146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[11:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er rétt sem samflokksmaður minn, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, nefnir, þessu máli er í heild sinni ekki lokið. Það fór ekki á dagskrá á þeim forsendum að það væri ákvörðun kjararáðs. Í frumvarpinu voru ekki sterkari ákvæði, það voru veikari ákvæði sem ættu að ramma það inn að kjararáð geti ekki farið umfram almenna launaþróun. Í meðferð nefndarinnar aftur á móti áréttaði hún þetta og hv. framsögumaður málsins, Björt Ólafsdóttir, áréttaði það í þessum stól í gær að það væri ólöglegt fyrir kjararáð að fara umfram. Það er lögskýringargagn og það er mjög gott. Þá er mögulega búið að ramma þetta nógu vel inn til að þeir megi ekki löglega fara umfram almenna launaþróun. Ef svo er þá er það mjög gott.

Það var aftur á móti í lögunum að það mætti það ekki og í greinargerðinni, það væri ólöglegt. Ég er enn með áætlun um að kæra kjararáð fyrir þessa ákvörðun sína í kjördag. Ég hef aftur á móti ekki mjög sterkt mál til að kæra það ef forsætisnefnd (Forseti hringir.) lækkar kjör þingmanna þannig að heildarlaunakjör þingmanna hafi ekki farið umfram almenna launaþróun. Nú sjáum við hvernig þetta þróast í framhaldinu.