146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Þegar ég hóf göngu mína á Alþingi var eitt af þeim markmiðum sem ég setti mér að reyna að auka traust almennings til þessarar stofnunar. Ég hef ekki alveg náð að skilja hvernig meðferð þessa máls á að ná því markmiði. Ég verð að viðurkenna að sá hraði sem hefur verið á þessu og sá flumbrugangur, svo ég taki til orða eins og hv. þm. Einar Brynjólfsson, er ekki til þess fallinn að bæta virðingu Alþingis.

Þarna komum við að undirliggjandi vanda þessa máls. Enn einu sinni er gengið mjög óvarlega að trausti almennings á stjórnkerfi Íslands. BSRB skrifaði ágætisbréf til okkar þingmanna þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„BSRB hefur margítrekað bent á að fyrirliggjandi frumvarp felur í sér að bakábyrgðin sé afnumin af réttindum sjóðfélaga undir 60 ára aldri án bóta. Það er þvert á markmið samkomulagsins um að réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deild LSR og Brúar séu jafn verðmæt fyrir og eftir kerfisbreytingar.

Traust milli aðila er lykilforsenda þess að friður ríki á vinnumarkaði. Fari frumvarpið óbreytt í gegn er ljóst að verkefninu er ólokið og mun ótvírætt hafa neikvæð áhrif á samskipti þeirra sem að samkomulaginu stóðu.“

Þetta er stríðsyfirlýsing af þeim toga sem rætt hefur verið um að sé verið að reyna að komast hjá með því að drífa þetta frumvarp í gegn með þessum rosalega hraða. Nú liggur fyrir að ef við klárum þetta mál núna verður ákveðin upplausn á vinnumarkaði og ef við klárum ekki þetta mál núna verður sömuleiðis stríð af sama toga.

Þá spyr ég: Ef stríðið er óumflýjanlegt, hvað ætlum við þá að borga mikið fyrir það áður en það hefst? Ætlum við að eyða 105–106 milljörðum kr. sem er sirka sú upphæð sem ríkið plús sveitarfélög þurfa að leggja til í það að reyna að sætta einhverja aðila sem ætla síðan ekki að vera sáttir? Ég held að þetta sé firra.

Frú forseti. Þá spyr ég: Hvað eigum við að gera? Hvað eigum við að gera til að reyna að komast að einhverju samkomulagi á vinnumarkaði? Ég held að það sé hægt að byrja á eðlilegum skrefum. Til dæmis gætum við samþykkt að fara í heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins eins og ég rakti áður, bæði í ræðu minni fyrr í þessari umræðu og við 1. umr. frumvarpsins, með það fyrir augum að laga lífeyriskerfið til framtíðar, byggja það upp að nýju þannig að það standist tímans tönn og að fundin verði leið til að jafna lífeyrisréttindi í sátt við það samkomulag sem hefur verið gert en til viðbótar að reyna að ná nýju samkomulagi um að það megi dreifa greiðslum yfir tiltekið tímabil, t.d. 10–14 ár eins og ég nefndi áðan, nema að vísu með þeirri varúðarreglu að það megi endursemja um tilhögun þessarar miklu tilfærslu þegar búið er að gera þær góðu breytingar á lífeyrissjóðakerfinu sem eru nauðsynlegar til að það hrynji ekki að lokum, þó að það hrynji kannski ekki í dag.

Þetta væri miklu skynsamlegri leið til að nálgast þetta mál. Þetta væri leið sem myndi ekki storka vinnumarkaði jafn mikið, kannski ekki neitt, og þetta er leið sem væri hægt að ná einhverri sátt um úti í samfélaginu og sýna fólkinu í landinu að Alþingi ætli raunverulega að ávinna sér það traust sem það hefur misst síðustu árin.

Það er ljóst að í þessu frumvarpi er afar mörgum mikilvægum spurningum algjörlega ósvarað. Það er til skammar fyrir þingið að ætla að afgreiða mál af þessari stærðargráðu með viðlíka varúðarskorti, skulum við segja, og raun ber vitni. Við eigum ekki að starfa á þennan hátt. Við eigum að gera miklu betur en ljóst er að við erum að gera.

Fólk talar um að það liggi svo mikið á að komast í jólafrí en ég hef bara enga samúð með þeirri hugmynd, frú forseti. Ég segi fyrir mig: Ég er kominn á Alþingi til að vinna, ekki til að fara í frí.