146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[18:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er kannski þarna sem ég tek heils hugar undir það. Það er auðvitað mjög bagalegt að aðilum beri ekki saman um hvort frumvarpið taki á þeim samningsmarkmiðum og því sem skrifað var undir í samkomulaginu. En þá finnst mér líka mikilvægt að minna á, því að það kom alloft fram í ræðu hv. þingmanns að fjármálaráðherra bæri ábyrgð á frumvarpinu, sem hann jú gerir, hann flutti það og er nú komið til þinglegrar meðferðar. Hér erum við með nefndarálit frá meiri hluta nefndarinnar þar sem undir það taka fulltrúar Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar. Ég skildi líka fulltrúa Samfylkingarinnar, hv. þm. Loga Einarsson, þannig þegar hann talaði fyrir minnihlutaáliti sínu að hann styddi frumvarpið en þó með ákveðnum breytingartillögum. Ég skildi hann ekki betur en svo í ræðustóli áðan en að hann teldi að frumvarpið tæki á samningsatriðum og væri í öllum meginatriðum í samræmi við samkomulagið. Eftir stendur þá minnihlutaálit frá fulltrúum Vinstri grænna sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir skrifar undir þar sem einmitt er hnykkt á því hversu mikilvægt þetta mál er. Þar er breytingartillaga sem gengur kannski ekki endilega beint út á breytingar á frumvarpinu per se eða innihaldi þess. Eftir stendur svo nefndarálit frá fulltrúum Pírata sem gengur þvert á þetta og segir að þau leggi til að frumvarpið verði ekki samþykkt.

Mér þykir því þrátt fyrir að ég hefði gjarnan viljað hafa einsleit álit frá nefndinni fyrir okkur þingmenn sem ekki sitja í nefndinni, að það ríki nú svona tiltölulega mikil sátt á þingi um þetta mikilvæga mál.