146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég má til með að taka undir þau varnaðarorð sem hér hafa komið fram um þessa atkvæðagreiðslu. Málið er á þann veg að það er flókið og mun hafa miklar breytingar í för með sér. Vafamál er um hvort þetta brjóti á eignarréttinum, hinum stjórnarskrárbundna sem ég hefði haldið að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki mikið fyrir að taka þátt í, að taka slíka áhættu miðað við málflutning hans áður fyrr. En málið er líka þannig að ógagnsæi er mikið, það er lítil umræða í samfélaginu og þeir sem eiga þessi réttindi eru ekki meðvitaðir um það sem er verið að gera í þingsal. Því skora ég á þingheim að fara almennilega yfir málið, ræða það í þaula og hafa þetta ferli mun opnara og gagnsærra.