146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan fór kannski ekki alveg rétt með þegar hann sagði að allir nefndarmenn skrifuðu undir það álit sem hann mælti fyrir því að sú sem hér stendur er ekki á meðal þeirra og mun núna mæla fyrir nefndaráliti 1. minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Það er ekki skrýtið að hér séu hv. þingmenn á öndverðum meiði í ljósi þess að umræða um skattamál er auðvitað hápólitísk og hefur einmitt sett svip sinn á pólitíska umræðu að undanförnu hvernig við viljum afla tekna til að standa undir samfélagslegum verkefnum.

Það hefur staðið yfir mikil umræða í fjárlaganefnd um það hvaða útgjöld hv. þingmenn eru sammála um að nauðsynlegt sé að ráðast í í ljósi aðstæðna þar sem ekki er pólitískur meiri hluti fyrir hendi á Alþingi. Það er mikilvægt ef tekst að ná ákveðinni sátt um þau útgjöld en það liggur líka fyrir að erfitt hefur reynst að ná sátt um það hvernig við öflum tekna til þess að byggja upp samfélagið og hvernig við viljum búa að almennum borgurum.

Stundum er gefið í skyn að umræða um skattamál sé fyrst og fremst tæknilegs eðlis en svo er ekki. Þetta er auðvitað grundvallarpólitískt mál því að skattar eru ekki aðeins nauðsynlegt tæki til þess að afla tekna til að standa undir samfélagslegum verkefnum heldur líka mikilvægt jöfnunartæki.

Að mati margra fræðimanna er skattkerfið langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð í samfélaginu. Vitna ég þar m.a. til franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem er líklega mest seldi hagfræðingur samtímans, sem skrifaði merka bók sem heitir einfaldlega Auðmagnið. Þar bendir hann á að þrátt fyrir að velferðarkerfið sé að sjálfsögðu mikilvæg stoð jöfnuðar í samfélaginu er það samt svo að skattkerfið er mun áhrifaríkara tæki ef við viljum tryggja jöfnuð. Máli sínu til stuðnings bendir hann á hvernig ójöfnuður eða jöfnuður, hvort sem við köllum það, hefur þróast í vestrænum samfélögum, hvaða áhrif skattbreytingar hafa haft á þá þróun og sérstaklega hvernig samþjöppun fjármagns hefur aukið ójöfnuð, miklu meiri ójöfnuð en við sjáum almennt í tekjudreifingu í samfélaginu. Þegar við ræðum það hér á landi, stjórnmálamenn úr öllum flokkum, sem öll erum mjög dugleg að hreykja okkur af því að hér ríki mjög mikill jöfnuður miðað við önnur ríki, þá erum við yfirleitt að tala um jöfnuð í tekjum. En þegar litið er til jöfnuðar í eignum kemur einmitt fram að það er þar sem ójöfnuðurinn hefur aukist, ekki aðeins á Íslandi þar sem ríkustu 10% eiga 3/4 eignanna heldur ekki síst annars staðar á Vesturlöndum. Þegar við skoðum ríkasta 1% sem hefur mikið verið til umræðu, alla vega annars staðar í hinum vestræna heimi, þá er fyrst og fremst verið að tala um ójöfnuð í eignum.

Piketty bendir á jöfnuðinn sem mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Skoðum þær rannsóknir sem nú er unnið að innan hagfræðinnar. Ég nefni t.d. skýrslu OECD, sem seint verður talin til róttækra stofnana, frá desember 2014. Þar er vitnað til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti og tekjuójöfnuður hefur haft mælanleg áhrif til að draga úr slíkum vexti. Við getum séð að jöfnuður er ekki aðeins réttlætismarkmið, hann er líka mikilvægt efnahagslegt markmið. Það sama hefur verið til umræðu hjá hagfræðingum í Cambridge háskóla sem hafa bent á að breska hagkerfið hafi vaxið hlutfallslega minna en það hefði gert vegna hagstjórnarstefnu nýfrjálshyggjunnar.

Jöfnuður er því ekki einungis pólitískt markmið, hann er líka efnahagslegt markmið. Um það eigum við ekkert að vera feimin við að tala. Það er mikilvægt að við fylgjumst vel með þeirri þróun á Íslandi þó að ég, eins og aðrir hv. þingmenn, geti viðurkennt að hér sé jöfnuður meiri en víðast hvar annars staðar og ekki síst þegar kemur að almennri tekjudreifingu. Við eigum að vera ánægð með það.

Ég vitna í efnahagsyfirlit VR frá því í október á þessu ári sem sýnir að kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 3,8% á milli áranna 2014 og 2015. Það voru eingöngu tekjuhæstu 20% sem fengu meiri hækkun. Þetta er vísbending sem við eigum að hlusta eftir og taka mark á því að hún gæti bent til þess að tekjuójöfnuður sé að aukast í samfélaginu. ASÍ hefur bent á að ríkustu 20% fái nærri helming allra ráðstöfunartekna og sýnt hefur verið fram á að með skattbreytingum á nýliðnu kjörtímabili jókst skattbyrði allra hópa nema tekjuhæstu 20%, en skattbyrði þeirra minnkaði meira en svo að hægt sé að útskýra það með launahækkunum. Það eru vísbendingar um að tekjujöfnuður sé að minnka eftir að hafa aukist mjög á árunum eftir hrun.

Eins og við munum öll jókst ójöfnuður í þjóðfélaginu fyrir hrun en minnkaði talsvert í hruninu, bæði vegna þess að mikill auður tapaðist en einnig vegna þess að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar beindust að því að vernda þá sem lægstar höfðu tekjurnar.

Ég vitnaði áðan til eignastöðunnar. Hún er kannski stærsta málið þegar kemur að ójöfnuði hér á landi sem og á Vesturlöndum. Einmitt þess vegna hefur verið bent á mikilvægi auðlegðarskatts og þrepaskipts fjármagnstekjuskatts en hvort tveggja er lagt til í breytingartillögum, allítarlegum viðurkenni ég, með nefndarálit þessu.

Slíkar aðgerðir miða að því réttlætis- og hagstjórnarmarkmiði að auka jöfnuð en eru líka mikilvæg tekjuöflun til að styrkja innviði samfélagsins sem hafa verið vanræktir um langt skeið. Þar geta víst flestir í þessum sal verið sammála. Hvarvetna blasa við áskoranir, hvort sem litið er til heilbrigðiskerfis, menntakerfis eða samgangna um land allt. Og enn er mikið verk óunnið í að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Til að þessi uppbygging geti farið fram með efnahagslega ábyrgum hætti er mikilvægt að styrkja tekjustofna ríkisins til frambúðar. Réttlátasta leiðin til þess er að skattleggja fjármagnið þar sem það er að finna. Slík skattlagning dregur enn fremur úr peningamagni í umferð, sem ýmsir hv. þingmenn hafa lýst yfir áhyggjum yfir í dag í tengslum við annað mál sem var til umræðu fyrr í dag, og getur þar með nýst til að slá á þenslu sem er orðið verulegt áhyggjuefni. Við blasir að þegar ný ríkisstjórn verður mynduð hlýtur hennar fyrsta verkefni að vera að setja saman aðgerðaáætlun um það hvernig eigi að draga úr þenslu til þess að koma í veg fyrir kollsteypu í efnahagslífinu. Skattalækkanir fyrrverandi ríkisstjórnar, eða starfsstjórnarinnar sem nú situr, hafa hins vegar verið sem olía á eld og hvatt til þenslu, þvert á ráðleggingar Seðlabankans sem hefur ítrekað bent á að ríkisfjármálastefnan þurfi að styðja við peningamálastefnu. Skattalækkanir hafa þar verið nefndar sérstaklega sem aðgerð sem þjónar öfugum tilgangi, þ.e. eykur þenslu fremur en hitt.

Hér eru líka lagðar til nokkrar aðrar tillögur sem eru ekki endilega af þessum meiði en þó má segja að lýðheilsuskattur sem er lagður til snúist líka um að auka jöfnuð. Við sjáum líka ákveðinn ójöfnuð þegar kemur að heilsufari. Hér er lögð til afar hógvær leið sem er að skattleggja sérstaklega gosdrykki, sykraða gosdrykki og gosdrykki með viðbættum sætuefnum. Á heimasíðu landlæknisembættisins kemur fram að samkvæmt nýlegri rannsókn á mataræði 6 ára barna fá börn að meðaltali 11% orkunnar úr viðbættum sykri. Það þarf víst ekki að segja ykkur hv. þingmönnum það sem hér eruð staddir að þetta er talsvert yfir almennum ráðleggingum. Þetta hlutfall er 13% hjá 9 ára börnum og 16% hjá 15 ára börnum. Tæplega 60% 6 ára barna borða of mikinn sykur. Yfir helmingur af viðbætta sykrinum kemur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum, sælgæti og ís hjá 9 ára börnum og tæplega 70% hjá 15 ára börnum. Á heimasíðu landlæknisembættisins kemur einnig fram að í grein sem birtist árið 2011 í The Lancet, einu þekktasta tímariti heims um heilbrigðismál og lýðheilsu, var lagt mat á hvaða aðgerðir stjórnvalda í Ástralíu skiluðu mestum ávinningi og árangri í því að sporna gegn offitu þar í landi. Niðurstaða greiningarinnar var sú að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru væri áhrifaríkasta leiðin til að bæta heilsu og draga úr útgjöldum vegna hennar. Af þessum sökum leggur 1. minni hluti til að settur verði sérstakur skattur á sykraða gosdrykki, þ.e. að þeir verði færðir upp í efra virðisaukaskattsþrep. Íslendingar drekka að meðaltali 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári og eigum við þar einhvers konar Norðurlandamet og örugglega Evrópumet og kannski heimsmet, og borða að meðaltali 45–48 kg af sykri á ári. Ef þessar rannsóknir eru skoðaðar nánar þá sést að neyslan eykst eftir því sem neðar færist í aldursstiganum. Hér er lögð til sú breyting að vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki verði færðir í hærra virðisaukaskattsþrep en lýðheilsumarkmiðið með þeirri breytingu er ótvírætt, þetta er þróun sem við sjáum mjög víða annars staðar í heiminum, enda er ekki aðeins um lýðheilsumarkmið að ræða sem eykur lífsgæði fólks því að þetta dregur svo sannarlega úr neyslu á sykri. Þetta er ekki einungis tekjuöflunaraðgerð sem getur nýst til að styrkja þá mikilvægu innviði sem við erum öll sammála um að styrkja, þetta er líka aðgerð sem snýst um að — nú er algerlega stolið úr mér hvað ég ætlaði að segja en það var eitthvað afar mikilvægt. Nú þarf ég að horfa og muna hvað þetta var. Það kemur kannski á eftir. En það voru þrenns konar markmið sem ég var búin að hugsa upp. Það var lýðheilsumarkmið, tekjuöflunarmarkmið ... Jæja, þetta kemur.

Umhverfis- og auðlindaskattar eru næst á dagskrá. Ég vil þá nefna næst að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mjög miklum áskorunum sem felast í loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi og samfélag. Við ræddum aðeins kolefnisgjald á dögunum þegar mælt var fyrir þessu frumvarpi. Ég myndi segja að það væri forgangsverkefni að setja hagstjórnina í samhengi við breyttar aðstæður í heiminum, það þarf að endurskoða hagræna mælikvarða og koma á loftslagsbókhaldi í ríkisrekstrinum. Það þýðir ekki að við séum stöðugt að samþykkja einhverjar áætlanir út og suður. Við getum nefnt orkuskiptaáætlun sem var samþykkt á síðasta þingi. Hennar sér hvergi stað í neinu öðru í ríkisrekstrinum. Hún er bara eitthvert plagg úti í bæ, nánast ótengt öllu öðru og á meðan stendur yfir endalaus endurskoðun t.d. á skattkerfinu til þess að auka græna skatta. En það virðist eiga að taka nokkur ár. Við höfum ekki þann tíma. Ég benti á um daginn og ítreka að kolefnisgjald er áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa, m.a. hefur Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, bent á þetta og telur að kolefnisgjald sé mun skilvirkari aðferð til þess að draga úr þessari notkun heldur en markaður með losunarheimildir eins og hefur tíðkast innan ESB. OECD, aftur sú róttæka stofnun, hefur bent á að kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar séu almennt lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. OECD hefur enn fremur bent á að gjald sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings sé um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar en í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar kemur fram að kolefnisgjald á 90% losunar þjóða sé undir lágmarksviðmiði og að ekkert gjald sé lagt á full 60% losunarinnar. Með því að hækka gjöldin og láta þau ná til fleiri eldsneytistegunda, eins og steinolíu og kola, væri hægt að draga markvisst úr losun á gróðurhúsalofttegundum og öðrum mengunarvöldum. 1. minni hluti telur rétt að afnema undanþágur frá kolefnisgjaldi. Ég vitna til að mynda í kox og kol sem m.a. má finna í rafskautum sem nýtt eru í stóriðju hér á landi, sem hafa verið undanþegin þessu gjaldi. Ég legg það ekki til í breytingartillögunni hér því ég tel að það þurfi meiri tíma. Eins og kunnugt er var þessu áliti og breytingartillögu með því dreift fyrir örfáum mínútum því að lítill tími hefur verið til að fara djúpt í þessi málefni. Ég legg hins vegar til hækkun á gjaldinu fyrir næsta ár, að það verði ekki 5% heldur 10%. Ég vona svo sannarlega að stuðningur fáist við þessa eðlilegu hækkun sem er ekki bara, og nú ætla ég að fara aftur yfir markmið og vona að ég muni þau núna, til að afla tekna heldur líka til að stuðla að mikilvægum umhverfissjónarmiðum þegar kemur að loftslagsmálum. Þetta er eitthvað sem allir hv. þingmenn hljóta að geta verið sammála um.

Allir hér, ekki allir hér en flestir flokkar fyrir kosningar, töluðu talsvert um gjaldtöku á ferðaþjónustuna. Ég vænti þess að hv. þingmenn fleiri en ég hafi setið óteljandi fundi um gjaldtöku á ferðaþjónustu. Það gerði ég a.m.k. fyrir kosningar og langt aftur í tímann. Þegar frumvarp um náttúrupassa steytti hér á skeri fyrir einhverjum árum voru menn sammála um það á þingi, hv. þingmenn, að nú þyrfti að finna einhverja leið til að koma á skilvirkri gjaldtöku á ferðaþjónustu og best væri að fara blandaða leið, svo ég vitni í ræður sem þá voru fluttar. Rætt var um gistináttagjald og komugjöld. Í þessu fjárlagafrumvarpi er lögð til þreföldun á gistináttagjaldi. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þá breytingu en legg til komugjöld á ferðamenn. Ég vil taka fram að ferðaþjónusta er orðinn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, eins og allir vita, og hefur átt ríkan þátt í efnahagsbata samfélagsins. Hún skilar þegar miklum verðmætum til okkar, sem við eigum að gleðjast yfir. Hins vegar held ég að það sé algerlega morgunljóst að það skortir fjármuni til uppbyggingar, ekki bara í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða heldur skortir fé til uppbyggingar annarra innviða. Ég nefni samgöngur sem dæmi. Ég nefni líka rekstur í kringum friðuð svæði, til að mynda landvörslu sem er í algerum molum hér á landi. Það vantar stóraukna fjármuni til heilsárslandvörslu á friðlýstum svæðum þannig að við getum tryggt almennilega umgengni um þessi svæði, að staðið sé almennilega að þeim svæðum þannig að við göngum ekki á þá auðlind sem náttúra Íslands er tvímælalaust. Það er sú auðlind sem dregur ferðamennina hingað til lands. Rúm 80% koma hingað út af þeirri auðlind, sem við þurfum að styrkja. Þótt jákvætt sé að hækka gistináttagjaldið myndi ég telja það ónógan tekjustofn. Við leggjum því til komugjöld á hvern farseðil, 1.000 kr. frá og með 1. september. Það verður mjög áhugavert að sjá afstöðu hv. þingmanna til þessa tekjustofns sem ég veit að margir hverjir hafa lýst yfir stuðningi við í umræðum á undanförnum mánuðum.

Að lokum vil ég benda á að í allmörgum þeirra umsagna sem bárust nefndinni vegna þessa frumvarps sem er til umfjöllunar, m.a. frá Alþýðusambandi Íslands en líka frá Öryrkjabandalagi Íslands og fleiri aðilum, er bent á að tekju- og eignaviðmið þau sem barna- og vaxtabætur skerðast eftir hafi ekki hækkað til samræmis við vísitölur og verðlagsþróun undanfarin ár. 1. minni hluti leggur til úrbætur í þessa veru þannig að þær fjárhæðir hækki um 35% frá því sem nú er í stað þeirrar 12,5% hækkunar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég mun leggja til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem má finna í meðfylgjandi þingskjali. Eins og hv. þingmenn sjá er þar gerð grein fyrir öllum þessum breytingartillögum. Gerð er breytingartillaga um tekju- og eignaviðmið fyrir barna- og vaxtabætur í fyrstu liðunum. Síðan er lagt til ákvæði til bráðabirgða um nýja gerð auðlegðarskatts þar sem undanskilið er húsnæði til eigin nota, eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu sérstaklega til fyrir þessar kosningar. Enn fremur er lögð til skattlagning á gosdrykki með viðbættum sykri og sætuefnum. Það kemur í 4. lið í breytingartillögunum og þar eru talin upp þau númer sem þeir drykkir heyra undir þannig að þarna heyrir ekki undir t.d., eftir því sem ég hef verið fullvissuð um af fjármálaráðuneyti, ósætt sódavatn. Síðan kemur undir ákvæði um gistináttaskatt og svo er lagt til að inn fari ákvæði um komugjöld og er farið nokkuð ítarlega yfir þau. Í 7. lið er farið yfir kolefnisgjaldið og í 8. lið er lagt til, og það gleymdi ég að nefna hér, það er gott að ég les þetta líka, sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti á tekjur yfir 2 millj. kr. á mánuði, það bætist við álag á það þrep. Enn fremur liggur inni tillaga frá hv. þm. Smára McCarthy, fulltrúa Pírata, sem ég mun styðja og miðar að því að fresta fækkun þrepa í þrepaskipta skattkerfinu. Að lokum er álag á fjármagnstekjuskatt, að 25% fjármagnstekjuskattur verði lagður á fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar sem eru umfram 2 millj. kr. á tekjuári.

Ég hef ekki í hyggju að hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég vil ítreka að hv. þingmenn fá hér tækifæri til að sýna afstöðu sína í verki, til gjaldtöku á ferðaþjónustu, til lýðheilsumarkmiða, en á þessu kjörtímabili hefur verið starfandi ráðherranefnd um lýðheilsumál. Ég mun taka sérstaklega eftir því hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra greiðir atkvæði um þetta mikilvæga lýðheilsutæki sem er lagt til. Hér er líka hægt að taka afstöðu til þess hvort við teljum að skattkerfið eigi í raun að nýtast til jafnaðar í samfélaginu, fyrir utan að gert ráð fyrir að þessar tillögur geti allar skilað umtalsverðum tekjum til að standa undir þeim útgjöldum sem hv. þingmenn hafa reytt hár sitt yfir á undanförnum dögum og vikum við að finna leiðir til að fjármagna heilbrigðiskerfið sem okkur þykir öllum svo vænt um, menntakerfið sem við vitum öll í hjarta okkar að er lykillinn að framtíð okkar í þessum heimi, kjör hinna lægst launuðu, aldraðra og eldri borgara, vegina okkar sem við erum öll sammála um og vitum allt um að eru vanræktir. Hér er ágætistækifæri, frú forseti, til þess að sýna hug sinn í verki til slíkrar tekjuöflunar.