146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki að þetta mál sé komið í það óefni sem það er. Það fór vel af stað í haust þegar samningsaðilar sýndu hvor öðrum mikið traust. Því miður brást hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson því trausti og lagði fram frumvarp sem var ekki í samræmi við samkomulagið sem skrifað var undir. Það er tómt mál um að tala að einhver sátt ríki um þetta mál, verði frumvarpið samþykkt er einfaldlega verið með valdboði að breyta lífeyrissjóðakerfi í andstöðu þeirra sem við það búa.

Áhöld eru um hvort frumvarpið standist stjórnarskrána, áhöld eru um hvort lífeyrisréttindi séu hluti af launakjörum eða ekki, en það eru engin áhöld um að þetta er ekki í neinni sátt.

Ég mun greiða atkvæði gegn frumvarpinu og lýsi vonbrigðum yfir því að við skulum ekki hafa getað unnið jafn mikilvægt mál í meiri samstöðu og með því að hlusta meira hvert á annað.