146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[22:52]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil kannski árétta að áhyggjur mínar eru þess eðlis að meiri hluti kjararáðs eru starfandi lögmenn. Komst ég ekki að þeirri niðurstöðu fyrr en ég var búin að fletta upp í leitarvélinni Google öllum nöfnum þeirra sem sitja í kjararáði og fletta í gegnum þó nokkrar leitarniðurstöður líka. Mér þætti eðlilegt að helstu upplýsingar um þá sem sitja í kjararáði liggi fyrir á vefsíðu kjararáðs. Í raun og veru er það helsta markmið með þessari hagsmunaskráningu.

Með þessari breytingartillögu legg ég til að kjararáði verði í sjálfsvald sett nákvæmlega hvernig það setur fram hagsmunaskráningu sína, það taki mögulega mið af því hvernig Hæstiréttur ætlar sér að birta sína hagsmunaskráningu. Mér finnst kjararáð kannski ekki fara með jafn mikilvæga hagsmuni og dómstólar landsins, en alveg virkilega mikilvæga samt sem áður. Mér finnst mjög eðlilegt og í raun og veru nauðsynlegt að fram komi hvaða störfum öðrum en setu í kjararáði kjararáðsmenn sinna og helstu tengsla sem þeir njóta. Því finnst mér í ljósi þeirra ákvarðana sem kjararáð tekur frekar nauðsynlegt og æskilegt að það sé aðgengilegt á síðu kjararáðs þannig að ekki sé þar einhver listi af nöfnum, sem er svo sem ekkert sérstaklega erfitt að afrita og líma inn í leitarglugga en tekur samt tíma og er ekki upplýsandi. Mér þykir það eðlilegt miðað við þær spurningar sem hafa vaknað víðs vegar, og ekki bara gagnvart því að lögmenn starfi þarna. Það er svolítið „existential“ spurning líka hvort það skipti öllu máli eða hvort það raunverulega stefni hlutleysi dómstóla í hættu. Ég er ekki búin að gera það almennilega upp við mig. En ég hefði alla vega viljað sjá það strax og vita það strax. Ég tel að hagsmunaskráningin geti skilað því.