146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[22:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég mun fjalla nánar um tvo málaflokka sem hér komu við sögu. Ferðaþjónustan, sem er stærst atvinnugreina nú orðið, gildasta líflína íslensks hagkerfis undanfarin ár, stendur fyrir miklum tekjum. Tekjur ríkisins munu vera metnar á 60–70 milljarða kr. Hvort það er nákvæmlega rétt veit ég ekki, en í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á að setja u.þ.b. 2 milljarða kr. sem er að mínu mati og í hlutfalli við þetta óeðlilega lág upphæð. Gjaldið eða framlagið hefur verið lækkað um 600 millj. kr. en hefði þurft að hækka um a.m.k. 1 milljarð kr. ef vel væri. Þetta fé hefur ekki nýst af mörgum ástæðum sem hafa reyndar komið fram. Það hefur staðið á framlögum sveitarfélaga. Sum þeirra eru ekki það burðug að þau hafi fé til framkvæmda, mótframlög. Skipulagsmál hafa reynst flókin oft og tíðum. Það fé sem var sett frá ríkisins hálfu kom seint fram. Það er alla vega alveg ljóst að það eru mjög margir staðir utan þjóðgarða sem eru bókstaflega í sárum, sumir mjög miklum, og það þarf eins konar bráðaviðgerðir og snarbætt aðgengi á þeim stöðum. Það er of þröngt um þennan sjóð og skorið um nögl til hans.

Eitt og annað er þó jákvætt í fjárlagafrumvarpi og því sem fylgir, sem fram hefur komið, t.d. þjóðgarðsmiðstöðvar, sem ég hef nefnt áður, og Vatnajökulsþjóðgarður stærstur allra fær þó nokkurt fé til framkvæmda, enda hefur hann þolað umferð betur á flestum stöðum en minni þjóðgarðarnir, þá á ég við bæði Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þeir eru miklu minni, eins og menn vita, og orðnir mun skemmdari en stóri þjóðgarðurinn við Vatnajökul. Þessir minni þurfa miklu meira fé, einkum Þingvallaþjóðgarður, en verið hefur látið af hendi rakna. Við því þarf að bregðast. Eins þarf verulega aukið fé í landvörslu, það hefur líka komið fram, landvörslu í þjóðgörðunum og á friðuðum svæðum. Í því sambandi er mjög brýnt að endurskoða sem allra fyrst hlutverk og valdsvið landvarða. Við vitum að þeir hafa leyfi til þess að beina orðum til fólks og biðja um eitt og annað, en þeir hafa ekki valdsvið til að skipa fyrir eða valdsvið sem er í átt við lögreglu. Á því þarf auðvitað að gera bragarbót, ekki síður en að setja meira fé til landvörslu á mjög mörgum stöðum á landinu.

Frú forseti. Ég vil víkja að sérstökum þætti í ferðaþjónustunni. Það er þannig að menningar- og náttúrunytjar geta ekki gengið upp án verndunarminja og alls umhverfis og til þess greina menn þolmörk, jafnt félagsleg sem náttúruleg og jafnt fyrir staði sem svæði og fyrir landið í heild. Við viljum flest að atvinna sé fjölbreytt en ekki að aðeins þrjár greinar beri upp langmest af henni, hvað þá ein atvinnugrein. Við viljum flest að sjálfbærni sé viðmið í ferðaþjónustu og sú stefna hefur verið mörkuð. Þá skulum við muna að hugtakið nær yfir félagslega og hagræna sjálfbærni ekki síður en að náttúran verði nytjuð á þann hátt að hún standi jafn góð eftir eða betri.

Við munum þá enn og aftur hugtakið „þolmörk“. Þegar sumir stjórnmálamenn eða framámenn í ferðaþjónustu telja að við getum tekið við miklu fleiri ferðamönnum, eins og það er orðað, vekur það margar spurningar. Eru þá engin þolmörk til? Hvað merkja orðin miklu fleiri? Engum dytti í hug að skipuleggja fiskveiðar með því að muldra eitthvað um miklu fleiri fiska. Munum líka að reiknaðar sviðsmyndir sýna að skyndilegur samdráttur í ferðaþjónustu myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið allt.

Meðal fyrstu skrefa til úrbóta auk fjármagns til þjóðgarða og til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru auknar rannsóknir innan ferðaþjónustunnar, skipulagsbreytingar í ferðaþjónustu og stofnanaflórunni og endurskoðun laga um ferðaþjónustu nauðsynlegar. Ég hef talað fyrir nýju ráðuneyti ferðamála og það ætti vissulega að vera til mikilvægrar umræðu á næstunni þegar fjöldi ferðamanna telst í milljónum og viðvarandi skortur á vinnuafli er staðreynd í greininni. Nýja meginatvinnugrein landsins ber að umgangast eins og þær sem áður voru það.

Á næsta ári og árum bíður okkar mikið og fjölþætt verkefni við að bæta úr innviðum, ástandi landsins allt of víða og skipulagi vegna ferðaþjónustu, bæði hvað varðar handavinnu, ef svo má að orði komast, og útvegun fjármagns til að geta tekið við ferðafólki í milljónavís, eins þótt viðmið séu við skynsamleg þolmörk sem við ákveðum og virðum. Fjárlög 2017 og fjáraukalög og fjárlög þar á eftir hljóta að verða að endurspegla það mörg ár fram í tímann.

Frú forseti. Að öðru en skyldu málefni, ég lofaði að tala um tvö málefni og það seinna er loftslagsmálin. Þegar stjórnvöld víða um heim sjá fram á æ alvarlegra ástand heima fyrir og í samskiptum þjóða, t.d. í Asíu þar sem gríðarlegur mannfjöldi er háður jökulvatni jafnt sem sjávarstöðu, er tvennt í stöðunni á alþjóðavísu. Við verðum í fyrsta lagi að vinna gegn manngerðum orsökum loftslagsbreytinga, það er orðið óumdeilanlegt. Það merkir hraðan og mikinn samdrátt í losun gróðurhúsagasa og stórfellt átak í landvernd, endurheimt lággróðurs og votlendis og ræktun skóga sem binda grösin á landi. Allt þetta snýr beint að Íslandi.

Í öðru lagi verður að lina og lágmarka áhrif veðurfarsbreytinga á samfélög þjóða. Það merkir mótvægisaðgerðir og ákvarðanir um hvernig samvinna þjóða, ekki bara um rannsóknir og upplýsingar, getur hjálpað þeim sem harðast verða úti og líka þegar það bankar á okkar dyr.

Frú forseti. Nógu margar einhlítar skýrslur liggja frammi og nægar rannsóknarniðurstöður eru opinberar til þess að hefjast megi handa fyrir alvöru við bæði þessi verkefni. Hingað til hafa hvorki orðið nægar framfarir við að minnka losun né heldur við að ákvarða viðbrögð við rýrnun jökla, súrnun hafsins eða hækkun sjávarborðsins á heimsvísu. Þetta allt merkir ekki að minnka skuli rannsóknir eða fræðslu um stöðu og horfur, aðeins að rannsóknir eru ekki lengur í fyrsta sæti og eiga ekki að hljóta mesta athygli stjórnvalda, ákvarðenda, fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Þar þurfa skjótar aðgerðir að koma í staðinn. Við þurfum að koma málunum á þetta séríslenska reddingarsvið sem við erum fræg fyrir.

Við skulum beina aukinni athygli, nægum peningum og heildrænu skipulagsstarfi að því að ná markmiðum sem íslensk stjórnvöld samþykktu á Parísarráðstefnunni, ég hef nefnt þetta áður, með skilmerkilegri áætlun, markmiðssettri hvert ár og fullfjármagnaðri. Við göngum ekki á bak orða okkar og skuldbindinga, það gerir ekkert okkar. Það eru aðeins 13 ár til stefnu í fyrsta áfanga.

Eitt og annað í fjárlögum og fjáraukalögum styður vissulega við baráttuna gegn loftslagsvánni en það þarf að gera betur. Það hlýtur að lita tekjuöflun og fjárútlát næsta árs og allra áranna 13. Ég nefni kolefnisgjald. Ég nefni umhverfisvænni bíla, sem hefur verið minnst á. Þetta er auðvitað allt til bóta en, eins og ég segi, betur má ef duga skal.

Frú forseti. Bæði ferðaþjónustan og loftslagsmálin eru risastór málefni. Svokölluð sóknaráætlun í loftslagsmálum með 16 atriðum er vanfjármögnuð nú um stundir og önnur áætlun sem kallast landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem var samþykkt frá Alþingi 2016, er einnig vanfjármögnuð. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi orkuskiptaáætlun sem er einnig sannkallað huldubarn í því samhengi.

Við komumst ekki mörg hænufet með þessum vinnubrögðum. Það má fullyrða að það er næg þörf fyrir fjármagn, hvort sem er beint frá ferðaþjónustunni í formi gjalda, úr álögum á ferðamenn sem komugjöld eða úr öðrum tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga.

Varðandi komugjöldin er það að segja að komið hafa fram viðbárur um að þau muni bremsa ferðamannafjöldann til Íslands en ég held að það geti ekki átt við vegna þess að 1,5 milljarðar manna eru á faraldsfæti um jörðina og við erum að taka hingað inn eins og 1 prómill. Þótt vikukostnaður við ferð á Íslandi, sem er sagður vera um 200 þús. kr., hækki um 1 eða 2 þús. kr., 1 þús. kr. er lagt til í tillögum Vinstri grænna, er ég alveg viss um að það er til nægt fólk sem kippir sér ekki upp við það. Ég held því ekki að komugjöld eða hækkað gistináttagjald, sem ætti að vera hlutfallstala á verði gistingar, eins og hv. þingmaður nefndi á undan mér, að þær gjaldahækkanir séu með þeim hætti að það trufli eitthvert flæði ferðamanna hingað og séu til þess fallnar að koma í staðinn fyrir þolmörk eða annað þess kyns sem er nauðsynlegt að við ákvörðun fyrr en síðar.

Við Vinstri græn viljum að ferðaþjónustunni og náttúrunni jafnt sem fólki líði vel í landinu og teljum að aukið fjármagn, bættir innviðir, virt þolmörk og öflug ferðaþjónusta geti og eigi að fara saman. Tillögur okkar um framlög og tekjur bera þess vitni. Ég hvet hv. þingheim til að samþykkja þær.