146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[18:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það kemur þá í ljós við afgreiðslu málsins endanlega hvernig sáttin verður. Ég ætla ekki að draga mat hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur á henni í efa. Ég vitna bara í sjálfan mig í ræðu minni að það er okkar þingmanna hvers og eins að greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu. Ég hef farið yfir mína sannfæringu í málinu. Ég hef lýst því yfir að ég muni greiða atkvæði gegn frumvarpinu í núverandi mynd. Ég get í raun ekki svarað fyrir aðra þingmenn en mig sjálfan.

Það hefði farið betur á því að við afgreiðslu Alþingis á þessu máli, síðasta þings, hefði tillaga hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um að stofna milliþinganefnd um málið, það hefði farið betur á því að sú tillaga hefði verið samþykkt. Þá hefði verið hægt að vinna innan þeirrar nefndar að öllum þessum álitamálum sem margir hv. þingmenn hafa komið inn á, bæði í ræðum sínum en einnig í þeim minnihlutaálitum sem hv. þingmaður kom inn á áðan. Það var því miður ekki samþykkt af þáverandi stjórnarmeirihluta, heldur tók hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson það að sér að fara heim í ráðuneyti og smíða nýtt frumvarp og væntanlega án þess að ég viti það, í það minnsta hefur hugmyndin verið sú að leggja fram frumvarp sem stuðlaði að sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Eða hvað? Er það ekki það sem við viljum? Því miður tókst það ekki.