146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þær breytingar sem hér eru lagðar til á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er mikil andstaða innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ekki síst vegna þess að málið virðist mæta mikilli andstöðu hjá þeim sem verða fyrir áhrifum af því. Hugsunin á bak við það var allan tímann að ná almennri sátt um þær breytingar að jafna lífeyrisréttindi í landinu. Eins og fram kom í ræðu minni um málið í gær er afar óheppilegt að aðilar hafi túlkað það samkomulag sem gert var með svo ólíkum hætti og ákaflega slæmt að við séum að vinna að því í jafn miklu tímahraki og raun ber vitni þannig að því mætir gríðarleg andstaða úti í samfélaginu.

Ég mælist til þess að sú tillaga sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú fengið senda í dag verði tekin til skoðunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. Það er tillaga sem kemur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja um mögulega sátt í málinu. Ég legg til að málið fari til nefndar milli umræðna. Með þeim rökum mun ég sjálf sitja hjá við afgreiðslu málsins á þessu stigi, en eins og ég segi er veruleg andstaða við málin innan Vinstri grænna.