146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[21:57]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Þótt ég hafi skrifað undir meirihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar geri ég það með fyrirvara því að það er ýmislegt sem mér hefði þótt ágætt að hefði verið bætt við það nefndarálit og tekið með í reikninginn ásamt því að það eru ýmis atriði sem var ekki sérstaklega rætt um í nefndinni en mér finnst full ástæða til að tekið sé tillit til hér. Því legg ég fram mínar eigin breytingartillögur.

Engu að síður finnst mér mjög gott hve vel vinnan í nefndinni gekk í þessu máli og sömuleiðis fagna ég báðum minnihlutaálitunum, frá Vinstri grænum og Samfylkingunni, þótt ég sé ekki sjálfur á þeim álitum. Það eru hreinlega ágætisbreytingartillögur í minnihlutaáliti hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Þó get ég sagt að þótt ég styðji margar aðgerðirnar þar þykir mér ástæða til að vísa í 4. kafla í bók eftir Peter Kropotkin, The Conquest of Bread, sem myndi sennilega útleggjast á íslensku sem Sigurinn yfir brauðstritinu, eitthvað í þá veruna, en þar er tekist svolítið á við eina af stóru spurningunum sem koma fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, um hvort skattar séu endilega heppilegasta leiðin til að stuðla að jöfnuði í samfélaginu og hvort kerfisbreytingar sem miða að því að auðsöfnun verði með jafnari hætti séu ekki eðlilegri leið til að skapa varanlegri jöfnuð. Sömuleiðis hafa Píratar ekki verið neitt sérlega hrifnir af t.d. sykurskatti sem leið til að stýra neyslu, enda erum við afskaplega trúuð á getu fólks til að taka upplýsta ákvörðun um svona mál séu góðar upplýsingar fyrir hendi. Þó er kannski ástæða til að benda á nauðsyn þess að farið verði í gott lýðheilsuátak varðandi sykurneyslu.

Breytingartillögurnar sem ég legg fram eru fyrst og fremst byggðar á ýmsum samtölum sem áttu sér stað í kringum tilraunir til stjórnarmyndunar á sínum tíma og voru helst hugmyndir sem ýmsir flokkar töldu að væru kannski ágætar. Ég tek þar ekki inn stærstu breytingarnar sem voru ræddar í hinum ýmsu hópum enda hafa margar þeirra verið teknar til umræðu í fjárlaganefnd. Svo er margt sem krefðist það víðtækra breytinga að það hefði bara ekki verið viðeigandi að bæta því við í þetta safnlagafrumvarp. Ég valdi engu að síður nokkur góð atriði sem hljóða upp á 1 milljarð hér og 1 milljarð þar, eins og sagt er. Ef þetta safnast allt saman verða til úr þessu raunverulegir peningar, eins og einhver orðaði það, en þessar tillögur ættu að geta orðið gott veganesti fyrir komandi ríkisstjórn, hver svo sem hún verður, sé henni umhugað um endurreisn heilbrigðiskerfisins eða að laga innviði landsins, samgöngur og annað, eða styrkja menntun eða hvað svo sem stjórnmálaflokkarnir á Alþingi kunna að hafa lofað fyrir síðustu kosningar.

Breytingartillögur nr. 1 og 4 lúta að frestun á niðurfellingu milliskattþreps og lækkun á almennum tekjuskatti um áramót. Með þeim er lagt til að bráðabirgðaákvæði við lög um tekjuskatt og lög um staðgreiðslu opinberra gjalda sem nú eru í gildi verði framlengt um eitt ár. Þetta er í rauninni bráðabirgðaákvæði sem má rekja til 5. og 8. gr. síðasta bandorms, þ.e. safnlagafrumvarps, sem var samþykktur í fyrra en þessi tillaga var mjög oft reifuð sem leið til að afla peninga til þess einmitt að styrkja heilbrigðiskerfið.

Ég vil árétta að Píratar eru alls ekki almennt hlynntir því að viðhalda háu skattstigi í landinu en engu að síður eru kannski þannig aðstæður í samfélaginu núna, afgangur af fjárlagafrumvarpinu það lítill, að það er ærin ástæða til að afla þeirra 3,8 milljarða kr. sem er búist við að aflist með þessum aðgerðum sem geta þá farið í að hefja enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins þó að þessi breyting gildi bara til eins árs.

Önnur breytingartillagan lýtur að svokölluðum „tax free“ endurgreiðslum. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. um virðisaukaskatt getur ráðherra kveðið svo á með reglugerð að endurgreiða megi virðisaukaskatt af vörum sem aðilar búsettir erlendis kaupa hérlendis og hafa með sér þegar þeir hverfa úr landi, enda séu uppfyllt skilyrði sem ráðherra telur nauðsynleg. Í fylgiskjali með reglugerðinni sem má finna á vef ráðuneytisins eru endurgreiðslufjárhæðirnar tilgreindar, en í dag er það þak til staðar að mest megi endurgreiða 15% af verði vörunnar. Það er töluvert hátt hlutfall. Er ég með þessari breytingartillögu að leggja til að það endurgreiðsluþak verði lækkað í 7%. Þessi hugmynd var líka rædd í sambandi við síðustu stjórnarmyndunarviðræðutilraun og var áætlað að hún gæti skilað 1 milljarði kr. á ári.

Þess ber að geta að þetta er í nokkru samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Mig minnir að endurgreiðsluþakið sé um 9% í Svíþjóð. Það gengur á ýmsa vegu en þetta er yfirleitt ekki jafn há prósenta og á Íslandi.

Þriðja breytingartillagan lýtur að virðisaukaskatti af bifreiðum og legg ég hér með til að sú undanþága sem er á virðisaukaskatti vegna rafbíla og umhverfisvænna bíla sé framlengd, ekki bara til eins árs eins og hefur verið lagt til í breytingartillögu nefndarinnar, heldur til ársins 2020. Þetta var rætt nokkuð í nefndinni, en ekki var samstaða um að fara í þessa aðgerð og kannski talað um að síðar mætti fara í heildstæðari aðgerðir. Mig langaði samt að varpa þessari hugmynd inn í umræðuna vegna þess að það er nokkuð um að innflytjendur þessara bíla leggi á hærra verð vegna þess að þeir eiga von á því að þessi heimild falli niður hvenær sem er. Hún var upprunalega lögð á til þriggja ára, ef mig misminnir ekki, og svo hefur hún verið framlengd um eitt ár í senn. Ég held að það sé bara ágætismál að framlengja hana til ársins 2020 eins og mörg nágrannalönd okkar hafa gert, m.a. Noregur, til að við sýnum ákveðinn styrk gagnvart þeim orkuskiptum sem margir hafa rætt um og stutt.

Fimmta breytingartillagan lýtur að framlagi til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs. Þar legg ég til að beðið verði með hækkun á framlögum í eitt ár í viðbót. Í fyrra var frestað hækkun með síðasta safnlagafrumvarpi þessarar tegundar. Í rauninni má segja að það sé í anda jólanna að kirkjan láti af sínu til að styðja styrkingu heilbrigðiskerfisins eða jafnvel að þetta gæti farið í útlendingamál, flóttamannamál og þess háttar. Ýmislegt mætti gera við þessa fjárhæð sem er ekkert rosalega há ef út í það væri farið. Það er kannski nokkuð sem þyrfti að ræða nánar.

Sjötta breytingartillagan lýtur að losunarheimildum. Í frumvarpinu er lagt til að gjald fyrir koltvísýringslosun lækki úr rétt rúmlega 1.000 kr. í 968, minnir mig, ég er ekki með tölurnar fyrir framan mig. Með þessu er verið að bregðast við þeim breytingum sem hafa orðið á Evrópumarkaði á kostnaði við þessar losunarheimildir. Er það að hluta til komið til vegna þeirrar hugmyndar að setja hámark og stunda svo viðskipti með heimildirnar. Þó lít ég svo á að hækkun upp í 1.100 kr. myndi skapa ágætishvata til að losa síður koltvísýring vegna þess að þá yrði mismunurinn á markaðsverðinu og þessari upphæð eftir hjá þeim sem hafa losunarheimildir þegar þeir selja þær áfram ef þeir gera það. Kannski getur þetta orðið til þess að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni.

Þetta eru afskaplega litlar og kannski svolítið fyndnar breytingar. Ég veit ekki hversu mikill stuðningur verður við þær, en mér finnst engu að síður fínt að þingið fái að taka þær til meðferðar.

Ég vil að lokum segja að meirihlutaálitið sem ég skrifa undir nær mörgum mjög ágætum breytingum sem náðist sátt um í nefndinni og ég þakka öðrum hv. þingmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir þá vinnu vegna þess að hún var mjög góð og kannski verður þetta með í pakkanum í næstu umferð.