146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[18:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. 2. þm. Suðvest., Bryndísi Haraldsdóttur, kærlega fyrir andsvarið. Liggur við að ég biðji ykkur um að sameinast í örlítilli þögn. Þetta er fyrsta andsvarið sem ég svara í þessari pontu. Ég er mjög upp með mér.

Ég vil nú samt byrja á því að leiðrétta hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur. Ég sagði ekki að ég skildi ekki málið, ekki að ég ætli að þykjast einhver sérfræðingur í þessu en þá tel ég mig skilja að nokkuð miklu leyti út á hvað málið gengur, ég hef fylgst mjög vel með þessum lífeyrismálum lengi, bæði hér og í mínum fyrri störfum. Ég skil ekki þá stöðu sem málið er komið í og ábyrgð á henni vísa ég eingöngu á hendur hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni.

Ég hef töluvert sjálfsálit. Ég ætla mér samt ekki að ég ráði við að útskýra hvað ég tel að þurfi að breytast í frumvarpinu til að það verði í samræmi við væntingar þeirra sem undir samkomulagið skrifuðu á þeim 42 sekúndum sem eftir eru af andsvari mínu núna. Ég hefði haldið að það væri verkefni hv. þingmanna í efnahags- og viðskiptanefnd að hlusta á þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá þeim sem undir samkomulagið skrifuðu og taka þau með í reikninginn þegar frumvarpið er úr garði gert. Fyrir mér snýst þetta um það að þú skrifar ekki undir samkomulag um eitt og ferð svo og gerir eitthvað annað í lagafrumvarpi. Það þarf að samræma.