146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[12:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar. Kannski kann það að hljóma framandi í upphafi en eins og áður hefur komið fram og allir þekkja er hér nokkuð óhefðbundið ástand þar sem ekki er starfandi ríkisstjórnarmeirihluti og fjárlagafrumvarpið lagt fram af starfandi ríkisstjórn. Áður hefur komið fram hvernig nefndin vann að breytingartillögum í hv. fjárlaganefnd. Ég mun ræða um það sérstaklega síðar. Því rita undir nefndarálitið einungis þeir nefndarmenn sem voru og eru fulltrúar starfsstjórnar flokkanna.

Ég geri ráð fyrir að aðrir nefndarmenn fjárlaganefndar eða fulltrúar annarra flokka mæli fyrir eigin nefndarálitum þó svo að það sé okkar ætlan að standa sameiginlega að þeim breytingartillögum sem hér verða fluttar og síðan eftir atvikum að styðja þær í atkvæðagreiðslu og veita síðan fjárlagafrumvarpinu í heild sinni hlutleysi sitt.

Virðulegur forseti. Það fer ekki hjá því að þegar verið er að vinna á jafn stuttum tíma og við höfum verið að gera hefur ýmislegt komið upp á í vinnu hv. fjárlaganefndar undanfarna sólarhringa, allt frá því að tæknin væri að stríða okkur og yfir í ónógan tíma til að ígrunda með fullnægjandi hætti ýmis atriði fjárlaganna. Þá vil ég aðvara um að hugsanlega þurfa að koma til einhverjar leiðréttingar á milli umræðna, einfaldlega vegna þeirrar tímapressu og þeirra tækniörðugleika sem við höfum lent í við frágang málsins.

Það helgast kannski fyrst og fremst af því að við erum í fyrsta sinn að ræða og afgreiða fjárlög í lagaumhverfi um opinber fjármál sem nýlega hafa tekið gildi. Eins og kom rækilega fram í 1. umr. um fjárlagafrumvarpið mun vafalaust taka einhvern tíma að innleiða nýtt verklag og nýja verkhætti því tengdum. Ég mun fjalla nánar um það í framsögu minni síðar.

Gerðar eru breytingartillögur við tekjuáætlun frumvarpsins sem nema 3,8 milljörðum til hækkunar tekna og einnig breytingartillögur við sundurliðun 2, þ.e. fjárheimildir málefnasviða eftir málaflokkum og ráðuneytum sem samtals nema 8,2 milljörðum til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða því heildartekjur ársins 775,8 milljarðar, en gjöldin verða 751,6 og er heildarafkoman þar af leiðandi ríflega 24 milljarðar sem er eilítil lækkun frá 1. umr. Útgjöld fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 hækka í heild sinni verulega mikið. Talsverð umræða hefur verið í hv. fjárlaganefnd um þá útgjaldaþróun sem hér er að verða; raunútgjaldahækkun ríkissjóðs nemur tugum milljarða. Það má hafa af því ákveðnar áhyggjur hvert slík þróun leiðir okkur. En við teljum að á ystu brún, eða alla vega 1. minni hluti telur að við séum að komast á ystu brún þeirrar útgjaldaþenslu sem við fjöllum hér um.

Hv. fjárlaganefnd hafði það verklag á nú sem er óhefðbundið miðað við fyrri ár — frumvarpið kemur óvenju seint fram vegna alþingiskosninga og hve seint þingið kom saman — að ekki hefur verið hægt að halda í fyrri starfshætti hv. fjárlaganefndar um umfjöllunartíma og umsagnir. Við leituðum því fyrst og fremst til umsagnaraðila sem voru Seðlabanki Íslands og Hagstofan, Ríkisendurskoðun, Samtök atvinnulífsins og ASÍ ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það voru þeir gestir sem komu og ræddu við fjárlaganefnd og fylgdu eftir sínum umsögnum og unnu þannig að undirbúningi umræðunnar um fjárlagafrumvarpið. Auk þess varð sú mikla breyting að einungis fáir aðrir aðilar komu til fjárlaganefndar. Við tókum sérstaklega fund með innanríkisráðuneyti og Vegagerð og síðan heilbrigðisráðuneyti og Landspítala. Það er kannski í anda þeirra áherslna sem síðar koma fram í breytingartillögum okkar.

Um forsendur þessara fjárlaga og þessa fjárlagafrumvarps er rakið á bls. 2 í nefndaráliti okkar og er í raun sá rammi sem sleginn er utan um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár, sem er þá í stuttu máli þannig að gangi þær spár eftir verðum við með eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið í nútímahagsögu á Íslandi. Allar greiningar og allar umsagnir sem við höfum haft úr að spila segja að sá hagvöxtur og þessi hagvaxtarsveifla standi ágætlega traustum fótum, hún standi ekki á brauðfótum. En hún þenur ýmis atriði í okkar þjóðhagslega umhverfi út á hin ystu mörk. Við erum farin að sjá verulegan vöxt í einkaneyslu, sjáum á síðustu mánuðum ársins verulega hagvaxtaraukningu sem mældist um 10%, ef ég man rétt.

Forsendur fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir 4,4% hagvexti á árinu 2017. Niðurstaðan fyrir árið 2016 er um 4,8%. Hér er lítið atvinnuleysi. Hér er vaxandi fjárfesting. Fjárfestingin er reyndar verulega tengd stóriðju og ferðaþjónustu ásamt skipum og flugvélum. Vöxtur íbúðafjárfestingar hefur verið allnokkur og var mjög rætt um það í starfi nefndarinnar á hve veikum grunni við byggjum hagspár okkar um íbúða- og byggingarframkvæmdir. Er það kannski einn af þeim þáttum sem við þurfum í vandaðri áætlunargerð að taka miklu fastari tökum, hvernig við getum spáð fyrir um þróun bygginga, hvort sem er atvinnuhúsnæðis eða íbúðarhúsnæðis. Því að eðlilega hafa miklar sveiflur í þeim efnum veruleg áhrif á stefnumótun í ríkisfjármálum.

Ég nefndi í upphafi að verklag nefndarinnar hefði verið með óhefðbundnum hætti. Ekki aðeins var þessi stutti tími heldur unnum við líka í fyrsta sinni undir nýjum lögum um opinber fjármál. Ég vil geta þess í upphafi framsögunnar að þá breytingu sem hefur orðið á stefnumörkun fyrir opinber fjármál og undirbúning fjárlaga hafa ekki allir náð að tileinka sér. Þegar ég segi allir ætla ég að reyna að útskýra það. Við höfum fengið á undanförnum árum margar innsendar umsagnir og gestakomur sveitarfélaga og annarra aðila til hv. fjárlaganefndar, en vegna hins breytta verklags þar sem við raunverulega undirbyggjum fjárlagafrumvarp á hverju ári með voráætlun, ríkisfjármálaáætlun sem sett er að vori; sú umræða sem hefur verið að hausti til þessa tíma á miklu frekar heima að vori.

Það er kannski eðlilegt að allir átti sig ekki á þeirri grundvallarbreytingu. En ég held að þetta lærist eins og aðrir hlutir, en þetta er hin stóra breyting. Þegar við förum að ræða um ríkisfjármálaáætlun til 4–5 ára að vori, þ.e. þingsályktunartillögu, er grunnurinn lagður þar að þeim stefnubreytingum sem við verðum sammála um að gera á hverjum tíma og fjárlagafrumvarp að hausti á í raun að endurspegla voráætlun og þær áherslur sem þar eru lagðar. Í framtíðinni ætti vinna fjárlaganefndar að hausti fyrst og fremst að snúast um að bera saman samþykkta þingsályktun um ríkisfjármálaáætlun og frávik frá henni sem birtast í fjárlagafrumvarpi.

Það er líka annar háttur hafður á um fjárveitingar til einstakra verkefna og stofnana en áður. Nú liggur fjárlagafrumvarpið fyrir sjálfstætt, en síðan er skipting á einstakar stofnanir, málaflokka og málefnasvið í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu. Einnig er það verklag í fyrsta sinni innleitt nú að við greiðum ekki atkvæði um fjárveitingar til einstakra stofnana heldur til málefnasviða. Breytingartillögur hljóða þá upp á hvert málefnasvið fyrir sig.

Þetta eru að sjálfsögðu allt hlutir sem eiga eftir að slípast og mótast. Við í hv. fjárlaganefnd höfum rekið okkur á allnokkra annmarka, eða eigum við að segja atriði sem við þurfum að vinna betur með og svara og tileinka okkur í nýjum verkferlum.

Það er sannarlega óvenjuleg staða að hafa fjárlaganefnd sem ekki styðst við neinn meiri hluta. Það er kannski líka bara mjög þroskandi fyrir hið háa Alþingi að takast einu sinni á við það. Ég vil aðeins segja um það að þetta er að sönnu mikil áskorun fyrir alla aðila í fjárlaganefnd, en ég held að við getum hvert og eitt okkar sagt að við komum reynslunni ríkari frá þeirri vinnu.

Í því ljósi er rétt að taka fram að tillögugerðin sem 1. minni hluti mælir fyrir endurspeglar ekki endilega áherslur þeirra stjórnmálaflokka sem undir hana rita, þ.e. þeirra flokka sem skipa starfsstjórnina sem þá í þessu tiltekna máli virkar sem eins konar minnihlutastjórn. Þær áherslur sem koma fram í breytingartillögum þurfa ekki að endurspegla hina pólitísku áherslu þeirra flokka frekar en annarra sem standa að þessum breytingartillögum. Breytingartillögurnar eru afurð á löngu umræðu- og samningaferli. Mikilvægt er að við höfum það í huga þegar við fjöllum um einstakar breytingartillögur að þarna er búið að taka tillit til ýmissa sjónarmiða, ýmissa áherslna, en að sjálfsögðu er ekki pláss fyrir ýtrustu stefnumál einstakra framboða eða flokka. Ég fullyrði aftur á móti að þær áherslur sem við leggjum í breytingartillögum okkar ríma mjög vel við liðna kosningabaráttu.

Í meginatriðum leggjum við til breytingar á fjórum málefnasviðum; vegna heilbrigðismála, samgöngumála, löggæslu og menntamála. Við sem gengum í gegnum kosningabaráttuna á liðnu hausti — ég held að ég megi fullyrða að hvert og eitt framboð hafi mikið talað um áherslur í þeim málaflokkum. Því ber ekki síður að virða að þarna má segja að þjóðin hafi með ákveðnum hætti náð fram ákveðnum breytingum án þess að hafa komið með meirihlutaríkisstjórn til að breyta þar.

Ég vil undirstrika að lokum um þetta verklag að þegar menn vilja breyta ríkisfjármálastefnu, þegar menn vilja leggja áherslu á uppbyggingu innviða sérstaklega, heilbrigðis- eða menntamál eða annað, verður meiri hluti hverju sinni að leggja áherslu á að undirbyggja það í fyrsta lagi með ríkisfjármálastefnu, sem er þá stefnuskjal nýrrar ríkisstjórnar sem tekur við völdum hverju sinni og markar í raun leiðina hvernig menn ætla að leggja upp skattapólitík, ríkisfjármálapólitík, á kjörtímabilinu, sem þá undirbyggir hvernig menn ætla að fjármagna einstök verkefni.

Ég nefndi áðan að verulegar útgjaldabreytingar eru í breytingartillögum okkar. Í frumvarpinu eru verulega aukin útgjöld. Við ræddum líka talsvert um það í hv. fjárlaganefnd, þ.e. hættuna á þenslu og óheppilegum afleiðingum þess að auka útgjöld með þessum hætti. Ég vil segja að við vorum mjög meðvituð um það verkefni og ábyrgð okkar. Ég held að við getum með sóma sagt að þegar þing er með þeim hætti að leggja fjárlög fyrir næsta ár, með engum meiri hluta, því að það er fyrst og fremst starfsskylda þingsins og þingmanna að hér séu í gildi fjárlög hverju sinni, getum við ekki gleymt þessum áhættuþáttum sem við verðum líka að muna eftir sem eru neikvæðir þættir eins og ofþensla og ofhitnun hagkerfis o.s.frv. Því ber líka að hafa í huga að þær áherslur sem við leggjum í breytingartillögunum eiga að miða að því marki að við kyndum ekki ofþenslubál. Það má hafa á því fjölmargar skoðanir hvernig okkur tekst til í þeim efnum, en ég vildi einungis láta þess getið að við vorum mjög meðvituð um okkar ábyrgð í þeim efnum. Ég segi aftur: Þetta er niðurstaða samninga, ekki með nokkrum hætti stefna nokkurs stjórnmálaflokks sem þarna kristallast. Aðrir stjórnmálaflokkar sem hér eiga aðild að málum munu vafalaust tíunda sínar áherslur en þetta er niðurstaða mikillar umræðu.

Ég nefndi þau fjögur áherslusvið sem við gerum sérstaklega að umfjöllunarefni í breytingartillögunum sem eru þá í fyrsta lagi samgöngumál — ég ætla ekki að telja þau upp í röð eftir mikilvægi — en við leggjum til breytingar vegna samgöngumála. Þar erum við kannski fyrst og fremst að leggja þá áherslu á að við þurfum að komast framar í viðhaldi samgöngumannvirkja. Áhersla okkar er á að auka fjármuni til viðhalds samgöngumannvirkja hvort sem það eru, og ekki bara, umferðaröryggismál til lengri eða skemmri tíma, eða hagsmunamál íbúa einstakra byggðarlaga, heldur og líka til að bjarga þeim verðmætum sem við höfum lagt í samgöngukerfið á undanförnum árum. Við leggjum líka fram tillögur um að tryggja að hægt verði að ráðast í næstu stórframkvæmdir í jarðgangagerð, eins og að útboðsferli Dýrafjarðarganga haldi og framkvæmdir geti hafist. Og að hægt sé að semja um smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju, Herjólfi, auk annarra mikilvægra samgöngumannvirkja og uppbyggingar þeirra.

Ég vil vekja sérstaka athygli á að fjárlaganefnd setur ekki upp í breytingartillögum sínum neinn forgangsröðunarlista um einstakar samgönguframkvæmdir þótt við nefnum þessar stóru framkvæmdir, Herjólf og Dýrafjarðargöng, einfaldlega vegna þess að þegar frumvarpið kom fram urðu mikil viðbrögð við því og ótti fólks við að ekki ætti að standa við að halda þeim framkvæmdum áfram, sem ég vildi allan tímann og reyndi að halda á lofti að hlytu að vera ákveðin mistök. En við erum þá að þétta undir það núna. En áhersla fjárlaganefndar er fyrst og fremst þessi: Að ráðast í samgöngubætur og samgöngumannvirki á forsendum umferðaröryggis og öryggismála í vegakerfinu. Við getum í sjálfu sér tínt til stór verkefni í þeim efnum eins og gatnamót á Reykjanesbraut, hringtorg o.s.frv. Líka að innanríkisráðuneytið og Vegagerðin stilli upp framkvæmdaáætlun sinni þannig að við komumst í að byggja upp vegi sem við höfum beðið lengi eftir og haft lengi á teikniborðinu en hafa þurft að víkja á undanförnum árum vegna ýmissa ástæðna. Einnig hafa vegaframkvæmdir beðið mjög lengi og ekki komist áfram vegna þess að skort hefur framkvæmdaleyfi. Ég nefni sérstaklega Gufudalssveit. Hvort sem við nefnum Dettifossveg eða aðrar vegaframkvæmdir er líka mikilvægt að þegar Vegagerðin raðar upp sínum framkvæmdum að gæta þess að þær valdi ekki því að tilboð í tiltekin verk komi til með að gera þau enn dýrari. Hægt sé að stilla það af með einhverjum hætti. Það er þó þannig samkvæmt upplýsingum okkar að útboð í jarðvegsframkvæmdir hlaupa ekki verulega mikið yfir kostnaðaráætlun. Þetta var um samgönguþáttinn.

Við nefnum líka hafnamál og að standa beri við þá samninga sem hafa verið birtir þeim aðilum sem eru í framkvæmdum við einstaka hafnir landsins. Við ætlumst til að um 700 milljónir fari til viðbótar við það sem er í frumvarpinu til hafnamála, endurnýjunar á stálþiljum, sjóvarna og slíkra þátta.

Ég verð líka að geta þess að þær tillögur sem við gerum í samgöngumálum, heilbrigðismálum og öðrum málaflokkum fléttast með ákveðnum hætti saman við tillögur sem við gerum til breytinga á fjáraukalögum sem við ræðum síðar í dag. Ég bið hv. þingmenn að skoða það eilítið í samhengi. Einhverjar samgönguframkvæmdir eru vegna þess að áföll hafa orðið, náttúruhamfarir. Við erum líka að bregðast við því. Í heildina, þó að lagðir séu um 4,6 milljarðar í samgöngumál í frumvarpinu, er talan eilítið hærri þegar tekið er tillit til þeirra þátta.

Við erum að festa í sessi ljósleiðaraátak sem við höfum unnið að á undanförnum árum og verkefnið Ísland ljóstengt nýtur hér fjármögnunar eins og birt var í voráætlun.

Við gerum breytingartillögu vegna löggæslumála. Leggjum til að 400 milljónir fari til að efla löggæslu í landinu. Við þekkjum umræðuna um löggæsluna og mikilvægi þess að lögreglan geti staðið styrkum fótum og að við hefjum aftur uppbyggingarstarf. Við bíðum eftir löggæsluáætlun til lengri tíma. Þess vegna held ég að ótímabært sé að við fastsetjum með hve miklum fjármunum við ætlum að byggja upp löggæsluna á næstu árum en bíðum löggæsluáætlunar með það. En við vekjum athygli á að með fjölgun ferðamanna, vegna þess að við höfum dregið saman í löggæslu hringinn í kringum landið og líka á höfuðborgarsvæðinu, eru hér stór landsvæði sem upplifa ekki öryggistilfinningu, sem mér finnst vera mjög alvarlegt mál.

Við leggjum til 100 millj. kr. breytingartillögu vegna starfsemi Landhelgisgæslunnar. Komið hefur fram áður í 1. umr. um þetta frumvarp að óvissa er um tekjur Landhelgisgæslunnar sem hún hefur haft á undanförnum árum. Til viðbótar er 75 millj. kr. framlag í fjárauka til Landhelgisgæslunnar. Í allt fær þá Landhelgisgæslan um 175 milljónir verði tillögurnar samþykktar.

Við fjöllum verulega um menntamál í áherslum okkar. Það var niðurstaða fjárlaganefndar að horfa til háskólastarfsemi, breytingartillögu um 1,3 milljarða. Það er rakið í sundurliðun sem fylgir nefndarálitinu hvaða áherslur við leggjum í þeim efnum. En þá ætla ég að segja að það er kannski vandi nýrrar fjárlagagerðar að við nóterum ekki tilteknar upphæðir á tilteknar stofnanir. Þess vegna eru þau verkefni sem hér eru nefnd áhersluatriði. Einnig er lagt til að ráðuneytið sjálft útdeili úr því sem í daglegu tali eru kallaðir pottar. Ráðuneytið getur þá lagt áherslur þar sem nefndin hefur að sjálfsögðu líka rætt, og tillögur í samgöngumálum, menntamálum og heilbrigðismálum höfum við undirbyggt í góðu samstarfi við tiltekin ráðuneyti þannig að við teljum þær faglega sterkar og faglega unnar.

Aðeins varðandi menntamálin, háskólastigið og framhaldsskólastigið. Áhersla okkar í breytingartillögunum er á verkmennt í framhaldsskólum og iðnnám, og að við getum nú loksins farið að sækja fram á nýjan leik á því sviði. Á háskólastiginu þekkjum við mörg rekstrarvanda háskólakerfisins. Háskólar eins og aðrar stofnanir hafa þurft að ganga í gegnum niðurskurð á undanförnum árum en hafa hægt og bítandi verið að sækja í sig veðrið á nýjan leik, og hvort sem það eru háskólar á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni horfum við til þeirra. Við nefnum þá suma, nefnum ekki alla, nefnum t.d. ekki Háskólann á Bifröst sem er sannarlega einn af þeim skólum sem við viljum að horft verði til við útfærslu á þeim fjármunum sem við gerum tillögu um að verði lagðir til háskólastarfsins. Samstaða er um það í hv. fjárlaganefnd að vinna með þeim hætti og horfa til allra háskóla. En að endingu: Við umfjöllun um háskólastigið fjöllum við sérstaklega um Listaháskóla Íslands og rekstrarvanda hans. Við gerum þar breytingartillögu um að þar verði sérstaklega horft til átaks í rekstri hans. Óhjákvæmilegt er að horfa líka til Laugarvatns. Við fjöllum um það sérstaklega í nefndarálitinu að vegna þess að Háskóli Íslands lagði þar niður starfsemi, við þekkjum mörg þá umræðu, því leggjum við fram tillögu um að settir verði peningar til að byggja upp starfsemi á Laugarvatni á nýjan leik.

Við ræddum ítarlega um heilbrigðismál. Eins og ég gat um í upphafi framsögunnar fengum við Landspítalann til fjárlaganefndar og við fórum ítarlega yfir rekstrarstöðu spítalans. Við gerum fjölmargar og fjölþættar tillögur til breytinga um fjármögnun heilbrigðiskerfisins sem ekki snúast eingöngu um Landspítalann sjálfan heldur um að undirbyggja aðgerðir sem geta til lengri tíma leyst rekstrarvanda margra heilbrigðisstofnana.

Ég bið aftur hv. þingmenn að hafa í huga að við erum líka að flétta þetta saman við fjárauka þessa árs og frumvarp til lokafjárlaga. Með tillögum okkar teljum við að við séum búin að koma heilbrigðisstofnunum landsins upp á núllið sem er mjög mikilvægt að við höfum getað gert á þessu stigi þegar ný opinber fjárreiðulög taka gildi því að þau ein og sér munu verulega breyta aðhaldi í rekstri stofnana og utanumhald. Við erum líka að horfa til landsbyggðarstofnana okkar. Þar hefur safnast upp hali og verið rekstrarvandi á mörgum landsbyggðarheilbrigðisstofnunum, hvort sem við horfum til Suðurlands eða heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum.

Rétt er að nefna áður en ég lýk umfjöllun um heilbrigðismál að þess var getið sérstaklega, við framlagningu fjárlagafrumvarpsins við 1. umr., að ekki hefði tekist að koma þar inn fjármögnun vegna nýs greiðsluþátttökukerfis. Fjárlaganefnd gerir tillögu um að fjármagna það greiðsluþátttökukerfi en þó með þeirri breytingu sem áður hefur verið rædd, að þau kerfi sem greiðsluþátttökukerfið mun þurfa að notast við, tölvukerfi og gagnagrunnar, verða ekki tilbúin á þeim tíma. Þess vegna frestast innleiðing kerfisins um eina þrjá mánuði sem leiðir aftur til að aðeins minni fjármuni þarf til þess.

Þessar tillögur okkar í heilbrigðismálum bætast síðan við mjög umfangsmiklar tillögur sem unnið hefur verið að á árinu sem er að líða, sem breyta verulega starfsumhverfi hjúkrunarheimila og tengjast núna þingmáli er varðar t.d. eftirlaunaskuldbindingar og slíka þætti. Á þessu ári hefur því náðst verulega stór áfangi í að bæta rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila. Það er að sjálfsögðu okkar stóra áskorun til skemmri og lengri tíma, að takast á við hækkandi aldur þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að rekja með ítarlegri ræðu um aðra þætti breytingartillagna okkar en fjalla aðeins um að þar eru að sjálfsögðu fjölmargar minni tillögur, eins og stuðningur við ýmis setur, listastofnanir og menningarstofnanir allt í kringum landið, sem við þurfum að koma í betra horf og þurfum að taka sérstaklega á fyrir næstu fjárlagagerð hvernig við stöndum að. Segjast verður eins og er að þetta er of laust í reipunum hjá okkur, þó svo að ég ætli ekki að segja að það sé á einhvern hátt þannig unnið að þar hafi orðið mistök. En við þurfum að koma því í fastara form.

Ég gat þess líka í upphafi að það verða alltaf einhver mistök þegar unnið er hratt á stuttum tíma. Þess vegna er heimildargrein sem við gerum núna breytingartillögu um að hætti að heita 5. gr. eins og er í nýju fjárlagafrumvarpi, heldur fáum við 6. gr. heimildarnafnið aftur. Þá þurfum við að endurskoða hana og aðra þætti milli umræðna. Og það mun leiða af samþykkt annarra þingmála í dag, vonandi, að við þurfum að gera breytingu á fjárlagafrumvarpi fyrir 3. umr., t.d. vegna þess að í frumvarpinu er reiknað með hærri iðgjöldum af launum hins opinbera heldur en niðurstaðan verður verði þingmálið um lífeyrissjóði að lögum.

Ég vil að endingu aðeins segja það, og það er ekkert aðeins í því, að starf undanfarinna vikna sem hefur verið mikið og strembið meðal allra flokka er í mínum huga til mikillar fyrirmyndar. Það hefur verið heilt og gott. Í þingnefndinni hefur skapast gott traust milli fólks sem er óskaplega dýrmætt. Ég hef ekki langa þingreynslu. Ég þekki hins vegar alveg átök og pólitískan ágreining. En við þessar aðstæður held ég að þingið hafi sýnt sína bestu hlið og sýnt að það er líka hægt að vinna með þeim hætti. Því þakka ég samnefndarmönnum sérstaklega samstarfið á undanförnum vikum og dögum. Að geta komið þessu á þennan stað, hingað inn í þingsal, í slíkri sátt sem við gerum er ekki verk eins manns, það er verk alls hópsins.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið framsögu minni.