146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[18:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er sagnfræðingur að mennt. Okkur hættir dálítið til að skoða söguna frá upphafi. Um einn skólafélaga minn var sagt að hann hefði hafið allar sínar skólaritgerðir á setningunni: Fyrst kólnaði jörðin, svo komu risaeðlurnar. Ég er að hugsa um að fara ekki alveg svo langt aftur í sögulegri upprifjun minni á þessu máli. Ég ætla engu að síður að leyfa mér að horfa aðeins aftur í tímann því að það skiptir máli fyrir okkur hv. þingmenn sem munum greiða atkvæði um þetta mál hver saga þess er, að við áttum okkur aðeins á því af hverju vandinn varðandi lífeyrissjóðakerfið, sem er búið að tala um ansi lengi, er til kominn. Af hverju er skuld ríkissjóðs við opinbera lífeyrissjóðakerfið til komin? Af hverju þarf að setja fjármuni inn í þessa sjóði, hvað sem gerist? Jú, það er af því að hið opinbera, launagreiðandinn, ríkisvaldið, stóð ekki við sína lögbundnu skyldu um að greiða framlag launagreiðenda í lífeyrissjóðinn. Enginn annar vinnuveitandi hefði komist upp með að gera það ekki og trassa það árum, ef ekki áratugum saman. Ég verð að játa að þrátt fyrir sagnfræðimenntun mína er ég bara ekki með það á takteinum hversu lengi það viðgekkst. Það er vandinn, uppsafnaði vandinn, sem þurft hefur að taka á mjög lengi, eiginlega svo lengi sem ég man eftir frá því að ég fór að fylgjast með stjórnmálum.

Spólum svo aðeins aftur í tímann. Það vakti von í brjóstum margra, þar á meðal mínu, þegar tilkynnt var um það með nokkrum bravúr að hætti hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar, sem virðist oft og tíðum í ráðherratíð sinni hafa hugsað meira um að kynna hlutina með glæsilegum hætti en að huga að innihaldi þess sem hann kynnir, að náðst hefði samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda. Það er mál sem unnið hefur verið að mjög lengi í samráði við verkalýðshreyfinguna. Verkalýðshreyfingin sjálf hefur unnið að málinu innbyrðis, innan opinbera og almenna geirans, og hafa stjórnvöld komið að því á öllum stigum. Nú virtist loksins hafa náðst samkomulag. Góðar fréttir, ekki satt? Jú, maður hefði haldið það.

Samkomulagið var undirritað. Hvað stendur í því? Hv. þm. Logi Einarsson las hér áðan hluta úr c-lið 1. liðar, sem er um markmið og forsendur. Þó las hann ekki allan liðinn, en þar segir, með leyfi forseta:

„Réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar verði jafn verðmæt fyrir og eftir þær breytingar á skipan lífeyrismála sem kveðið er á um í samkomulagi þessu. Við jöfnun á tryggingafræðilegri stöðu og breytingar á réttindaávinnslu verði verðmæti núverandi sjóðfélaga sérstaklega tryggð.“

Ég ætla að fá að endurtaka það, með leyfi forseta:

„Við jöfnun á tryggingafræðilegri stöðu og breytingar á réttindaávinnslu verði verðmæti núverandi sjóðfélaga sérstaklega tryggð.“

Hér eru engar takmarkanir settar á hvaða sjóðfélagar séu þarna undir. Hér er ekki talað um virka greiðendur eins og allt í einu var talað um í því frumvarpi sem hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson lagði síðan fram.

Í d-lið 3. liðar samkomulagsins segir líka, með leyfi forseta:

„Við framangreindar breytingar verði verðmæti réttinda núverandi sjóðfélaga tryggð með sérstökum framlögum til sjóðanna af hálfu launagreiðenda.“

Verðmæti réttinda núverandi sjóðfélaga tryggð. Hér er ekki talað um 60 ára og eldri. Hér er talað um núverandi sjóðfélaga.

Eftir þetta og samhliða þessu samkomulagi náðist einnig samkomulag og var gerður samningur á milli fjármála- og efnahagsráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Grundvöllur

Samningurinn er gerður í ljósi samkomulags fjármála- og efnahagsráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga við BHM, BSRB og KÍ um breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála opinberra starfsmanna dags. 19. september 2016.“

Samningurinn á milli ríkis og sveitarfélaga hvílir með öðrum orðum algjörlega á samkomulaginu sem gert var á milli Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar. Ég er með afrit af þeim plöggum hér. Horfum aðeins á síðuna með undirskriftunum. Hverjir skrifa undir þetta? Það eru hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hér er framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hér er staðfesting forsætisráðherra. En hverjir skrifa svo undir með fyrir hönd samningsaðilanna? Það eru Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, og Þórður Á. Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands.

Hver er staðan núna? Þetta eru þau þrjú stéttarfélög eða samtök þeirra sem skrifa undir samkomulagið sem allt málið byggir á. Hver er afstaða þeirra þriggja sem skrifuðu undir? Þau eru öll með tölu á móti því frumvarpi sem hér er til umræðu og segja öll að frumvarpið sé ekki í samræmi við samkomulagið sem þau skrifuðu sjálf undir. Þetta er svo grafalvarlegt mál að mig undrar stundum hvernig margir hv. þingmenn tala, að ekki sé talað um hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson, eins og þetta sé ekkert sérstakt mál, eins og þetta sé bara eitthvert vafaatriði og að einhver telji þetta og einhver telji hitt, þetta snúist bara um að finna eitthvað út úr þessu eða hinu. Þrír af þeim sem skrifuðu undir samkomulagið segja að frumvarpið sé ekki í samræmi við það. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson fékk eitt verkefni þegar hann fór af þessum blaðamannafundi, þar sem hann var búinn að halda sýningu um það hvað honum hefði tekist, hvað hefði áunnist í þessu. Það var að búa til lagafrumvarp sem byggði á samkomulaginu. Það kom strax í ljós þegar hæstv. ráðherra lagði fram fyrra frumvarpið í haust að honum hafi ekki tekist að leysa það verkefni. Það var samdóma álit mjög margra í þessum sal að svo væri alls ekki, enda fór það frumvarp ekki í gegn. Það var lagt hér fram á síðustu metrum síðasta þings.

Nú er komið fram nýtt frumvarp. Til að gæta heiðarleika og sanngirni, eins og maður á alltaf að gera, segja þau sem að samkomulaginu standa að vissulega sé það skref í rétta átt. Frumvarpið núna líkist meira hugmyndum þeirra sem skrifuðu undir samkomulagið og innihaldi samkomulagsins en fyrra frumvarp, en það er að sjálfsögðu ekki nóg. Það er ekki nóg að skrifa frumvarp sem líkist á einhvern hátt því samkomulagi sem maður skrifar sjálfur undir.

Alls staðar annars staðar en á hv. Alþingi Íslendinga væru það óboðleg vinnubrögð. Hér ætlum við bara að segja að þetta sé allt í lagi, skrifa undir eitt einn daginn en koma svo næsta dag með eitthvað allt annað. Ég veit ekki hvort talað var um að fólk hefði verið vélað til að skrifa undir, hafi skrifað undir á fölskum forsendum, ég ætla ekki að setja mig inn í hugarheim annarra. En það hlýtur að vekja upp spurningar hvort menn hafi ekkert meint með því þegar þeir settust niður og settu á blað það sem í samkomulaginu stóð. Það var í það minnsta sá ásetningur að löggilda svo samkomulagið, en hans sér ekki stað í frumvarpinu sjálfu, hvorki því fyrra né því sem við fjöllum um hér.

Ég hef hlustað á hv. þm. Brynjar Níelsson í nokkrum andsvörum í dag þar sem hann dregur í efa að það sé yfir höfuð einhver launamunur á milli hins almenna markaðar og hins opinbera. Ég leyfi mér að draga það í efa, með þeim fyrirvara sem ég setti hér áðan um að maður eigi ekki að setja sig um of inn í hugarheim annarra, ef það er afstaða Sjálfstæðisflokksins, afstaða flokks hæstv. fjármálaráðherra. Ef sú afstaða hefði komið fram áður en undir samkomulagið var ritað hefði aldrei verið skrifað undir það því að þessi jöfnun er einn af hornsteinunum samkomulagsins.

Þá komum við að því sem er svo grátlegt. Hér var sögulegt tækifæri til að ná góðum árangri í þessum málum. Opinberir starfsmenn gáfu eftir réttindi sín og treystu því að þeim yrði bætt upp það sem þeir misstu með ákveðnum aðgerðum. Þeir væru með öðrum orðum tryggðir. Það er þyngra en tárum taki að hæstv. fjármálaráðherra og fráfarandi stjórnarmeirihluti hafi farið svona með það traust og að við ætlum síðan núna að halda áfram þessu máli undir merkjum tímapressu sem við eða fráfarandi stjórnarmeirihluti höfum búið til algjörlega sjálf. Hefðu menn staðið að þessu máli með réttum hætti frá upphafi og í samræmi við það sem í samkomulaginu stóð værum við ekki hér í þessari tímapressu.

Samkvæmt þremur þeirra sem skrifuðu undir samkomulagið er 60 ára reglan ekki í samræmi við það. Það getur vel verið að okkur finnist það rangt hjá þeim. Það er bara þannig, en það breytir því ekki að þeir, sem hluti af samkomulaginu, fullyrða að svo sé. Raunar barst okkur fyrir skömmu orðsending frá formanni Kennarasambands Íslands þar sem segir ósköp einfaldlega: Frumvarpið eins og það er núna brýtur á stjórnarskrárbundnum rétti sjóðfélaga. Fari það í gegn eins og það er verður höfðað mál.

Sama hvað okkur kann að finnast um afstöðu samningsaðila þá er hún staðreynd sem ekki verður horft fram hjá. Samkomulag um þessi mál, grundvallarbreytingar um þessi mál, er ekki hægt að vinna nema með trausti og í sátt og samkomulagi allra aðila, því að annars erum við sem löggjafinn einfaldlega að breyta réttindum fólks með valdboði að ofan.

Þar komum við að því sem er ein af þeim spurningum sem við þurfum að svara af því að henni hefur verið velt upp og hún er engin smáspurning. Því hefur verið velt upp í umsögn Gylfa Magnússonar, eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á, hvort frumvarpið geti einfaldlega verið brot á stjórnarskrá, eins og kemur einnig fram í því sem ég vitnaði til í orðsendingu frá formanni Kennarasambands Íslands. Er ábyrgð okkar þingmanna ekki töluverð ef við ætlum að samþykkja frumvarp sem mögulega er brot á stjórnarskrá? Ég tek þá ábyrgð alvarlega og eiðstafinn sem ég skrifaði undir að stjórnarskránni. Það eru meira að segja áhöld um hvort lífeyrisréttindi séu hluti af launakjörum starfsmanna. Ef svo er, af hverju erum við þá að véla um það? Af hverju samþykkjum við eitthvað sem hefur áhrif þar á? Er það ekki nokkuð sem fólk á að semja um sín á milli í kjarasamningum? Höfum við ekki kveinkað okkur undan því hér að þurfa mögulega að taka afstöðu til okkar eigin launa? Ætlum við að setja lög sem hafa bein áhrif á launakjör annarra hópa en okkar eigin? Eða erum við kannski í þessum lífeyrissjóðum? Já, svei mér þá, ég held að við séum það. Erum við ekki að samþykkja lagafrumvarp um okkar eigin réttindi?

Ég skil þetta ekki. Ég ætla bara að játa það að ég skil þetta ekki. Ég skil ekki hvernig hægt er að hleypa máli upp sem byrjar í jafn mikilli sátt og á jafn góðan hátt og raun var. Það er meira segja tekist á um skilgreininguna á orðinu „sjóðfélagar“. Það eru slíkar grundvallarspurningar uppi. Í umsögn frá BHM um þetta mál er kallað eftir ákveðinni skilgreiningu á hugtakinu „sjóðfélagi“, með leyfi forseta:

„Sjóðfélagar eru greiðendur, lífeyrisþegar og þeir sem eiga geymd réttindi í A-deildunum.“

Það er ekki einu sinni sátt um hugtökin sem við notum í frumvarpinu sem við ætlum að afgreiða. Þá höfum við ekki staðið vel að málum.

Fyrst við tölum um BHM þá sendi það okkur þingmönnum líka yfirlýsingu í dag um að athugasemdir þeirra hefðu algjörlega verið hunsaðar. Tekið var undir það á formannafundi BSRB. Það er alveg sama hvað okkur finnst um afstöðuna. Afstaða þessara félaga er sú að á þau hafi ekki verið hlustað, að lagafrumvarpið sé ekki samkomulagið sem fulltrúar þeirra skrifuðu undir.

Ég get ekki stutt þetta mál í núverandi mynd. Ég mun greiða atkvæði gegn málinu í núverandi mynd. Ég get ekki setið hjá við að afgreiða lagafrumvarp sem er samkvæmt hluta aðila ekki í samræmi við samkomulag sem skrifað var undir. Ég get ekki setið hjá við afgreiðslu laga sem taka á lífeyrisréttindum sem óvissa er um hvort séu í raun hluti af launakjörum. Og ég get ekki setið hjá við afgreiðslu laga sem áhöld eru um hvort feli jafnvel í sér stjórnarskrárbrot, og þau afnemi afturvirkt ábyrgð á lífeyrisréttindum.

Þrátt fyrir að tímapressa sé á okkur eru ágallarnir slíkir á málinu eins og það lítur út í dag að ég mun greiða atkvæði gegn því. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér talaði um svartan dag á Alþingi í dag. Ég ætla að leyfa mér að lýsa því yfir að ég er sorgmæddur yfir því að þetta sögulega tækifæri hafi verið látið fara forgörðum. En þetta byggist fyrst og fremst á trausti. Traustið varð að engu gert eða í það minnsta laskað mjög alvarlega um leið og hæstv. fjármálaráðherra lagði fram fyrra frumvarp sitt.

Ég vona að fleiri hv. alþingismenn muni sjá alvarleika þessa máls og greiða atkvæði gegn því í núverandi mynd, enda eigum við öll að greiða atkvæði eingöngu eftir okkar eigin sannfæringu.