146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[23:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þau lög, sem enn eru í gildi, um kjararáð voru samþykkt 2006, en verið er að fella úr gildi núna og samþykkja ný lög sem eru mjög svipuð en greinargerðin og lögskýringargögnin fylgja ekki, ákváðu menn: Við skulum taka þessi lögskýringarákvæði úr gömlu kjaradómslögunum inn í kjararáðslögin. Það er ekki gert nú. Þar er meðal annars sagt að ekki megi skapa hættuna á að raska kjarasamningum þorra launafólks. Það er mjög sterkt ákvæði. Það var sérstaklega áréttað, með leyfi forseta, í greinargerðinni með frumvarpinu sem er í lögum núna um kjararáð: „að ekki sé hætta á að úrskurðir Kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu.“ Þetta er sterkara ákvæðið. Það er ekki lengur til staðar ef við samþykkjum þessi lög.

Annað sem kemur fram aðeins neðar, með leyfi forseta. Það er á bls. 7 í frumvarpinu eins og það var lagt fyrir svo og öll lögskýringargögnin í greinargerðinni: „Kjaradómi ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaði en ekki móta hana.“

Síðar segir: „Þessu ákvæði var með öðrum orðum ætlað að vera eins konar almenn umgjörð um ákvarðanir Kjaradóms sem byggðar væru á viðleitni til þess að tryggja bæði innra og ytra samræmi í ákvörðunum Kjaradóms. Í frumvarpinu um kjararáð sem hér er gerð grein fyrir er fylgt sömu stefnu og hún reyndar ítrekuð með því að í síðari málsgrein 8. gr. frumvarpsins“ — sem er núna enn þá inni — „er sérstaklega kveðið skýrar að orði um þetta efni …“

Þessi lögskýringargögn eru farin. Þannig að þetta er ekki jafn sterkt.