146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[23:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála þingmanninum. Að sjálfsögðu trompa lagaákvæði greinargerðir. En þegar verið er aftur á móti að túlka þessi lagaákvæði þarf að fara í greinargerð. Og enn er inni þetta sama lagaákvæði, með leyfi forseta: „Kjararáð skal í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði.“ En það sem vantar er lögskýringargagnið, greinargerð, sem ég las áðan, í fyrra andsvari. Það vantar inn í þessi mjög sterku ákvæði um hvað þetta þýði, að það megi ekki skapa hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks og stefna þar af leiðandi efnahagslífinu í hættu, að þetta sé rammi utan um hitt. Það er farið.

Hér kemur líka fram og hv. þingmaður hefur lesið það áður, en þetta er allt í 4. gr. Nú les ég málsgreinina þar á undan, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun starfskjara þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir skal ráðið gæta þess að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu.“

Ég hef einmitt heyrt hv. þingmann nefna þetta: í samræmi við laun í þjóðfélaginu. En sjáðu: Þau laun, kjararáð getur ákveðið að þau laun séu laun á við sambærilega aðila, sem er akkúrat þetta ytra samræmi. Það er akkúrat það sem þeir gerðu í ákvörðun sinni núna. Þeir tóku ákvörðun um að hækka laun þingmanna í samræmi við, að vísu innra samræmi, innra samræmið var við hæstaréttarlögmenn sem hafði verið tekið aftur á móti við ytra samræmi við aðra í samfélaginu. Það að taka samræmi við laun leysir ekki þetta vandamál.

Og ef ég held áfram þarna, með leyfi forseta: „Í þessu skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun.“

Fylgjast með og leggja mat á er mjög vægt þegar ekki er tryggt sterklega með greinargerð hvað þetta eigi að þýða. Því að þeir gerðu það núna, fylgdust með og lögðu mat á, en lögðu bara það mat að þeir mættu samt sem áður hækka laun þingmanna alla vega um 13%, samkvæmt fjármálaráðuneytinu, umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði.