146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[13:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Fjárlagagerðin núna fer vissulega fram við óvenjulegar aðstæður þegar ekki er starfandi ríkisstjórn eða meiri hluti í þinginu. Ég vil segja að það er einstaklega ánægjulegt að sjá hvernig þinginu hefur engu að síður tekist að koma saman í þessu mikilvæga máli, ná hér saman um heildstæðar breytingartillögur sem allir flokkar standa að þar sem m.a. er að finna verulega aukna áherslu á heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál.

Ég held að megi segja að mín reynsla sem nýs þingmanns er afskaplega ánægjuleg af þessu ferli. Vonandi er hér eitthvert verklag sem við getum tileinkað okkur betur framtíðinni þar sem leitað verður aðeins breiðari sáttar um megináherslur í fjárlagafrumvarpi hvers árs.

Ég verð þó að segja að æskilegt hefði verið í ljósi þess hvernig við höfum unnið í þessu máli að betri samstaða hefði náðst um örlítið meiri mótvægisaðgerðir í frumvarpinu. Það er alveg ljóst að útgjöld fjárlagafrumvarpsins aukast mjög mikið milli ára og enn er bætt í með þeim breytingartillögum sem við sammælumst um hér. Æskilegt hefði verið að stærri hluti af því hefði verið í formi forgangsröðunar, þ.e. að við hefðum fundið einhvern niðurskurð annars staðar.

En það er einmitt í því samhengi sem rétt er að hafa í huga að við erum núna í mikilli efnahagsuppsveiflu. Við sjáum þenslumerkin mjög víða. Það má vissulega leiða að því líkur að við séum við efri mörk þanþols. Það er einmitt þá sem reynir mjög á ríkisfjármálin. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki, viðskiptahalli hefur verið góður en vöruskiptahalli eykst ansi mikið og hratt á þessu ári og stefnir í á annað hundrað milljarða. Gengi krónunnar hefur styrkst mun meira en góðu hófi gegnir og er þegar farið að sverfa mjög að undirstöðuatvinnugreinum eins og sjávarútvegi og ferðaþjónustu, sem hefur einna helst stuðlað að hinni miklu gengisstyrkingu. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við gætum okkar. Seðlabanki hefur haldið vöxtum háum vegna þessa þensluástands og vegna óvissu um ríkisfjármál, sem ýtir svo enn og aftur undir frekari styrkingu krónunnar.

Ég held að öllum hér sé ljóst að hagvöxtur, drifinn áfram af vexti útflutningsgreina, er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur. Það er einmitt það sem hefur verið svo gott við núverandi uppgangsskeið í íslensku efnahagslífi, hversu frábrugðið það er öðrum sambærilegum skeiðum. Við sjáum hagvöxt drifinn áfram af útflutningsgreinunum ár eftir ár eftir ár. Enn getum við sagt að þær paufist áfram þrátt fyrir hátt gengi og standi undir þorra hagvaxtar á þessu ári. Það sem er líka ánægjulegt að sjá er hvernig íslenskir neytendur, heimilin, hafa lært af síðustu efnahagsniðursveiflu og nýtt gott árferði núna til að greiða niður skuldir og styrkja stöðu sína og standa sterkar en árum saman. Sama má segja um íslenskt atvinnulíf sem hefur nýtt þessa miklu uppgangstíma til að styrkja stöðu sína enn frekar. Við stöndum því að mörgu leyti mjög sterk.

Það er hins vegar ákveðið áhyggjuefni hversu lítt aðhaldssöm ríkisfjármálin eru við þessar kringumstæður. Það má segja að þar höfum við kannski ekki lært nægilega mikið. Við horfum upp á fjárlög sem auka útgjöld milli ára um eina 70 milljarða kr., eða 10% af frumútgjöldum ríkissjóðs og liðlega það, þrátt fyrir ítrekuð aðvörunarorð aðila um aðhaldssemi í útgjaldaþenslu ríkisins.

Þetta er eitthvað sem við verðum að taka til okkar. Þó svo að við í 3. minni hluta hjá Viðreisn stöndum fyllilega að baki þeim breytingartillögum sem hér eru gerðar, sem vissulega auka enn frekar á útgjaldaaukningu, brýnum við enn og aftur mikilvægi þess að við sýnum meira aðhald í þeim efnum. Við gætum þess líka að oft eru tækifæri til hagræðingar á þessum tímum og það sem við hefðum gjarnan viljað sjá meiri merki um í fjárlagavinnunni er enn ríkari áhersla á niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs við þessar hagstæðu aðstæður, t.d. með sölu eigna, og þannig yrði dregið úr þeirri gríðarlegu vaxtabyrði sem ríkissjóður býr við og hefur búið við allt frá hruni. Því miður virðist svo vera, samkvæmt gildandi fimm ára fjármálaáætlun, sem við ætlum að búa við þessa vaxtabyrði áfram.

Það er í því samhengi sem við tökum þetta frumvarp til umræðu. Við bætum inn frá fyrri umræðu um það bil 10 milljörðum í útgjöld. Mig langar aðeins að fara yfir það í máli mínu á eftir hvers vegna við styðjum þá áherslubreytingu sem þarna er að finna. Það sem mig langar að tæpa á áður en út í það er farið er að við skilum hér fyrstu fjárlögum á grundvelli nýrrar löggjafar um opinber fjármál. Þótt ég sé vissulega að koma að þessari vinnu í fyrsta skipti hef ég fylgst með henni í gegnum árin og ég hefði viljað sjá meiri breytingar, ef ég segi eins og er, í vinnubrögðum og verklagi þingsins. Ég held að við þurfum að draga lærdóm af því hvernig við nálgumst þetta viðfangsefni núna. Það má t.d. gagnrýna að við undirbúning voráætlunar eða ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára virðist afskaplega lítil efnisleg umræða hafa farið fram. Það held ég að sé lærdómur okkar fram á veginn. Þar á hin eiginlega fjárlagaumræða að fara fram, gagnvart útgjaldaáætlun til næsta árs. Fjárlög eins og þau koma til þingsins að hausti ættu að taka lágmarksbreytingum til að viðhalda þeirri festu og þeim stöðugleika sem ætlunin er að ný löggjöf skili okkur. Þetta er gríðarlega mikilvægt að við höfum í huga, væntanlega á næsta ári þegar við hefjum umræðu um nýja ríkisfjármálaáætlun.

Vinnubrögðin eru því miður dálítið gamalkunnug þrátt fyrir nýja löggjöf. Það verður að minnast á samhljóða samþykkt þingsins á nýrri samgönguáætlun í haust sem fól í sér útgjaldaauka upp á 15 milljarða umfram nýsamþykkta ríkisfjármálaáætlun, sem þingið hafði samþykkt fáeinum vikum fyrr. Hún felur í sér talsvert aðhaldsleysi, talsvert taumleysi við fjárlagagerðina sem við þurfum að bæta úr.

Þegar kemur að einstökum áherslum í breytingartillögum þeim sem hér eru lagðar fram er fyrst að nefna heilbrigðismálin, sem eru gríðarlega mikilvægur málaflokkur. Þar eru útgjöld aukin frá 1. umr. upp á um 5 milljarða. Að auki er komið til móts við þarfir ýmissa stofnana í fjárauka. Í heild eru útgjöld til heilbrigðismála aukin um 17 milljarða á milli ára. Það eru nærri 10% af heildarútgjöldum til þessa málaflokks, sem skiptir miklu máli. Við þekkjum öll þær áskoranir sem eru fram undan, hversu mikil þörf er á auknu fjármagni til heilbrigðiskerfisins, bæði til þess að endurreisa það eftir fjársvelti undangenginna ára en ekki síður til þess að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru þegar við horfum á öldrun þjóðarinnar og þann kostnað sem henni fylgir.

Þarna þurfum við að hugsa til langs tíma. Hér er stigið mjög mikilvægt skref. Það eru veittir umtalsverðir fjármunir til viðbótar til Landspítalans til þess að taka á annars vegar því að styrkja rekstrargrunn spítalans og taka á þeim vandamálum sem þar eru í viðhaldi og fleiri þáttum en ekki síður til annarra stofnana sem geta stutt við spítalann í þeim fráflæðisvanda sem hann glímir við. Er gríðarlega mikilvægt skref tekið þar að mínu viti sem er gott upphaf í málaflokknum. Þetta er málaflokkur sem við eigum eftir að þurfa að styrkja enn frekar á komandi árum, en þetta fyrsta skref rímar ágætlega við þær áherslur sem við hjá Viðreisn höfum haft og lögðum áherslu á í aðdraganda kosninga.

Það er þó eitt sem því miður var lítið tekið á í þessu og þarf kannski betri undirbúning. Við hefðum viljað sjá aukið fjármagn lagt til greiðsluþátttöku varðandi geðheilbrigðismál. Það er alveg ljóst að þar verðum við að bæta verulega úr og við höfum allt of lítinn metnað í þeim málaflokki. Við eigum að sjálfsögðu að fella þennan mikilvæga málaflokk undir greiðsluþátttöku ríkissjóðs með nákvæmlega sama hætti og aðra grundvallarþjónustu í heilbrigðiskerfinu okkar. Í okkar huga er þetta sennilega eitt stærsta fjárfestingartækifæri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi í dag því að við vitum jú að aukinn metnaður í geðheilbrigðismálum okkar, sér í lagi aukinn stuðningur við ungt fólk sem á við vanda að glíma í þeim efnum, skiptir gríðarlegu máli í framtíðinni og getur sparað ríkissjóði stór útgjöld auk þess að stórauka lífsgæði viðkomandi einstaklinga.

Í velferðarmálum er ansi myndarlega tekið á í þessum fjárlögum. Útgjöldin eru hækkuð á heildina litið um nærri 30 milljarða þegar tillit hefur verið tekið til þess að tæplega 17 milljarða útgjöld falla út milli ára vegna leiðréttingarinnar, að henni sé lokið. Hér ber hæst þær breytingar sem samþykktar voru á nýliðnu þingi varðandi almannatryggingar. Það er mjög mikilvægt skref sem Viðreisn styður heils hugar. Það er hins vegar óloknu verki þar hvað varðar öryrkja. Það er mikilvægt fyrir þingið að taka á því á komandi ári og alveg ljóst að okkar bíða aukin útgjöld. En það sem skiptir enn meira máli er að við náum fram ákveðinni hugarfarsbreytingu í baráttu okkar á því sviði, að við leggjum stóraukna áherslu á starfsendurhæfingu, starfsgetumat í stað örorkumats, í takt við þær áherslur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa m.a. barist fyrir árum saman. Það er áhyggjuefni að nær 10% fólks á aldrinum 18–66 ára þiggja örorkubætur í dag. Þetta hlutfall hefur þrefaldast á þremur áratugum. Það er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið en ekki síður gríðarleg lífsskerðing fyrir viðkomandi einstaklinga og við eigum að geta gert svo miklu betur í því að koma í veg fyrir að fólk endi á örorku vegna tímabundinna vandamála. Því miður er það í mínum huga einfaldlega svo að núverandi kerfi okkar í örorkumálum virðist byggt upp til að útskrifa fólk á örorku í stað þess að reyna að koma í veg fyrir að það endi þar og hjálpa því til starfa á nýjan leik.

Í menntamálum eru gerðar tillögur um talsverða aukningu útgjalda, alls tæplega 2 milljarða kr. Þar af eru 400 millj. kr. veittar til framhaldsskólastigsins og um 1.200 millj. kr. veittar til háskólastigsins. Þetta eru allt saman mjög brýn verkefni sem eru lögð til. Það veldur mér hins vegar ákveðnum vonbrigðum að við hefðum viljað sjá meiri áherslu á háskólastigið, að við værum að stíga markvissari skref í átt að því markmiði okkar að gera framlög til háskóla á hvern háskólanemanda sambærileg við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Ég held að afar brýnt sé að við tökum þennan málaflokk fastari tökum á komandi misserum.

Í samgöngumálum er verið að bæta inn tæplega 5 milljörðum kr. og verður ekki dregið úr mikilvægi þessa viðfangsefnis. Þar ber hæst að nefna 2,5 milljarða viðbót í viðhald. Ég held að við getum öll verið sammála um að þessi liður hefur verið verulega fjársveltur á undanförnum árum. Með stóraukinni umferð um þjóðvegi landsins samhliða mikilli aukningu í ferðaþjónustu er gríðarlega brýnt að bæta myndarlega í. Þetta snýr að öryggi vegfarenda og er mjög ánægjulegt að sjá svo myndarlegt skref tekið í þessum fjárlögum. Því til viðbótar er ráðist í nokkurn fjölda viðbótarframkvæmda. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi þeirra framkvæmda en þó er rétt að minna á að þetta er kannski ekki heppilegasti tíminn til að bæta svo mikið í nýframkvæmdir, fyrir utan hið augljósa að það er nokkuð ljóst að ríkissjóður fær kannski ekki alveg bestu verð í framkvæmdirnar við núverandi kringumstæður í efnahagslífinu.

Að lokum eru lagðar til 400 millj. kr. til viðbótar í tímabundið framlag til löggæslu og 100 millj. kr. í tímabundið framlag til Landhelgisgæslunnar, hvort tveggja brýn verkefni og nokkuð sem við styðjum heils hugar hjá Viðreisn.

Fleiri orð ætlaði ég ekki að hafa um þetta.