146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um komugjöld. Það er ekki rétt að sú umræða hafi ekki farið fram á undanförnum árum. Það hefur verið mikil umræða um það hvernig á að skattleggja þann gífurlega fjölda ferðamanna sem hefur komið hingað til landsins og að það þurfi að ná tekjum til að byggja upp innviði til að mæta þeirri miklu fjölgun sem orðið hefur. Þingið hefur heykst á þeirri ákvörðun en þessi umræða hefur verið í gangi og málið hefur verið rætt mikið. Hér leggjum við Vinstri græn til að lagður verði á 1.000 kr. skattur, komugjöld á farþega inn í landið. Það er ekki ofrausn. Það er það lágmark sem þarf til að byrja á þeirri vegferð sem við hefðum átt að fara í fyrir nokkrum árum síðan. En menn hafa ekki haft kjark til þess. Aðilar í ferðaþjónustu hafa rætt að þetta væri einfaldasta leiðin til að ná tekjum til að mæta þeim kostnaði sem fylgir auknum fjölda ferðamanna, bæði á þjóðvegum landsins, í heilbrigðiskerfinu og annars staðar. Ég trúi því ekki að þingmenn hafi ekki kjarkinn og heykist (Forseti hringir.) enn einu sinni á að greiða þessu atkvæði.