146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skil það þannig að menn ætli sér líka að skoða sjávarútveginn. En ég verð að segja að það kom mér örlítið spánskt fyrir sjónir þegar ég sá allar tillögurnar um mögulegar skattahækkanir að ekki var litið sjávarútvegsins og þeirra kerfisbreytinga sem við m.a. í Viðreisn viljum sjá gerðar að einhverju leyti í sjávarútvegi. Við höfum sagt það skýrt og klárt að við teljum að sjávarútvegurinn eigi að borga aukið afgjald til þjóðarinnar vegna aðgangs að sameiginlegri auðlind.

Ég vil undirstrika aftur að að mínu mati var mjög margt sem kom fram í góðri ræðu hv. þingmanns. Í ljósi vinnubragða hér á þingi get ég tekið undir margt sem kom til að mynda fram á síðasta þingi. Menn sammæltust um samgönguáætlun. Það kann vel að vera að hægt sé að gagnrýna það að menn hafi farið offari, m.a. út af kosningum, það bara gerist, það er gömul saga og ný. En þetta eru mikilvægar breytingar sem við þurfum að skoða, þ.e. innan samgöngumálanna, í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustunnar og skoða það heildstætt. Það tel ég mikilvægt, m.a. með tilliti til umræðunnar um komugjald, um gistináttagjald, við í Viðreisn höfum talað um bílastæðagjöld, virðisaukaskapandi gjöld, til þess að reyna að skoða ferðaþjónustuna heildstætt.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að til þess að byggja upp fagmennsku í kringum ferðaþjónustuna þurfum við að tengja sem flesta þætti? Ég vil fagna sérstaklega aukinni innspýtingu í löggæsluna, sem þarf svo sannarlega á henni að halda. En allt þetta skiptir máli, efling löggæslunnar, styrking samgöngumannvirkja og það að taka aukin gjöld með einhverjum hætti af ferðaþjónustunni, til stuðla að enn öflugri ferðaþjónustu og öflugri atvinnugrein, því að ferðaþjónustan er alveg ótrúleg eins og hún er í dag og það hvernig greinin hefur byggst upp á jafn skömmum tíma. Það er alveg ótrúlegt hvað við Íslendingar höfum áorkað innan þessarar spennandi atvinnugreinar.