146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[22:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Þetta hangir auðvitað allt saman á sömu spýtunni; fjárlögin, fjáraukinn og þetta frumvarp, ýmsar forsendur fjárlaga, ég ætla því að ræða þessi mál í því stóra samhengi. Mælt hefur verið fyrir nefndaráliti okkar Vinstri grænna, 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, þar sem koma fram tillögur okkar til breytinga á frumvarpinu.

Varðandi skatta almennt hefur raunin verið sú að á síðasta kjörtímabili hefur skattbyrði á þá tekjuminni og meðaltekjufólk verið að hækka en ekki á þá efnameiri. Þau 20% sem eru með mestar tekjur í landinu hafa ekki verið að fá á sig aukna skatta. Þessi stefna er auðvitað þvert á stefnu Vinstri grænna, sem er sú að skattleggja eftir efnum og aðstæðum, að þeir sem hafi hærri tekjur beri meiri skattbyrði en þeir sem eru tekjulægri og tekjulágt barnafólk og ungt fólk sem er að koma sér fyrir í lífinu, að horft sé til þeirra með lægri tekjuskatti og horft til þess að vaxtabætur og barnabætur fari upp og séu í takt við þá vísitölu og verðlagsuppbætur. Það kemur einmitt fram í frumvarpinu að því hefur ekki verið mætt varðandi barnabætur og vaxtabætur. Því leggjum við Vinstri græn til að þær bætur sem snúa fyrst og fremst að ungu fólki verði hækkaðar um 35% í stað 12,5%.

Það vilja allir að velferðarkerfið sé gott, samgöngur góðar og að menntakerfið sé það besta í heimi, en það hræðast flestir að tala um hvernig á að afla tekna til að standa undir þeim hlutum sem við teljum svo sjálfsagða í þjóðfélaginu þar sem við viljum að jöfnuður ríki. Og að aðgengi fólks að menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu sé gott og ekki sé spurt um hvar menn eru staddir í þjóðfélagsstiganum eða hvaða tekjur menn hafa, heldur að greiður aðgangur sé að heilbrigðisþjónustu og að aðgengi að menntun snúi ekki að forgangsröðun varðandi hverjir hafa efni og hverjir ekki.

Nýlega kom fram að stór hluti þjóðar okkar, allt of stór hluti, hefur dregið að leita sér tannlæknaþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Það er auðvitað ekki eðlilegt að hlutirnir séu þannig að fólk veigri sér að sækja þá sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu eins og að fara til tannlæknis og að sækja almennt þjónustu til heilbrigðiskerfisins, hvort sem það er í formi læknisþjónustu, sérfræðiþjónustu eða lyfja vegna þess að viðkomandi hefur ekki efni á að veita sér slíka þjónustu.

Við Vinstri græn höfum lagt mikla áherslu á það í umræðum undanfarnar vikur um myndun ríkisstjórnar að afla verði tekna til að mæta uppsafnaðri þörf í þjóðfélaginu, innviðauppbyggingu og í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Takmarkaður skilningur hefur verið á því. Allir hafa viljað ganga langt í þeim efnum en þegar kemur að því að fjármagna þá þætti hafa menn hrokkið af standinum og ekki treyst sér til að afla tekna til að standa undir því sem okkur þykir sjálfsagt á hátíðarstundum að sé með því besta í heimi hér á landi í okkar ríka samfélagi. En við Vinstri græn höfum ekki verið feimin við það að vilja forgangsraða og við viljum líka taka skatta, því að skattar eru auðvitað bara það sem keyrir samfélag okkar áfram, en það verði að vera réttlát skattlagning og hlífa verði þeim sem minna mega sín og að þeir beri meiri byrðar sem hafa bakið til þess í þeim efnum.

Nú er gerð mikil krafa um að við horfum til þess að ferðaþjónustan beri líka þá þörf á uppbyggingu í landinu sem fylgir þeim mikla ferðamannastraum sem kemur til landsins. Það er mjög slæmt að ekki hafi verið lögð á komugjöld á þessu kjörtímabili og mikill vandræðagangur hefur verið varðandi tekjuöflun og ekkert hefur komið út úr því að neinu gagni. Við erum ófeimin við að leggja til komugjöld. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þessi þingsalur tekur í þá breytingartillögu okkar og reynir þá á hvort menn telji að skattleggja eigi ferðamenn til landsins með þeim hætti, sem ég tel vera mjög einfalda og skilvirka leið og hefði átt að fara í fyrir löngu síðan. Okkur veitir ekki af fjármunum til innviðauppbyggingar vegna mikils álags í þjóðfélaginu vegna fjölgunar ferðamanna. Þarna er leið sem er mjög sjálfsögð og ferðageirinn sjálfur hefur tekið undir hana og fjöldi annarra í þjóðfélaginu sem þekkja vel til málaflokksins.

Í frumvarpinu er lögð til þreföldun á gistináttagjaldi, frá 100 kr. upp í 300 kr. Gistináttagjaldið í sjálfu sér er ekki mjög há fjárhæð í heildarsamhenginu. Það eru um 1,2 milljarðar núna í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Skýringin á því að þeir fjármunir eru þar til staðar er vegna þess að fyrri ríkisstjórn kom seint fram með tekjur í sjóðinn svo sveitarfélögin höfðu ekki tækifæri og tíma til að undirbúa sig til að sækja um í hann, þess vegna er kannski meira í sjóðnum heldur en annars væri.

Ég spyr: Út af hverju er verið að hækka þetta bara upp í 300 kr. og horfa ekkert til hvers konar gisting þar er á bak við, að setja gistináttagjald upp á 300 kr. á fimm stjörnu hótel eða á tjaldstæði eða ódýra gistingu? Út af hverju í ósköpunum er ekki haft eitthvert viðmið varðandi verðlagningu gistingar í þessum efnum? Ég held að það væri ekki flókið. Fyrirmyndin er víða erlendis. Ég hefði viljað sjá gistináttagjaldið taka mið af verðmæti gistingar. Það væri miklu eðlilegra að horfa til þess.

Við Vinstri græn tölum fyrir sykurskatti. Hann var felldur niður af fyrri ríkisstjórn en matarskattur var hækkaður aftur á móti á síðasta kjörtímabili. Það er með ólíkindum að sú ráðstöfun hafi verið gerð. Hækkun matarskatts úr 7% upp í 11% hækkaði auðvitað verðlag og hafði áhrif á kjör almennings í landinu. Það er mjög slæmt að menn hafi valið þann kost að hækka matarskattinn þar sem enginn kemst hjá því að kaupa mat til að framfleyta sér, en fólk getur almennt dregið úr sykurneyslu og sleppt sykruðum vörum ef því er að skipta. Það var hugsað til þess að bæta lýðheilsu í landinu og þess vegna leggjum við þennan sykurskatt til aftur og vonum að skilningur í þeim efnum hafi aukist frá því sem var hjá fyrrverandi meiri hluta hér á þingi þegar hann tók þá ákvörðun að leggja af sykurskattinn.

Við leggjum líka til hækkun á kolefnisgjaldi sem er í takt við Parísarsamkomulagið.

Við leggjum til að barna- og vaxtabætur hækki.

Heilt yfir stöndum við frammi fyrir því núna við þessar sérstöku aðstæður að við erum að reyna þvert á pólitíkina, þvert á flokka, að ná samkomulagi í fjárlögum, reynum að koma þeim saman án þess að hér liggi fyrir einhver meiri hluti eða minni hluti og þurfi þá að taka tillit til þess og fjárlögin munu auðvitað bera þess merki að þar eru menn að sjóða saman niðurstöðu sem hugnast kannski ekki neinum en út frá mismunandi forsendum.

Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að afla tekna þar sem tekjumöguleikar eru hjá þeim efnameiri og hjá stórfyrirtækjum í landinu með hærri tekjuskatti á þá tekjuhæstu, hátekjuskatt og auðlegðarskatt og skatt á stórfyrirtæki, orkuskatt eins og ég hef talið hér upp, og að veiðigjöld hækki á stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa verið með myljandi hagnað undanfarin ár en tökum tillit til þeirra útgerða sem eru á allt öðrum stað og eru ekki að mala gull, sérstaklega ekki nú um stundir þegar gengi krónunnar er eins hátt og raun ber vitni. Við viljum horfa til jöfnuðar varðandi sjávarútvegsfyrirtækin innbyrðis alveg eins og við gerum varðandi almenning í landinu í gegnum tekjuskattinn, að horft sé til þess hvar menn eru staddir hvað varðar öflun tekna og stöðu þeim í efnum.

Við viljum aftur á móti taka verulega á varðandi innviðauppbyggingu og eflingu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins, en við horfumst í augu við það að við náum því ekki fram við þessar aðstæður núna fyrir þessi áramót við frágang fjárlaga, þar verðum við að ná fram sem mestu, en vonumst til þess að ný ríkisstjórn, hver sem hún kann að verða, taki sig til og bæti úr þeim málaflokkum sem ég hef nefnt hér í fjárauka næsta árs. Því að þörfin er brýn. Það getur orðið samfélaginu dýrt að halda áfram að svelta velferðarkerfið og innviðauppbyggingu og vera alltaf að gera það minnsta sem hægt er að komast upp með, líka varðandi það fólk í landinu sem býr við bágust kjörin, að þar þarf auðvitað að taka virkilega á. Ákveðið var í lok síðasta kjörtímabils að bæta úr hvað varðar elli- og örorkulífeyrisþega. Það er gott, en það þarf að gera betur. Við horfum líka til þess að ekki var um að ræða afturvirkni varðandi kjör þessara hópa. Það er auðvitað mjög óréttlátt að það hefur heldur ekki náðst í þeirri vinnu allra flokka á Alþingi að mæta því og lenda því máli.

Í umræðunni undanfarið hefur verið rætt mikið um kaup og kjör þingmanna. Ég hef velt því upp hvort ekki ætti að setja þá hópa undir kjararáð ef stefnan er að taka presta þjóðkirkjunnar út úr kjararáði, hvort opnist ekki glufa fyrir að taka öryrkja og aldraða undir kjararáð og hafa einhver viðmið þar við þá hópa sem þar eru áfram, að það héldi kannski ákveðnum ballans þar í báða enda. Ég held að alveg mætti skoða það í fullri alvöru.

Við erum núna þar stödd að við erum að reyna að ná málamiðlun á þingi við afgreiðslu þeirra stóru mála sem bíða afgreiðslu. Fjárlagafrumvarpið ber þess vitni. En varðandi forsendur fjárlaga höfum við Vinstri græn viljað sýna á spilin hvað snýr að þeim málum þar sem við teljum möguleika á að afla tekna til að standa undir okkar vilja til að bæta samfélagið og byggja upp.