146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að hafa örfá orð um fjárlagafrumvarpið eins og það lítur núna út eftir samvinnu manna í hv. fjárlaganefnd. Eins og hefur komið klárlega fram hjá þeim fulltrúum hv. fjárlaganefndar sem hafa talað eru þetta mjög sérstakar aðstæður. Hér er leitast við að ná samstöðu um nauðsynlegustu útgjöld. Það er ekki endilega verið að takast á við hinar stóru, pólitísku línur eða spurningar í frumvarpinu heldur reynt að ná samkomulagi um tiltekin stór mál. Um leið væntum við þess að þegar pólitískur meiri hluti myndast væntanlega á þingi verði tekist á við annars vegar efnahagsástandið og hins vegar þau mál sem ekki eru leyst í breytingum fjárlaganefndar. Þau eru auðvitað fjöldamörg.

Ég vil nota tækifærið í upphafi og segja að það er mikilvægt að í staðinn fyrir að gefast upp fyrir því verkefni sem blasti við þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, auðvitað mun seinna en venjulega, og fara einfaldlega í það að leggja til útgreiðsluheimildir úr ríkissjóði er reynt að takast á við stærstu málin. Ég nefni þau mál sem hér eru undir, heilbrigðismál, menntamál, samgöngumál og nokkrar aðrar breytingar sem lagðar eru til í samkomulagi. Þó vil ég segja að það er áhyggjuefni á meðan pólitískur meiri hluti hefur ekki myndast á þinginu hvernig við ætlum að takast á við þenslumerkin í hagkerfinu sem síðasti ræðumaður hér á undan mér, hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, kom aðeins að í ræðu sinni.

Við sjáum öll merki um þenslu og ofhitnun sem við þurfum að taka mark á. Við höfum séð öll varúðarmerki á lofti. Innflutningur er meiri en útflutningur þó að ferðaþjónustan bæti það aðeins upp með jákvæðum þjónustujöfnuði. Við erum með talsverðar launahækkanir á markaði á sama tíma og ráðist hefur verið í skattalækkanir. Verð á húsnæði hækkar langt umfram verðlag. Það eru ýmis þenslumerki. Við þurfum að hlusta. Ég tel að það hljóti að vera verkefni annaðhvort nýs pólitísks meiri hluta sem væntanlega verður myndaður eða í það minnsta Alþingis að setja saman aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að takast á við þensluna í byrjun næsta árs. Það tel ég vera ákveðið forgangsverkefni. Ég gerði að umræðuefni í gærkvöldi í umræðum um tekjuöflun að hægt er að nýta skattkerfið til þess. Það er líka hægt að nýta aðrar leiðir. En aðalmálið er að draga þarf úr peningamagni í umferð og fjármagna útgjöld með ábyrgum hætti. Til þess er hægt að beita ábyrgri tekjuöflun á borð við þá sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til.

Vandinn er sá að á sama tíma blasir við mikil þörf á uppbyggingu. Þrátt fyrir aukaframlag sem hér er lagt til, og ég styð að sjálfsögðu eindregið, til samgöngumála svo dæmi sé tekið, er samgönguáætlun sem samþykkt var fyrir nokkrum vikum, tveimur mánuðum líklega, ekki fullfjármögnuð. Allir hv. þingmenn þekkja stöðuna í þeim málaflokki og er ágætlega gert grein fyrir henni í nefndaráliti hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur þar sem hún nefnir þau brýnu verkefni sem bíða okkar.

Hér hefur talsvert mikið verið rætt um heilbrigðismálin. Þau eru þingmönnum ofarlega í huga. Við horfum til þess að hefja þarf uppbyggingu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þar er miðja íslensks heilbrigðiskerfis sem skiptir máli fyrir alla landsmenn, ekki bara þá sem búa á suðvesturhorninu. Við þurfum að ná sátt um hvernig við ætlum að standa að uppbyggingu, ekki bara nýs húsnæðis fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús sem á að rísa við Hringbraut heldur líka hvernig við ætlum að byggja upp starfsemina, gera þær breytingar sem þarf að gera og bent hefur verið á í umræðum. Við þurfum einnig að ná sátt um hvernig við ætlum að tryggja viðunandi framlög. Það breytir því ekki að byggja þarf líka upp aðra þætti. Ég nefni að sjálfsögðu heilsugæsluna sem þarf að verða í raun og sann fyrsti viðkomustaður.

Það eru fleiri hér sem ég hygg að muni ræða heilbrigðismálin þannig að mig langar sérstaklega að ræða menntamálin. Ákveðin viðbót er lögð til í menntamál í breytingartillögunum. Hún nær ekki því sem rektorar háskólanna hefðu viljað sjá fara til háskólastigsins. Það er gríðarlegt áhyggjuefni að í raun má segja að lítið hafi gerst hvað varðar fjármögnun háskólastigsins undanfarinn áratug. Hér hefur verið nokkuð skýr stefna mörkuð og ítrekuð nú síðast 2014 af Vísinda- og tækniráði, þar sem hæstv. ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar sitja við borðið, um að framlög á hvern nemanda eigi að ná meðaltali OECD-ríkjanna. Samkvæmt yfirlýsingu frá rektorum háskólanna sem barst okkur þingmönnum fyrir örfáum dögum vantar 8 milljarða upp á að ná þessu meðaltali. Það vantar 16 milljarða til að ná meðaltali Norðurlandanna þegar kemur að framlagi á hvern nemanda. Þetta hlýtur að vera okkur öllum mikið umhugsunarefni. Þegar við lítum til fjárfestingar í menntun skilar hún sér að sjálfsögðu margfalt til baka. Ef við lítum til þess atvinnulífs sem við viljum byggja upp til framtíðar er það væntanlega atvinnulíf sem við viljum að byggist á hugviti, þekkingu, nýsköpun. Það atvinnulíf mun ekki byggjast upp nema í kringum öfluga háskóla. Þannig er það. Við höfum séð það byggjast upp í kringum þá háskóla sem við eigum, þaðan höfum við séð okkar nýsköpunarfyrirtæki koma fram. Þau hafa verið sprotar í þessu umhverfi. Það er eiginlega sama hvert er litið, til hvaða geira, þarna verður til það þekkingarmiðaða atvinnulíf sem allir flokkar, held ég, hafa á stefnuskrá sinni og snýst einmitt um aukna verðmætasköpun sem okkur verður svo tíðrætt um.

Ef við vanrækjum grunninn, stöndum ekki almennilega að honum, munum við ekki auka þau verðmæti með sama hætti og við gætum gert. Þó að ég styðji að sjálfsögðu heils hugar þá aukningu sem hér er lögð til til skóla- og menntamála, aðallega til háskólanna en þó að einhverju leyti til framhaldsskólanna líka, þurfum við að gera miklu betur í þeim efnum og horfa á þessa fjármuni ekki sem útgjöld heldur fjárfestingu. Það er stundum talað eins og við getum í raun og veru ekki látið neitt af hendi rakna til velferðar eða menntamála nema efnahagurinn og atvinnulífið sé traust. En að sama skapi segi ég: Ef við byggjum ekki undirstöðurnar, velferðarkerfið og menntakerfið, mun efnahagurinn og atvinnulífið ekki vera traust. Þetta er ekki spurning um hvað kemur á undan heldur er þetta spurning um víxlverkun. Þess vegna kalla ég eftir því að sú stefnumörkun sem hefur verið samþykkt, eins og ég segi af ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar í Vísinda- og tækniráði, verði að veruleika. Við þurfum að horfa til þess að við leggjum bæði aukna fjármuni í háskólastigið en líka til skipulags þess stigs þannig að þeir fjármunir nýtist sem best.

Mig langar að nefna nokkur mál sem ég lít svo á að bíði frekari pólitískrar umræðu þar til við tökumst á við væntanlegt frumvarp til fjáraukalaga á árinu 2017. Það eru ýmsir málaflokkar sem kalla á að við horfum til lengri tíma. Ég hef nefnt hér áður umhverfismálin í tengslum við breytingartillögur í tekjuöflun, sérstaklega landvörsluna. Með auknum fjölda ferðamanna er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að efla heilsárslandvörslu, hvort sem er á friðlýstum svæðum eða á öðrum vinsælum ferðamannastöðum. Uppbygging í ferðamálum snýst ekki bara um einhverjar framkvæmdir með hamar og nagla á lofti heldur líka rekstur svæðanna. Þar skiptir landvarslan lykilmáli.

Mig langar líka að nefna menningarmálin sem við tökum í raun afskaplega lítið á í frumvarpinu. Þar held ég að við séum stödd á sama stað og í menntamálunum. Ég lít svo á að útgjöld til þessa málaflokks megi líta á sem fjárfestingu. Þar höfum við séð að menning er ekki bara mikilvæg sjálfrar sín vegna, hún er líka atvinnuskapandi. Fyrir utan að gera lífið skemmtilegra hefur hún efnahagslegt gildi. Þar hefur um nokkurra ára skeið verið boðuð sóknaráætlun á sviði skapandi greina. Ég held að það hafi verið gert fyrst 2013. Ég hef enn ekki séð þá sóknaráætlun líta dagsins ljós, því miður, þótt hún hafi verið boðuð af núverandi starfsstjórn. Þarna finnst mér við hafa misst af og týnt tækifæri á undanförnum árum, tækifæri til þess að ráðast í sókn á þessu sviði. Það er nátengt menntamálunum. Þess vegna fagna ég því sem kemur fram í áliti fjárlaganefndar, að sérstaklega eigi að huga að stöðu Listaháskólans þegar kemur að framlögum til háskólastigsins. Listaháskólinn hefur vissulega verið olnbogabarn í íslenska háskólakerfinu. Það skiptir máli að við tökum alvarlega þá ákvörðun sem var tekin á sínum tíma, þá góðu ákvörðun, að stofna listaháskóla. Þar skiptir í senn máli að reksturinn sé tryggður, að við tryggjum líka að þar sé hægt að stunda rannsóknir eins og á öðrum fræðasviðum háskólanna og það þarf líka langtímasýn þannig að við sjáum þann skóla komast undir eitt og sama þak eins og að hefur verið stefnt. Það steytti á skeri í hruninu en er tímabært að setja niður framtíðarsýn um.

Ég vil nefna eins og gert er í nefndaráliti hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur mál sem kannski er ekki mikið rætt þegar við ræðum stóru málin hér heima. Það er þróunarsamvinna. Við tókumst talsvert á um þróunarsamvinnu á síðasta þingi þegar Þróunarsamvinnustofnun var lögð niður og gerð að deild í utanríkisráðuneytinu. Þá var því miður ekki lögð fram ný áætlun um framlög til þróunarsamvinnu. Þau hafa því miður verið skorin niður og áætlun um framlög til þróunarsamvinnu hefur ekki verið fylgt eftir. Þar kemur Ísland skammarlega út, leyfi ég mér að segja, í alþjóðlegum samanburði. Þegar við lítum á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, ríkidæmi þjóðanna, þegar við lítum til þess hvernig vöxturinn hefur verið hér á landi á undanförnum árum og þegar við horfum á þörfina í þeim löndum sem við höfum stutt við og hafa nýtt þá fjármuni sem við höfum veitt í þessi verkefni til þess að byggja sig upp og hjálpa sér sjálf, þá er það auðvitað skammarlegt að við leggjum í þessi verkefni 0,25% af vergri landsframleiðslu en markmið Sameinuðu þjóðanna er 0,7% af vergri landsframleiðslu. Hér var búið að samþykkja áætlun á þarsíðasta kjörtímabili með öllum atkvæðum nema einu um það hvernig við ættum í það minnsta að stefna að þessu markmiði, ekki hvernig við ætluðum að ná því markmiði, upp á 0,7%, heldur stefna að því. En því miður er það svo að við höfum í raun færst fjær markmiðinu en hitt. Við skulum hafa í huga að þessi framlög eru ekki þensluhvetjandi, nema annars staðar í heiminum þar sem virkilega er þörf á aukinni þenslu.

Þegar við ræðum þá stöðu sem er í heiminum í dag, ræðum flóttamannafjöldann og helmingur þessara flóttamanna er börn á flótta, ræðum það fólk sem er á flótta, ýmist undan stríði og hörmungum eða fátækt og erfiðum aðstæðum heima fyrir, þegar við horfum á þá þróun sem er fram undan í loftslagsmálum í heiminum, þá fyrirséðu þróun þar sem við vitum að fjöldi fólks mun þurfa að yfirgefa heimili sín og fara á flótta, ætti það að vera okkar metnaðarmál að auka framlögin og hjálpa þessu fólki að byggja sig upp þannig að það geti tekist á við þann vanda sem við vitum að er fram undan. Það hafa velflestar nágrannaþjóðir okkar gert með því að auka framlög sín upp í markmið OECD. Meira að segja Bretar gerðu það undir hægri stjórn í miðri kreppu, fóru upp í markmiðið 0,7%. En við sitjum enn í 0,25%. Maður er nú oft dapur yfir ýmsu sem gerist í pólitíkinni en þetta er eitt af því sem gerir mig a.m.k. hvað daprasta.

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara í frekari upptalningu á málaflokkum. Það mætti æra óstöðugan ef haldið yrði áfram með það. Sú umræða bíður og ég vil segja að lokum að það er mikilvægt að við höfum náð á þessum stutta tíma a.m.k. sátt um að við viljum setja ákveðnar viðbætur í stóra málaflokka sem ég vona að muni skipta máli. Það skiptir máli að við séum líka með þann sameiginlega skilning að við eigum fjöldamörg verkefni eftir sem bíða okkar við aðrar kringumstæður. Sú umræða bíður en ég tel að þessi lending sé þó miklum mun betri en að hafa ráðist í einfaldar útgreiðsluheimildir. En ég segi það líka að stærsta verkefnið fram undan, að ég tel, er að takast með sannfærandi hætti á við stöðuna í efnahagskerfinu því að til þess að við getum staðið að allri þeirri uppbyggingu sem við erum sammála um, hvort sem er í heilbrigðismálum, menntamálum, nú eða að veita aukna fjármuni til þróunarsamvinnu, þá þurfum við að sjálfsögðu að reka ábyrga efnahagsstefnu og vera pólitískt reiðubúin að ráðast í aðgerðir til að glíma við þensluna. Við vitum öll sem hér erum að þær aðgerðir eru ekkert endilega líklegar til pólitískra vinsælda. En þær skipta samt sem áður máli til þess að hér verði hægt að halda sjó og að við lendum ekki í annarri kollsteypu en tryggjum um leið að við hlúum að innviðunum.

Því vil ég segja að lokum: Hvað sem fólki kann að finnast um margháttaða tekjuöflun held ég að undan henni verði ekki komist á næstu árum ef við ætlum að ná þessum markmiðum. Það kann vel að vera eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kallaði eftir í andsvari, hún saknaði tillagna í ítarlegu tillöguplaggi okkar Vinstri grænna hér fyrr í dag um auðlindagjald. Ég tek undir með henni. Ég held að það sé tilvalið tækifæri til að takast á við það í janúarmánuði hvernig við ætlum að sjá til þess að aukinn arður af auðlindinni renni til samfélagslegra verkefna. En burt séð frá því held ég að við stöndum frammi fyrir því verkefni að við munum þurfa að grípa til aðgerða til þess að takast á við þessa stöðu í efnahagsmálum. Ég held að þá verði ekki síður mikilvægt að reyna að skapa einhverja sátt í þinginu um aðgerðir sem dugi til þess að forða okkur frá hrakförum á hinu efnahagslega sviði.