146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. 6. minni hluta (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um fjárlög sem hafa verið unnin við mjög sérstakar aðstæður og alveg ljóst að ekki verður tekist á við hinar stóru pólitísku spurningar þetta árið, ólíkt því sem við erum vön. Það stafar fyrst og fremst af því að frumvarpið er lagt fram af starfsstjórn sem styðst ekki við meiri hluta hér á þingi og af þeim sökum ákváðu þingmenn að ná samkomulagi um tiltekin stór mál, en vænta þess um leið að þegar nýr pólitískur meiri hluti myndast á Alþingi verði fjallað um hinar pólitísku línur í sérstöku fjáraukalagafrumvarpi árið 2017. Af þeim sökum er margt sem ekki verður fjallað um við afgreiðslu þessa frumvarps. En meginniðurstaðan er að við höfum komist að samkomulagi um mikilvægar viðbætur til heilbrigðismála, menntakerfis og samgöngumála. Ég vil sérstaklega geta þess að hér er líka um að ræða aukið framlag til skatteftirlits og skattrannsókna.

Fjárlagafrumvarpið er líka með nýstárlegum brag sem skýrist af því að frumvarpið er núna lagt fram á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál, sem tóku gildi 1. janúar á þessu ári. Framsetning skjala er töluvert öðruvísi en verið hefur. Hún veldur því líka að ekki er sérstaklega auðvelt að gera samanburð við fyrri fjárlagafrumvörp, fjárlög eða fjáraukalög, þrátt fyrir að inntak og heildarsvipur þessa frumvarps beri merki fjármálastefnu, áætlunar og efnahagsstefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem sat að völdum þegar slíkt var sett, þ.e. bæði áætlunin og stefnan.

Stefna sérhverrar ríkisstjórnar varðandi tekjuöflun og útgjöld ríkisins er í senn einkennandi fyrir heildarmarkmið hennar og afmarkandi fyrir samneysluna og sameiginleg verkefni landsmanna. Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög hvers árs eru mikilvægustu stefnumörkunarskjöl stjórnvalda á gildistíma þeirra enda ræðst grunngerð samfélagsins af þeim og á þeim veltur að miklu leyti hvort í samfélaginu ríkir jöfnuður og félagslegt öryggi.

Eins og áður segir urðu þau tíðindi við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins að víðtækara samkomulag tókst með fulltrúum ólíkra og að ýmsu leyti andstæðra stjórnmálaafla um innihald þeirra en að jafnaði hefur náðst þegar fjárlög eru afgreidd með fyrir fram ákveðnum þingmeirihluta sem stendur að baki hverrar ríkisstjórnar. Með því tel ég að þingmenn hafi tekist á við ábyrgð sína gagnvart samfélaginu og stjórnskipulega skyldu því að málamiðlun var nauðsynleg við þessar aðstæður. Og þótt samkomulag tækist er það engum vafa undirorpið að ég hefði kosið að haga mörgu með öðrum hætti og lagt aðrar áherslur í samræmi við stefnu flokksins í fjármálum ríkisins og samfélagsmálum en tök voru á að þessu sinni. En þessar sérstöku aðstæður kalla auðvitað á málamiðlanir allra flokka og eins og áður sagði verður kannski pólitísk umræða að bíða þess að ný ríkisstjórn verði mynduð.

Efnahagsástandið hér á landi einkennist af hagvexti og hefur svo verið frá árinu 2011. Yfirstandandi hagvaxtarskeið er með þeim allra lengstu, jafnvel hið lengsta, sem íslenskt samfélag hefur kynnst og enn fremur hefur hagvöxtur verið mjög ör á sumum tímabilum innan þess, svo sem nú undanfarna mánuði eftir nokkurn slaka árið 2014 og fram á árið 2015. Þannig greinir Hagstofan frá því að landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi þessa árs varð 10,2% hærri að raungildi en landsframleiðsla sama ársfjórðungs í fyrra og hefur svo mikill vöxtur ekki sést síðan árið 2007, sem oft er nefnt sem dæmi um eitthvert mesta þensluár síðari tíma.

Veltuaukning hefur orðið á mörgum sviðum, svo sem í allri verslun, byggingarstarfsemi og fasteignasölu að ógleymdum rekstri gisti- og veitingastaða. Orsakir hagvaxtar og þenslu er framar öðru að finna í hinni miklu uppsveiflu ferðaþjónustunnar á undanförnum árum. Ferðaþjónustan aflar þjóðarbúinu mikilla gjaldeyristekna og er því hagvöxturinn drifinn áfram af útflutningi, einkaneyslu og fjármunamyndun. Nú er svo komið að ýmis augljós merki gefa til kynna að efnahagsþenslan keyri úr hófi fram og brýnt sé orðið að reisa skorður við henni eigi ekki illa að fara.

Áætlanir fráfarandi ríkisstjórnar um ríkisfjármál og stefna í þeim efnum einkenndust af hægri stefnu þar sem slakað var á tekjuöflun ríkisins og stöðugir tekjustofnar ríkissjóðs markvisst rýrðir eða lagðir af. Svo rammt kvað að þessu að á þeim rúmu þremur árum sem kjörtímabil fráfarandi ríkisstjórnar varði afsöluðu stjórnvöld ríkissjóði tekjum upp á 50 til 60 milljarða kr. Það varð heldur ekki til að bæta úr skák að skattkerfisbreytingar sem gerðar voru áttu það sammerkt að koma þeim fyrst og fremst til góða sem búa við góðan efnahag. Skattheimtu ríkisins var með öðrum orðum hagrætt í þágu hinna efnameiri og ríku en á kostnað þeirra sem reiða sig á velferðarkerfið.

Fulltrúi Vinstri grænna fellst ekki undir neinum kringumstæðum á forgangsröðun fráfarandi stjórnvalda í skattamálum — hvorki sú sem hér stendur né flokkurinn í heild, ég tel hana í rauninni fráleita við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum og Seðlabankinn hefur tekið undir það þegar talað er um að ríkisstjórnin annars vegar og peningastefna Seðlabankans hins vegar horfi í sína áttina hvor — en telur hana öldungis fráleita við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum. Eins og nú horfir er með öllu tilefnislaust að draga úr skattheimtu heldur ætti miklu fremur að beita sköttum til að draga úr þenslunni og ríkissjóði í heild til þrýstingsjöfnunar í hagkerfinu í stað þess að stuðla að vexti í einkaneyslu eins og gert hefur verið. Í þessu sambandi er ekki hægt að láta undir höfuð leggjast að minnast þess að fráfarandi ríkisstjórn stóð að mjög sérstakri aðgerð til að auka svigrúm til einkaneyslu sem fólst í höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána á kostnað hinnar sameiginlegu tekjuöflunar. Skal þess og minnst að sterkur grunur er um að þessi dæmalausa ráðstöfun hafi fyrst og fremst bætt hag þeirra sem voru vel settir fyrir en ekki hafa enn fengist svör við spurningum sem fyrir alllöngu var beint til stjórnvalda um þessi mál og er það sannarlega ekki traustvekjandi.

Sitjandi starfsstjórn hefur takmarkað umboð til stjórnarstarfa og getur ekki tekist á hendur að gera róttækar eða umfangsmiklar ráðstafanir í efnahagsmálum né á öðrum sviðum. Engum getur þó dulist að mikil þörf er fyrir efnahagsráðstafanir sem taka mið af þeim aðstæðum sem nú eru uppi og munu valda knýjandi vanda fyrr en síðar ef ekki verður tekið á þeim af festu. Slíkar ráðstafanir er því miður ekki að finna í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Þessu frumvarpi var útbýtt á Alþingi 6. desember, löngu síðar en við erum vön en það kemur yfirleitt fram í byrjun september eftir að þing hefur verið sett og höfum við yfirleitt haft haustið til að ræða þau mál. Það gerði það að verkum að þjóðhagsspá Hagstofu Íslands fyrir nóvember var lögð því til grundvallar. Höfðu flestir þættir þjóðhagsspár tekið jákvæðum breytingum frá því fyrr á árinu.

Í ljósi þess hversu knappur starfstími fjárlaganefndar hefur verið ákvað nefndin að eiga ekki að þessu sinni fundi með fulltrúum einstakra sveitarfélaga og takmarka mjög fundahöld með fulltrúum einstakra stofnana. Einungis fulltrúar frá Landspítalanum og Vegagerðinni komu á fund nefndarinnar ásamt fulltrúum ráðuneyta. Fjárlaganefndarfólk hefur lagt á sig mikið starf við að ná saman um fjárlög á þeim nauma tíma sem til þess gafst. Þetta verkefni var að sjálfsögðu margháttuðum vandkvæðum bundið enda mjög ólík sjónarmið uppi meðal nefndarmanna sem koma úr sjö stjórnmálahreyfingum sem nú eiga setu á Alþingi. Engu að síður tókst að komast að sameiginlegri niðurstöðu, málamiðlun, sem byggist á faglegu og pólitísku starfi nefndarinnar. Samkomulag náðist um það í nefndinni að beina starfi hennar einkum að fjórum umfangsmiklum málefnasviðum; heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum og löggæslu- og öryggismálum. Í samræmi við það voru það einkum mál sem falla undir þessa flokka sem rædd voru á fundum nefndarinnar en einstakir fulltrúar hafa að sjálfsögðu gefið sig að öðrum málum einnig eftir því sem tími þeirra og aðrar kringumstæður leyfðu.

Það er sannarlega sérstakt að fyrsta fjárlagafrumvarpið með nýju og gerbreyttu sniði kom til umfjöllunar á vettvangi Alþingis við þær aðstæður sem eru. Telja má fullvíst að margir aðilar innan og utan ríkisgeirans hafi ekki áttað sig fyllilega á hinum gagngeru breytingum sem nýju lögin um opinber fjármál hafa valdið á framsetningu fjárlaga og hlutverki þeirra sem er nú mun takmarkaðra en það var áður þar sem stefnumörkun í ríkisfjármálum fer að mestu leyti fram við gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Sú umræða var því miður kannski ekki á þeim nótum þegar þær stefnur og áætlun voru lagðar fram eins og þurft hefði að vera.

Þar sem myndun nýrrar ríkisstjórnar hefur enn ekki tekist hefur slík stefnumörkun ekki átt sér stað. Það er hins vegar hlutverk Alþingis, óháð þessu, að samþykkja fjárlög. Þingheimur getur ekki vikist undan þeirri skyldu sinni enda yrði starfsemi ríkisins óðara um leið komin í óefni. Sú sem hér stendur er engu sáttari við fjármálastefnu fráfarandi ríkisstjórnar nú en fyrir síðustu alþingiskosningar. En ég tel að sá árangur hafi náðst í að bæta úr verstu ágöllum hennar að rétt sé við ríkjandi aðstæður að standa að samþykkt breytingartillagna sem miða í rétta átt og greiða götu frumvarpsins.

Við lögðum svo sannarlega okkar á vogarskálarnar til að breyta þessu frumvarpi. Við lýsum að sjálfsögðu eindregnum stuðningi við þær breytingartillögur sem lagðar eru fram til að bæta stöðu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins og annars sem hér er undir. Vissulega er ekki allur vandi leystur en þessar viðbætur eru mikilvæg skref til að rétta af slaka stöðu heilbrigðis- og menntastofnana sérstaklega. Þá eru viðbætur til samgöngumála vissulega mikilvægar þó að fjarri sé að þær dugi til að fjármagna samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir skömmu síðan. Ákveðnar viðbætur eru lagðar til í skatteftirlit og skattrannsóknir, eins og ég sagði áðan, og er það mikilvægt skref til að taka á þeirri meinsemd sem skattundanskot eru í samfélaginu. Við teljum hins vegar ekki nóg að gert og ég fjalla nánar um það á eftir.

Ég ætla aðeins að fara yfir það ásamt fleiru sem við tókum fyrir í nefndinni. Ég get tekið undir að þær breytingar sem gerðar voru á fjárhæðum lífeyris í almannatryggingakerfinu, með lögum um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, miðuðu í rétta átt að ýmsu leyti en ég verð þó að benda á að þau ganga allt of skammt í því að tryggja öryrkjum og öldruðum sómasamleg lífskjör. Þetta á sérstaklega við um öryrkja sem hljóta ekki sömu kjarabætur og eftirlaunaþegar og raunar eru kjör þeirra lífeyrisþega sem minnst bera úr býtum engan veginn sæmandi, hvorki fyrir þá né samfélag okkar. Svo ólánlega tókst til við lagabreytingarnar, sem voru samþykktar nú í haust, að munur á kjörum einstæðra og sambúðar- og hjónafólks jókst þeim síðarnefndu í óhag, þ.e. ef þú ert einstæður ertu mun betur staddur því að þetta byggist allt á sérstakri heimilisuppbót sem einstaklingar fá en ekki hjón. Ég tel engin málefnaleg rök styðja það fyrirkomulag og ég tel að við þurfum að bæta úr því.

Það er svo sem mörgu enn ábótavant varðandi kjör þessa hóps, þ.e. bæði eldri borgara og öryrkja. Við verðum því að benda á hið augljósa að lífeyrisgreiðslur þeirra eiga að fylgja launaþróun á vinnumarkaði og fjárveitingar til málaflokksins eiga að sjálfsögðu að vera í samræmi við það.

Ljóst er að ástandi mála í sjóðakerfi listgreinanna er stórlega ábótavant og margar mikilvægar menningarstofnanir eru undirfjármagnaðar. Gera þarf áætlun um fjölgun listamannalauna og setja nýja sóknaráætlun fyrir skapandi greinar í takt við það sem Bandalag íslenskra listamanna hefur lagt fram.

Nokkur umræða varð í nefndinni um stöðu bæði safna og smærri verkefna og ákvað nefndin því að hækka nokkra liði af því tilefni, en þeir rúma aðeins brot af því sem beiðnir voru um. Nefni þar t.d. að undir þessu eru Breiðdalssetur í mínu kjördæmi, Fjallasalir og LungA, svo fátt eitt sé nefnt, en við þurfum, og ég tek undir það sjónarmið, að gera gangskör að því að koma þessu í viðunandi farveg þannig að við sitjum ekki upp með það að einhverjir gangi úr skaftinu.

Varðandi skattrannsóknir hefur komið fram að ríkisskattstjóri telur að skattundanskot nemi 80 milljörðum kr. miðað við umsvif í samfélaginu. Fleiri aðilar hafa lagt mat á þessa upphæð og talið hana umtalsvert hærri, eins og kemur fram í nýlegri fræðigrein í Nordic Tax Journal.

Skattsvik eru alvarleg meinsemd í samfélaginu. Því er brýnt að styrkja þær stofnanir ríkisins sem fara með skatteftirlit og efla þær til rannsókna og viðbragða við skattsvikum. Enginn vafi er á að það mun skila sér margfalt í auknum tekjum til samfélagsins og bætt skattskil verða einnig til að auka sátt og samheldni. Rétt hefði verið að mínu mati að taka fastar á þessum málum og auka fjárveitingar til þeirra meira en raun er á þótt vissulega beri að fagna þeim viðbótum sem fást í málaflokkinn við 2. umr.

Kynbundið ofbeldi snertir sláandi stórt hlutfall kvenna á Íslandi og eru úrræðin sem opinberir aðilar á vegum ríkis og sveitarfélaga búa yfir í engu samræmi við alvarleika málsins. Treysta þarf burði réttarvörslukerfisins til þess að koma lögum yfir kynferðisbrotamenn og tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota. Efla þarf menntun fagstétta og allra þeirra sem veita brotaþolum þjónustu og styrkja þarf bæði lögreglu og ákæruvald. Tryggja þarf að fjármagn til málaflokksins dreifist um landið þannig að þolendum verði tryggð viðeigandi úrræði sama hvar á landinu brotið er á þeim.

Mér er ljúft að segja að við sáum okkur fært, þ.e. nefndin, að styrkja Aflið sem starfar á Akureyri og sinnir mjög stóru svæði sem vert er að halda til haga og er í rauninni í sams konar starfi og Stígamót á höfuðborgarsvæðinu.

Loftslagsmálin og afleiðingar þeirra eru vissulega stærstu úrlausnarefni okkar samtíma. Ábyrg stjórnvöld þurfa að setja sér trúverðuga og metnaðarfulla áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og standa við hana. Kolefnisgjald er samkvæmt rannsóknum einhver áhrifaríkasta leiðin til að draga úr slíkri losun, en jafnframt er ljóst að gjaldið er of lágt til þess að það hafi tilætluð áhrif. Samkvæmt skýrslu frá OECD er kolefnisgjald á alþjóðavísu um 80% of lágt til þess að hafa tilætluð áhrif til að draga úr útblæstri. Sú hækkun um 10% sem hér kemur til á kolefnisgjaldi er því að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki nægilega há til þess að þjóna markmiðum um samdrátt í losun kolefna. Það er miður að tillaga um það skyldi hafa verið felld áðan.

Loftslags- og umhverfismál eru ekki lengur jaðarmálefni, þökk sé einarðri baráttu framsýns umhverfisverndarfólks og framlagi vísinda- og fræðimanna. Ljóst er að við þurfum að efla stöðu þessa málaflokks og styrkja langt umfram það sem gert var á síðasta kjörtímabili. Þetta verkefni verður meðal mikilvægustu úrlausnarefna nýrrar ríkisstjórnar.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna þegar kemur að umhverfismálum, sem við fjölluðum raunar ekkert um í þessu sameiginlega fjárlagafrumvarpi sem við erum að reyna að fá samþykkt, að þau mál urðu algjörlega undanskilin, því að þetta er auðvitað mikilvægur málaflokkur. Það væri hægt að segja óskaplega margt um hann en ég ætla aðeins að staldra við stöðu hans, þ.e. við þurfum að auka fé til umhverfisrannsókna, við þurfum að auka fé til náttúruverndar og miðlunar upplýsinga almennt um umhverfismál, ekki síst í ljósi aukins ferðamannastraums, því að það veldur þessu mikla álagi. Við þurfum að auka landvörslu og uppbyggingu innviða í þjóðgörðum. Mjög lítil hækkun verður á fjárveitingum til landvörslu og engan veginn nægileg til að bregðast við brýnni þörf og fjölga þarf líka heilsársstöðugildum í landvörslunni í samræmi við þá staðreynd að ferðamenn leggja leið sína um land allt allan ársins hring.

Það sama á í rauninni við um löggæsluna. Við þekkjum það álag sem hefur aukist á löggæsluna jafnt og þétt. Stöðnun er í fjölda stöðugilda. Lögreglumenn voru 652 talsins í febrúar 2011, en á sama tíma á þessu ári voru þeir 659.

Aukinn ferðamannastraumur um landið allt hefur haft mikið að segja um hið aukna álag, ekki síst í umdæmum sem eru fámenn en fá hundruð þúsunda gesta á ári hverju. Meiri umferð á vegum landsins og skortur á viðhaldi vega síðustu árin veldur fleiri umferðarslysum en áður, með tilheyrandi álagi fyrir lögregluna um land allt. Ég nefni Keflavík sérstaklega í þessu samhengi og bendi á að fjárveitingar til lögregluembættis Suðurnesja hafa ekki verið í neinu samræmi við vaxandi álag í landamæravörslu og öðrum verkefnum á alþjóðaflugvellinum. Einnig þarf að leiðrétta öfugþróun síðustu ára og tryggja að framlög til lögreglunnar verði slík að embættin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og boðið starfsfólki sínu upp á góð starfsskilyrði.

Þrátt fyrir að auknir fjármunir séu veittir í málaflokkinn í þessu frumvarpi er óralangt í að staðan geti talist ásættanleg.

Við þurfum líka að gera miklar úrbætur á rekstrarumhverfi hinna nýju sýslumannsembætta sem hafa verið vanfjármögnuð allt frá stofnun þeirra árið 2015. Þrátt fyrir sameiginlega niðurstöðu fjárlaganefndar um niðurfellingu uppsafnaðs rekstrarhalla að hluta, sem vissulega lagfærir stöðuna, stendur eftir að fjárþörf embættanna er enn ekki rétt metin og munu þau því búa við viðvarandi hallarekstur ef fjárheimildum til þeirra verður ekki breytt. Fjárlagafrumvarpið sem við fjöllum um núna leysir ekki þennan vanda og við blasir að leit að lausn hans verður meðal verkefna þeirra stjórnvalda sem hér komast til valda.

Ég held að við getum öll verið sammála um að Ísland á að vera ákjósanlegur staður fyrir ungt fólk til framtíðar. Við þurfum að tryggja barnafjölskyldum góðar aðstæður með stuðningi í formi barnabóta og lengra fæðingarorlofs. Við þurfum að hækka barnabæturnar og draga verulega úr tekjuskerðingu þeirra til jöfnunar á aðstæðum barnafólks. Sú hækkun á þaki sem tók gildi í október sl. er til bóta, vissulega, en lengingin í 12 mánuði ætti að vera forgangsmál og mikilvægt framlag ríkisins í því mikla hagsmunamáli foreldra að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar.

Eitt af því sem við tókum fyrir í nefndinni og gerðum sameiginlega tillögu um er samgönguáætlun. Við þurfum auðvitað að fullfjármagna samgönguáætlun til fjögurra ára. Sú samgönguáætlun sem samþykkt var mótatkvæðalaust haustið 2016 fól það í sér að verja skyldi allt að 100 milljörðum til samgöngubóta á gildistíma hennar.

Samgöngukerfið hefur verið vanrækt á undanförnum árum að því marki að öryggi vegfarenda er teflt í tvísýnu verði ekki ráðist í nauðsynlegar úrbætur. Við teljum að fjárþörf til þessa málaflokks sé að lágmarki 13 milljarðar í nauðsynlegar nýbyggingar, öryggismál og viðhald á vegum. Álagið á vegakerfið hefur stóraukist með þungaflutningum og stórauknum ferðamannastraumi að auki. Má í sjálfu sér segja að það veki furðu að sú ríkisstjórn sem hér hefur setið í þrjú og hálft ár hafi ekki hafið uppbyggingu í vegakerfinu strax í byrjun síðasta kjörtímabils, þegar fjárhagslegt svigrúm hafði þá þegar myndast. Í rauninni var þetta fyrsta samgönguáætlun fráfarandi ríkisstjórnar sem var samþykkt núna í haust, sem hún náði ekki að koma frá sér fyrr.

Það eru vonbrigði fyrir landsmenn að sú þverpólitíska niðurstaða um endurbætur á samgönguáætlun, sem lögð var fram og samþykkt af öllum flokkum í lok síðasta þings, skuli ekki fjármögnuð nema að þriðjungi í fjárlagafrumvarpinu. Það er þó mitt mat að samkomulagið sem náðst hefur um að takast á við allra brýnustu verkefnin í samgöngumálum sé þess eðlis að við getum veitt því brautargengi. Það eru dýrmætar framkvæmdir þar undir, m.a. Dettifossvegur, Herjólfur, Berufjarðarbotn, Dýrafjarðargöng, ásamt þeirri viðbót sem við settum í viðhald, sem er mjög brýnt.

Eitt af því sem við höfum rætt lengi og oft er ljósleiðarinn, háhraðatengingarnar. Oft finnst manni þegar talað er um þau mál að ekki séu allir meðvitaðir um hversu léleg hún er mjög víða, jafnvel þótt um sé að ræða þéttbýli þar sem eru fleiri en 500 manns, þar getur verið slök tenging. Átak í ljósleiðaravæðingu, Ísland ljóstengt, hefur staðið yfir. Það miðar að því að unnt verði að tengja um 99,9% lögheimila með heilsársbúsetu og atvinnuhúsnæðis með heilsársstarfsemi með 100Mb/s hraða fyrir lok ársins 2020. Eins og við þekkjum öll er mjög dýrmætt í samtímanum að hafa þetta í lagi. Bæði kemur það til út af einstaklingum sem þangað vilja flytja og búa og svo í rauninni vegna atvinnustarfsemi, því að enginn flytur á staði í dag þar sem léleg tenging er. Nemendur koma jafnvel ekki heim úr skóla um helgar vegna þess að þeir geta ekki unnið í verkefnunum sínum. Mér þykir miður að það viðhorf hefur ríkt í þessu máli að tengja sem flesta en ekki þá sem kannski þyrftu mest á því að halda, þ.e. á fámennum svæðum, þar sem enginn vill í rauninni standa að því að byggja það upp af einkaaðilunum.

Við teljum að Ísland eigi að taka þátt í þróunarsamvinnu með myndarlegum hætti og stórauka framlög til málaflokksins til samræmis við markmið Sameinuðu þjóðanna þannig að þau verði 0,7% af vergri landsframleiðslu. Íslensk stjórnvöld styðja þetta markmið í orði en hafa ekki sýnt það í verki því að framlög Íslands eru nú einungis 0,25% af vergri landsframleiðslu.

Í janúar 2017 er von á 47 flóttamönnum frá Sýrlandi sem eru hluti af þeim 103 flóttamönnum sem stjórnvöld ákváðu í september 2015 að taka á móti að beiðni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ég hef áhyggjur af því að í frumvarpinu er ekki fjármagn til að taka á móti þeim. Við vitum öll að umræddir einstaklingar munu eignast nýtt heimili hér á landi og okkur ber skylda til þess að fjármunir fylgi þeim til sveitarfélaga sem taka á móti þeim. Þetta eru níu fjölskyldur. Þau flytja í þrjú sveitarfélög og sveitarfélögin gera öll ráð fyrir því framlagi. Það verður að ráða fram úr þessu hið fyrsta og gera þeim kleift að taka á móti sýrlensku fjölskyldunum með sama hætti og gert hefur verið hingað til.

Ísland hefur ágæta burði til að taka á móti fleira flóttafólki en nú er gert. Hin langvarandi, ömurlega styrjöld í Sýrlandi og stríðsátök víðar í heiminum hafa valdið því að aldrei hafa fleiri verið á flótta í veröldinni en nú. Þessu verðum við að bregðast við, axla ábyrgð okkar í alþjóðasamfélaginu og bjóða hingað umtalsvert fleirum en nú er gert.

Við þurfum líka að bæta úr málefnum hælisleitenda hérlendis og jafna aðstæður þeirra og svokallaðra kvótaflóttamanna þegar kemur að aðlögun að samfélaginu eftir að hæli hefur verið veitt. Mikilvægt er að tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga sem taka gildi nú um áramótin með nægu fjármagni og mannafla.

Starfrækja á heilbrigðiskerfið á félagslegum grunni, það er mat okkar Vinstri grænna. Við teljum mikilvægt að hér byggist ekki upp tvöfalt kerfi þar sem hinir efnameiri geta keypt sér læknisþjónustu sem öðrum stendur ekki til boða.

Forgangsmál í félagslega reknu heilbrigðiskerfi er að kostnaði sjúklinga sé haldið í slíku lágmarki að hann fæli engan frá því að sækja sér þjónustu. Á árinu 2015 sóttu átta þúsund Íslendingar sér ekki heilbrigðisþjónustu vegna þess að þeir höfðu ekki ráð á því. Hér þurfum við að breyta um stefnu nú þegar. Við þurfum að draga markvisst úr greiðsluþátttöku sjúklinga í þessu skyni, og byrja á börnum, öryrkjum og öldruðum. Því eru það vonbrigði að fresta þurfi greiðsluþátttökufrumvarpinu sem átti að taka gildi 1. febrúar.

Mikið ósætti hefur ríkt í samfélaginu vegna hrakandi stöðu heilbrigðisstofnana og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og við í Vinstri grænum tökum undir það. Við tökum auðvitað undir kröfu þeirra 86 þúsund einstaklinga sem hafa með undirskrift sinni krafist þess að framlög til heilbrigðismála verði 11% af vergri landsframleiðslu á ári hverju og verði þannig sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Ljóst er að staða Landspítalans er grafalvarleg vegna fjárskorts og hefur svo verið í nokkurn tíma. Þjónustuþörf eykst árlega vegna fjölgunar sjúklinga og breytinga í aldurssamsetningu þjóðarinnar. Í aðdraganda nýliðinna kosninga töluðu stjórnmálamenn einum rómi um að endurreisn heilbrigðiskerfisins væri efsta forgangsmál, en enn lítur út fyrir að landsmenn sjái fram á þjóðarsjúkrahús sem heldur sjó í stað þess að bæta í, þrátt fyrir samkomulag sem náðist á milli flokkanna um aukið fjárframlag. Fjármuni vantar enn til þess að raunveruleg endurreisn geti hafist.

Alvarlega stöðu í heilbrigðiskerfinu má auðvitað sjá víðar en hjá Landspítalanum. Heilbrigðisstofnunum á landinu öllu hefur verið sniðinn þröngur stakkur um árabil og telja má augljóst að aðhaldskröfur síðustu ára á stofnanirnar hafi verið of miklar í ljósi þröngrar stöðu þeirra nú. Ekki er nóg að gert í tillögum frumvarpsins til að þessum mikilvægu hornsteinum velferðar í héraði sé tryggður eðlilegur rekstrargrundvöllur, þótt ánægjulegt sé að samstaða hafi náðst um einhver skref í þá átt.

Varðandi háskólana þekkjum við fjársvelti þeirra og alvarlega stöðu. Öflug háskólamenntun er mikilvægasta leiðin til að tryggja hagsæld til framtíðar, atvinnuuppbyggingu sem byggist á frumkvæði og nýsköpun einstaklinga. Við þurfum að taka markviss skref í átt að því að framlög á hvern háskólanema nái sem fyrst meðaltali OECD og í kjölfarið verði þau hækkuð þannig að Ísland standi jafnfætis öðrum Norðurlöndum í takt við samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs. Rektorar allra háskólanna á Íslandi hafa sameinast um yfirlýsingu um undirfjármögnun háskólanna og áhyggjur sínar af stöðunni og tekur Vinstri hreyfingin – grænt framboð undir þær áhyggjur.

Hvað varðar framhaldsskólana teljum við mikilvægt að þeir verði aftur öllum opnir, ekki aðeins þeim sem eru yngri en 25 ára. Við þurfum að auka framlög með hverjum nemanda án þess að horfið sé til aðgerða sem eru fjöldatakmarkanir í reynd. Við þurfum að tryggja faglegt sjálfstæði framhaldsskólanna og gera minni skólum úti á landi kleift að hafa fjölbreytt námsframboð. Við þurfum líka að sjá til þess að þeir skólar sem hafa tekið að sér að reka framhaldsdeildir, nefni ég t.d. Þórshöfn og Vopnafjörð sem eru undir Laugaskóla, að þeim verði tryggt fjármagn til þess að geta haldið áfram. Vopnafjörður er t.d. aðeins með samþykkt til vorsins. Þá dettur deildin niður verði ekkert að gert. Ég tel að við höfum landað því í þessu samkomulagi okkar. Við þurfum samt sem áður að huga vel að því þegar fram í sækir að þurfa ekki að takast á við slíkt á ári hverju, heldur að þetta sé tryggt inn í grunn þeirra skóla sem halda utan um þær deildir.

Að lokum, forseti, vil ég að segja að til að ná þessu öllu saman voru gerðar breytingar á þremur lagabálkum, þ.e. fjárlögum, fjáraukalögum og lokafjárlögum. Til að geta mætt þeim kröfum sem þessir sjö flokkar settu fram náðist sem betur fer að skerpa aðeins á því og gera örlítið betur en lagt var af stað með. Ég vona svo sannarlega að þeir sem taka hér við sjái að gera þarf svo miklu betur, ekki bara í þeim málaflokkum sem við í nefndinni tókumst á við heldur miklu víðar í samfélaginu. Ég treysti því, sama hvaða ríkisstjórn verður við völd, að svo muni verða.