjalda varhuga við þessu frumvarpi. Það er þó ekki bara flumbrugangurinn sem er helsta meinsemd frumvarpsins, heldur sú staðreynd að ekki skuli vera unnið í sátt og samlyndi við báða aðila málsins.

Ég ætla ekki að fara í gegnum öll rökin, hv. þm. Smári McCarthy fór yfir þau áðan og það hafa fleiri reyndar gert. En ég vil telja til þau rök sem mér finnast hvað sterkust, þau eru það siðferðilega álitamál sem felst í því að áunnin réttindi verði afnumin bótalaust, réttindi sem hafa verið hluti af kjarasamningum undanfarna áratugi.

Ég man eftir því þegar félögum B-deildar LSR var boðið að skipta yfir í A-deild, og var sagt að þeir myndu ekkert missa af réttindum sínum við það. Það voru 2.900 manns, að ég held, sem gleyptu við því agni samkvæmt tölum frá Kennarasambandi Íslands. Ég er ekki frá því að margir sem gleyptu við því agninu á sínum tíma muni ganga ókátir til rekkju líkt og Hrefna, eiginkona Kjartans Ólafssonar, þegar hún frétti víg hans, verði þetta frumvarp að lögum.

Ég man líka eftir því að hafa verið snuðaður af ríkissjóði. Þannig var mál með vexti að gerður var kjarasamningur við framhaldsskólakennara. Hluti þess samnings var svokallaður stofnanasamningur eða stofnanahluti. Tilgangurinn var sá að hægt yrði að launa kennurum aukreitis í hverjum skóla með þeirri útfærslu sem yrði fyrir valinu í hverjum skóla fyrir sig. Það er skemmst frá því að segja að litlir sem engir fjármunir fylgdu frá ríkinu, enda kom á daginn að loforðið var nægilega loðið til að ríkið komst upp með að sleppa því að efna það, ef ég má komast svo að orði. Nú ætlar Alþingi Íslendinga sem sagt að taka áunnin réttindi af launafólki með loðnum loforðum um hærri laun í framtíðinni.

Hv. þm. Bjarkey Olsen hafði á orði í ræðu sinni áðan að úti í samfélaginu væru þær raddir háværar sem héldu því fram að allt yrði vitlaust í febrúar ef frumvarpið yrði ekki að lögum. Ég sé ekki hvernig frumvarp sem er í andstöðu við allt að helming alls launafólks í landinu geti stuðlað að stöðugleika á vinnumarkaði.