146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[13:56]
Horfa

Frsm. 5. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Fimmti minni hluti áréttar þau markmið sem fjárlaganefnd leggur til í sameiginlegri breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið. Nú eru sérstakar aðstæður á þingi, starfsstjórn og enginn skýr meiri hluti. Þrátt fyrir það, eða kannski vegna þess, vann nefndin mjög vel saman og af heilum hug að því að skila af sér breytingum við fjárlagafrumvarpið sem allir gátu sammælst um að væru nauðsynlegar. Minni hlutinn lagði sérstaka áherslu á að nefndin og þingið skilaði af sér fjárlagafrumvarpi sem byndi ekki hendur næstu ríkisstjórnar til þess að geta hafið nauðsynlegar aðgerðir miðað við þær áherslur sem sú ríkisstjórn mundi setja sér. Almennt séð ætti fráfarandi ríkisstjórn að skila af sér fjárlagafrumvarpi sem veitti svigrúm fyrir þá ríkisstjórn sem tekur við til að geta strax látið til sín taka í þeim málefnum sem hún leggur áherslu á. Minni hlutinn telur þetta mjög mikilvægt til þess að það sé samfella úr kosningum í aðgerðir, svo að sú ríkisstjórn sem tekur við þurfi ekki að bíða í heilt ár eftir að hún hefur sett sér fjármálastefnu sína og fjármálaáætlun eftir því að geta farið í þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar. Á þann hátt væri hún að vinna eftir stefnu fyrri ríkisstjórnar þrátt fyrir að hafa hlotið annað umboð í kosningum.

Aðeins um verklag nefndarinnar. Vegna þess hversu seint fjárlagafrumvarpið var lagt fram á Alþingi sammæltist nefndin um að skila af sér breytingum í nokkrum málaflokkum, heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum og löggæslumálum, ásamt því að leggja til breytingar á tekjuáætlun til móts við útgjaldatillögur í framangreindum málaflokkum. Nefndin fékk mjög stuttan tíma — mjög stuttan tíma — til þess að fara yfir umsagnir og til þess að ná einhverri heildarsýn yfir frumvarpið. Þar hjálpuðu þó ný lög um opinber fjármál þar sem efnisleg umræða hafði þegar farið fram um fjármálaáætlun ársins 2017. Nýtt verklag stangaðist hins vegar dálítið á við eldra verklag og í sameiningu urðu framangreind atriði, þ.e. hversu seint frumvarpið var lagt fram, hversu stuttan tíma nefndin fékk til þess að fjalla um frumvarpið og að fjárlagafrumvarp var í fyrsta sinn afgreitt eftir nýjum lögum um opinber fjármál, til þess að meðferð nefndarinnar á frumvarpinu hefði getað verið betri. Þrátt fyrir þessar aðstæður voru nefndarmenn afar lausnamiðaðir og fóru mjög ítarlega yfir umsagnir ráðuneyta og þá málaflokka sem nefndin valdi að leggja sérstaklega áherslu á. Vegna þessara aðstæðna verður enn ríkari ástæða til þess að fylgja eftirliti með framkvæmd fjárlaga mjög vel eftir, eins og er tilgreint sem markmið í 1. gr. laga um opinber fjármál. Það er þeim mun mikilvægara að eftirlitshlutverkinu sé fylgt með þessum fjárlögum vegna þess hve yfirferð þeirra var stutt í meðförum þingsins við þessar aðstæður.

Aðeins um aðstæður nefndar. Við tökum við fjárlögum sem eiga að byggja á fjármálaáætlun. Hins vegar voru þau fjárlög 23 milljörðum, eða 3% af útgjöldum ríkisins, umfram fjármálaáætlun. Þar var horfið það svigrúm sem maður hefði haldið að maður gæti tekið við. Það þýddi að við þurftum að grafa eftir tekjum til þess að fjármagna þær breytingar sem við töldum nauðsynlegar til að hægt væri að samþykkja eða hleypa fjárlagafrumvarpinu í gegn. Að lokum endaði sú upphæð í 12,6 milljörðum, sem er þá 1,5% í viðbót af útgjöldum ríkisins. Það var ekki auðvelt verk en einhverra hluta vegna gekk það í núverandi aðstæðum. Þetta var mjög áhugavert, verð ég að segja.

Herra forseti. Aðeins um málaflokkana. Varðandi löggæsluna var gerð breytingartillaga á málefnasviði almanna- og réttaröryggis upp á 500 millj. kr. Vegna aukins álags, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna, og nauðsynjar þess að hafa virka hálendisvakt, þótti nauðsynlegt að veita meira fé til þessara mála.

Þá um samgöngur Nefndin fékk það áhugaverða hlutverk að fjármagna nýsamþykkta samgönguáætlun Alþingis, sem var þá ófjármögnuð, og miðað við þær aðstæður að það var þegar búið að úthluta 23 milljörðum aukalega umfram fjármálaáætlun var þetta mjög áhugavert verkefni. Við lausn á því hafði nefndin til hliðsjónar forgangsröðun Vegagerðarinnar og lagði þar að auki áherslu á viðbótarframlag til viðhalds upp á 2.500 millj. kr. Verkefnin eru mörg og mjög brýn. Nefndin hefði tvímælalaust viljað leggja meira til samgöngumála og verður það verkefni næstu ríkisstjórnar að taka við því verkefni og bæta við.

Um menntamál. Samtals leggur nefndin til 1,7 milljarða kr. til viðbótar til framhaldsskóla- og háskólastigsins, 400 millj. kr. til framhaldsskólastigsins til þess að brúa það bil sem annars yrði í rekstri þangað til kerfisbreytingu um styttingu skólaárs lýkur. Samtals eru lagðir 1,3 milljarðar kr. til háskólastigsins til þess að mæta áætluðum rekstrarhalla og til þess að byggja upp tækjakost skólanna sem hafa þurft að fara sparlega í slíkum útgjöldum á undanförnum árum. 5. minni hluti gerir samt almenna athugasemd við það að fjárveitingar fari til þess að styrkja rekstrargrundvöll skóla sem innheimta skólagjöld af nemendum sínum og að verkefni sem nýtast öllum skólum séu eyrnamerkt einum tilteknum skóla. Það þarf að vinna markvisst að því á næstu árum að uppfæra reiknilíkan skólanna sem styrkir rekstrarforsendur þeirra allra.

Nefndin lagði mestan tíma í heilbrigðismálin. Langmestur tími fór í vinnu við breytingartillögur um heilbrigðismál en í nýliðnum kosningum lögðu flestir flokkar höfuðáherslu á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Því markmiði verður ekki náð með þessum fjárlögum en það var einlægur vilji nefndarinnar að heilbrigðisstofnanir hefðu a.m.k. tækifæri til þess byrja á núlli og möguleika á að koma í veg fyrir hallarekstur. Fimmti minni hluti telur, eftir að hafa rýnt í tölurnar og gögnin sem nefndin fékk aðgang að, að því markmiði hafi verið náð. Stofnanir heilbrigðiskerfisins ættu að geta sinnt nauðsynlegri þjónustu við landsmenn án þess að enda í mínus. Það er hins vegar margt sem getur farið úrskeiðis og verður það því verk okkar þingmanna að sinna eftirliti með því hvernig þessum fjármunum sem við leggjum til heilbrigðiskerfisins verður varið. Það er algerlega nauðsynlegt að þeim 500 millj. kr. sem ætlað er til þess að leysa útskriftarvandann verði varið á þann hátt að sjúklingar komist af spítalanum, komist í hjúkrun og nýir sjúklingar komist að. Ef nýir sjúklingar komast ekki að virka hinir peningarnir ekki neitt, hafa ekkert að segja. Þá hefðum við alveg eins getað sleppt þessu. Þetta er gríðarlega mikilvæg keðja af verkefnum sem þurfa öll að takast til þess að þessi fjárveiting skili sér með tilætluðum árangri.

Fimmti minni hluti setur sér það lágmark að fjárlög 2017 skiluðu heilbrigðiskerfinu réttum megin við núllið í rekstrarafkomu. Eftir að hafa farið yfir gögn málsins komst 5. minni hluti að því að sú upphæð þyrfti að vera 7,5 milljarðar. Þá upphæð er að finna í fjárlagafrumvarpinu og þeim breytingum sem fjárlaganefnd leggur til við frumvarpið. Þeirri upphæð er skipt á milli nokkurra málefnasviða og málefnaflokka og í sameiningu þurfa margir að ná þeim markmiðum sem sett voru. Mjög lítið þarf út af að bregða til þess að heildarmarkmiðið náist ekki. Píratar verða vægðarlausir í eftirliti með því að þessum fjármunum verði varið á sem skilvirkastan hátt. Ábyrgð framkvæmdarvaldsins í þessu máli er gríðarlega mikil að mati Pírata. Þetta skiptir öllu máli. Þetta eru engir smáræðispeningar sem við leggjum í þetta og það er eins gott að þeim verði varið á skilvirkan og árangursríkan hátt.

Um markmið nefndarinnar. Nefndin setti sér þau markmið að skila fjárlögum þar sem heilbrigðiskerfið og menntakerfið þyrfti ekki að þola hallarekstur. Nefndin taldi að breytingartillögur hennar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 næði því markmiði og að ný ríkisstjórn, hver sem hún yrði, tæki við ásættanlegum rekstri og bætti í eftir áherslum þeirrar ríkisstjórnar. Það var því þannig að allir vildu gera betur, þó á mismunandi sviðum, en nefndin mættist á miðri leið þannig að niðurstaðan varð ásættanleg fyrir alla aðila. Til að ná þessum markmiðum var víða leitað lausna, m.a. í lokafjárlögum fyrir árið 2015 og fjáraukalögum fyrir árið 2016, sem og hvernig afla ætti tekna fyrir þeim útgjöldum sem nefndin lagði til. Stundum stóð ansi tæpt á því hvort samkomulag næðist um sameiginlega breytingartillögu. Lengi framan af, á meðan nefndarmenn voru enn að tjá væntingar sínar, var alls ekki ljóst hvort niðurstaða næðist. Það hefði þýtt sjálfstæðar breytingartillögur frá öllum flokkunum sem hefðu líklega ekki skilað neinum breytingum á fjárlagafrumvarpinu að loknum atkvæðagreiðslum um þær breytingar eða að útgjöld hefðu verið samþykkt en engar tekjuleiðir á móti, jafnvel að fjárlögin hefðu ekki verið samþykkt almennt. Það hefði verið mjög alvarlegt.

Fimmti minni hlutinn bindur því vonir við að breytingartillögurnar skipti sköpum við framkvæmd fjárlaga, ekki bara á þeim málefnasviðum sem nefndin einbeitti sér að, heldur að áhrif breytinganna finnist víðar.