146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fá að setja þetta upp í samhliða dæmi: Hagsmunaskráning er birt opinberlega þar sem fram koma helstu önnur störf sem ráðsmenn sinna utan starfa sinna sem kjararáðsmenn. Fundargerðir kjararáðs eru birtar opinberlega þar sem fram kemur þegar hæfisskilyrði kjararáðsmanna eru tekin fyrir. Þá fáum við kannski að vita hvenær kjararáðsmenn ákveða virkilega að víkja vegna hagsmuna sinna eða ekki. Það væri þá hægt að bera það saman við þá hagsmunaskráningu sem liggur fyrir.

Þetta væri ekki mögulegt ef við værum ekki með þessa fínu þrennu sem ég er að leggja til í breytingartillögunni vegna þess að það væri töluvert erfiðara að verða sér úti um allar þessar upplýsingar, samt auðveldara nú orðið á upplýsingaöld, en það væru samt sem áður nokkrir snúningar á meðan við gætum haft þetta allt saman aðgengilegt og fínt á vefsíðu kjararáðs. Það tæki ekkert sérstaklega langan tíma að kippa því í liðinn. Hagsmunaskráning er að mínu mati bara mikilvægt verkfæri fyrir almenning til að vera með það á hreinu að verið sé að vinna að hag almennings og að engir sérhagsmunir ráði för í ákvörðun kjararáðs né annarra mikilvægra stofnana í þessu landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)