146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þessi breyting lýtur að þeim sem eiga geymd réttindi. Það er ástæða til að tryggja öllum sjóðfélögum lífeyrisauka en ekki bara þeim einum sem greitt hafa til sjóðsins síðustu 12 mánuði. Þarna á ég við þá einstaklinga sem greitt hafa til sjóðsins, jafnvel í mjög langan tíma, en hafa ákveðið að færa sig yfir á almenna markaðinn en fá ekki lífeyrisaukann ákveði þeir að snúa aftur inn í opinbera kerfið.

Þetta er fyrst og fremst sanngirnismál, að þeir séu jafnsettir þeim sem starfa innan opinbera kerfisins í dag. Breytingin miðar að því að þessi hópur geti fært sig aftur yfir á opinbera markaðinn og njóti þess þá að hafa lagt þar af mörkum áður. Með þessu er líka verið að mæta markmiðum samkomulagsins um meiri hreyfanleika milli hins opinbera og almenna vinnumarkaðarins en verður ef breytingartillagan verður ekki samþykkt.