146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er búið að vinna að þessu máli í mjög langan tíma. Markmiðið er að skapa annars vegar samræmt og sjálfbært lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn, verkefni sem ég held að hér inni séu allir sammála um. Til að það geti gengið eftir eru breytingar tryggðar til þess að ekki verði um að ræða skerðingu á réttindaávinnslu núverandi sjóðfélaga. Reyndar er gengið svo langt að þeir sem eru 60 ára og eldri munu líka njóta þeirrar tryggingar.

Staðan er einfaldlega sú að við getum greitt yfir 100 milljarða til að klára þetta mál núna, þ.e. 108 milljarða. Valkostirnir sem við stöndum frammi fyrir eru þeir að gera ekkert og að hækka iðgjöld bæði hjá ríki og sveitarfélögum um 4–5%, um verulegar fjárhæðir, og senda reikninginn inn í framtíðina, á komandi kynslóðir. Það er valkosturinn sem við stöndum frammi fyrir núna. Við erum einfaldlega í óvanalega góðri stöðu til að höggva á þann hnút sem margir hafa verið að kljást við í (Forseti hringir.) mjög langan tíma.