146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[10:52]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er um að ræða viðleitni af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að auka tekjumöguleika ríkissjóðs á réttlátan hátt sem stuðlar að auknum jöfnuði í skattkerfinu. Í breytingartillögunni sem hér er til umfjöllunar og fjallar um auðlegðarskatt er um að ræða 1,5% auðlegðarskatt af eignum að verðmæti 75–150 milljóna hjá einstaklingi og 2% auðlegðarskatt á eignir að verðmæti 150–200 milljóna hjá einstaklingi. Um er að ræða eignir umfram þær eignir sem einstaklingur nýtir til eigin búsetu, sem einstaklingur býr í.

Þetta er með öðrum orðum skattálagning upp á 1,5–2% á hátekjuhæstu hópa samfélagsins en sýnt hefur verið fram á að með skattbreytingum á nýliðnu kjörtímabili jókst skattbyrði allra hópa nema tekjuhæstu 20 prósentanna en skattbyrði þeirra minnkaði meira en svo að hægt sé að útskýra það með launahækkunum. (Forseti hringir.) Hér er því um að ræða tillögu sem ég er sannfærð um að hátekjuhópar landsins eru tilbúnir að styðja til að auka framlög til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu og menntakerfinu.