146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[22:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að flytja nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um kjararáð nú við 3. umr. málsins.

Nefndin fjallaði um málið milli 2. og 3. umr. og fékk til sín Björn Rögnvaldsson og Sigurð Helga Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Skúla Magnússon frá Dómarafélagi Íslands, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við 1. gr. frumvarpsins, sem sett var fram í 2. umr., þar sem kveðið er á um að kjararáð skuli vera stjórnsýslunefnd. Athugasemdirnar lutu einkum að því að stjórnsýslunefndir taki almennt ákvarðanir um réttindi og skyldur manna og að slíkar nefndir falli undir stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þessar athugasemdir en telur mikilvægt að kveðið verði á um að ráðið skuli falla undir stjórnsýslulög eftir því sem við á sem og upplýsingalög, nr. 140/2012. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis.

Jafnframt leggur nefndin til breytt orðalag á síðari málslið 1. gr. í því skyni að kjararáð fjalli um starfskjör nefndarmanna í fullu starfi hjá þeim úrskurðarnefndum sem þar eru tilgreindar. Þá leggur nefndin til að dómarar í Félagsdómi falli undir ákvörðun kjararáðs um laun og önnur starfskjör til að tryggja betur sjálfstæði dómsins.

Nefndin ræddi ákvæði 4. gr. frumvarpsins og áréttar að kjararáð skuli í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef farið í gegnum munnlega og hægt er að skoða lið fyrir lið í nefndaráliti meiri hlutans.

En stuttlega um það sem við erum að gera hér, virðulegi forseti, með þessum breytingum á kjararáði. Markmiðin eru tvíþætt, annars vegar að fjölga þeim aftur sem taka laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt. Það hafa verið um 580 manns undir kjararáði og nú er þeim fækkað í 150, eða eitthvað á því bili. Þá er annað markmið að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna, sem sagt þeir sem eru undir kjararáði, hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra en nú.

Í þriðja lagi, sem er kannski það mikilvægasta og umlykur þetta frumvarp, er lögð mikil áhersla á að breyta starfsaðferðum kjararáðs, að við höfum það skýrt og vitum hvernig kjararáð starfar í ákvörðunum sínum, hverju það tekur mið af, og að við höfum það skýrt, eins og kemur fram í 4. gr. frumvarpsins sem ég er mjög ánægð með og við hnykkjum sérstaklega á, að ráðið skuli gæta þess að launin sem það ákvarðar séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu. Í því skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili en legg til að breytingartillögur meiri hlutans verði samþykktar.

Ég vil þakka nefndinni fyrir umfjöllun um málið, hún hefur verið mjög ítarleg. Ég vil þakka öllum nefndarmönnum fyrir að taka sér tíma og fara um víðan völl í umræðum um það hvernig fyrirkomulagi um kjararáð er best fyrir komið. Ég held að við höfum komist að ágætri niðurstöðu.